Alvöru hagsmunabarátta – kjóstu Vöku!

Á miðvikudag og fimmtudag fara fram kosningar til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Í þessum kosningum fá stúdentar tækifæri til þess að velja á milli þess að Vaka komist aftur í meirihluta eða hvort Stúdentaráð eigi að sofa þyrnirósarsvefni annað árið í röð.

Það er gömul tugga að segja að enginn munur sé á Vöku og Röskvu, fylkingarnar hafi sömu stefnumálin, beiti sömu aðferðunum og séu í raun að draga úr mætti Stúdentaráðs með því að bjóða sig fram í sitthvoru lagi í stað þess að nýta krafta sína til þess að mynda öflugra Stúdentaráð. Raunin er þó sú að fylkingarnar eru mjög ólíkar varðandi þær aðferðir sem þær nota til að reyna að ná árangri í hagsmunabaráttu stúdenta og þá sýn sem fylkingarnar hafa á hvert hlutverk Stúdentaráðs eigi að vera.

Afstaða Vöku er sú að Stúdentaráð eigi að einbeita sér fyrst og fremst að hagsmunamálum stúdenta og stærri málum sem varða alla stúdenta sameiginlega. Vaka hafnar þeim hugmyndum Röskvu að Stúdentaráð eigi að beita sér í pólitískum deilumálum sem snerta ekki stúdenta sérstaklega. Vaka telur að Stúdentaráð eigi ekki að álykta fyrir hönd allra stúdenta um málefni sem stúdentar eru ekki sammála um, hvort sem um er að ræða launaleynd, flugvöllinn í Vatnsmýrinni eða reykingabann á skemmtistöðum. Stúdentaráð á að einbeita sér að málefnum Háskólans því þar er af nógu að taka og mikið verk að vinna.

Vaka telur einnig að Stúdentaráð eigi að vera ákveðið framkvæmdaafl innan skólans sem getur látið til sín taka innan Háskólans. Stúdentaráð á að vinna með stjórnvöldum og háskólayfirvöldum í því að gera skólann betri. Til þess þarf að sýna frumkvæði og það hefur Vaka gert undanfarin ár eins og sést best á því hvernig Vökuliðar hönnuðu og bjuggu til Stúdentakortin, sem eru í dag meðal annars aðgangskort að byggingum á háskólasvæðinu. Það var að frumkvæði Vökuliða að sú vinna fór í gang eftir að málið hafi velskt um í stjórnsýslu skólans um árabil. Að sama skapi þurftu stúdentar lengi vel að sætta sig við að byggingar skólans lokuðu á kvöldin og gátu jafnvel ekki nýtt sér sína eigin aðstöðu í prófatíð.

Með því að taka frumkvæði í málefnum Háskólans hefur Vaka náð árangri í hagsmunamálum stúdenta á undanförnum árum. Stúdentakortin, prófasafnið á netinu, próf.is og Réttindaskrifstofa Stúdentaráðs eru örfá dæmi um árangur sem hefur náðst með því að taka af skarið í málefnum Háskólans í stað þess að meirihluti ráðsins leggi mesta áherslu á að fabúlera um vilja stúdenta í skólanum til þjóðfélagslegra deiluefna sem koma Stúdentaráði ekki sérstaklega við.

Aðferðir Vöku virka og því er nauðsynlegt að stúdentar veiti félaginu umboð til þess að stýra starfi Stúdentaráðs á næsta starfsári svo við fáum loks aftur að sjá raunverulegan árangur í hagsmunamálum stúdenta.

Ég vil að lokum hvetja alla stúdenta við Háskóla Íslands til að kynna sér stefnumál Vöku sem er að finna á www.vaka.hi.is og taka upplýsta ákvörðun í komandi kosningum.

Áfram Vaka X-A

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)