Í dag og á morgun fara fram kosningar til Stúdentaráðs og Háskólaráðs í Háskóla Íslands. Þá ganga stúdentar skólans að kjörborðinu og velja sér forystu næsta árið. Í ár er valið mjög skýrt. Vilja stúdentar trúverðuga og öfluga hagsmunabaráttu eða stúdentaráð sem dregur taum stjórnmálaflokka og beitir sér í pólitískum málum? Fyrir langflesta er svarið einfalt.
Í fyrsta sinn í nokkur ár eru aðeins tvö framboð sem bjóða fram til Stúdentaráðs. Valið stendur því á milli tveggja fylkinga, Vöku og Röskvu, sem eiga margt sameiginlegt en þó enn fleira sem skilur þær að. Sýn þessara tveggja fylkinga á hlutverk Stúdentaráðs er til að mynda gjörólík. Vaka telur að Stúdentaráð eigi að einbeita sér að hagsmunamálum sem varða stúdenta beint, enda af nógu að taka í málefnum þeirra. Röskva telur hins vegar að Stúdentaráð eigi að vera einhvers konar rödd stúdenta út í þjóðfélaginu og láta sig ýmis pólitísk málefni varða. Þar eru mörkin ekki dregin við mál sem varða stúdenta beint, heldur óskar félagið nánast eftir opnum tékka til þess að álykta og tjá sig í nafni stúdenta um hin og þessi málefni.
Fái Vaka til þess umboð viljum við gera Stúdentaráð sýnilegra. Nokkur ládeyða hefur verið yfir ráðinu í starfsárinu sem nú er senn að líða. Við viljum einnig endurvekja réttindaskrifstofu stúdenta en hún hefur svo gott sem legið í dvala mest allt árið. Þegar meginþorri stúdenta veit ekki hvar hann getur leitað réttar síns og leitar ekki aðstoðar hjá Stúdentaráði, þá eru þeir sem leiða starfið ekki að skila sínu. Vaka vill að Stúdentaráð sé öllum opið og vinni í þágu stúdenta en sé ekki á stalli fyrir ofan stúdenta.
Viðfangsefni Háskóla Íslands og stúdenta þar eru fjölmörg. Aðstöðu okkar á háskólasvæðinu þarf að bæta og laða að aukið fjármagn inn í skólann, m.a. til þess að bæta við húsakostinn og stuðla að betri kennslu. Stúdentaráð getur látið til sín taka á þessu sviði – bæði með því að kjörnir fulltrúar stúdenta sýni frumkvæði sjálfir og gangi í málin en líka með því að tala máli framfara í Háskóla Íslands út á við gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og atvinnulífinu. Skólinn okkar hefur sett sér það markmið að komast í hóp bestu skóla í heiminum. Það er háleitt markmið og margt þarf að gerast til þess að svo geti orðið en með framlagi og sjálfboðastarfi okkar stúdenta getum við lagt hönd á plóginn til þess að markið náist. Í þessum bjartsýna anda mun Vaka starfrækja Stúdentaráð, fái félagið til þess umboð í kosningunum.
Það er kosið í öllum byggingum Háskólans í dag og á morgun, milli 9 og 18. Ég vil hvetja nemendur Háskóla Íslands til að fjölmenna á kjörstað. Góð kosningaþáttaka er merki þess að stúdentar láti sig málefni sín varða og sé ekki sama hverjir það eru sem stýra hagsmunabaráttu þeirra.
Í dag kjósum við um hverjir munu stýra Stúdentaráði næsta árið. Setjum því x við A.
Trúverðug hagsmunabarátta er í húfi!
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021