Mér vafðist tunga um tönn þegar ákvað að setja saman nokkur orð um ástandið í Afríku þessa dagana. Upphaflega ætlaði ég að tala um Kenýa, en þá skyndilega varð Tsjad alls staðar fyrsta frétt.
Kenýa
Í Kenýa fóru fram kosningar í lok desember þar sem sitjandi forseti Mwai Kibaki fór með sigur af hólmi. Þó kosningaúrslitin hafi verið fölsuð er óljóst hvort eða með hversu litlum mun stjórnarandstaðan undir forystu Raila Odanga hefði farið með sigur af hólmi.
Í kjölfar þess að Kibaki lýsti yfir sigri brutust út átök í fátæktrarhverfum Nairobi, höfuðborgar Kenýa. Átökin breiddu síðan úr sér um landið þar sem línur voru dregnar út frá ættbálkum; annað hvort Kikuyu (sem Kibaki tilheyrir) gegn Luo ættbálknum (sem Odanga tilheyrir) eða Luo og aðrir minnihlutaættbálkar gegn Kikuyu. Kirkjur fullar af fólki hafa verið brenndar, fólk rekið úr húsum sínum og þau brennd og lögreglan með skipanir um að skjóta til að drepa. Að minnsta kosti 1000 manns hafa látið lífið í óeirðunum og yfir 200.000 hrakin frá heimilum sínum.
Kofi Annan hefur undanafarið leitt viðræður milli aðila og í lok síðustu viku virtust menn að minnsta kosti vera að ná saman um hvað skyldi ræða í samningaviðræðunum og leiðir til að enda ofbeldið í landinu. Að mati Annan eru aðrar kosningar útilokaðar, þar sem óvíst er að aðilar sættu sig við niðurstöður þeirra eða að fólkið mundi treysta þeim. Eitt er ljóst en það er að áframhaldandi átök og óeirðir grundvölluð á ættbálkum geta rústað Kenýa sem undanfarið hefur verið meðal stöðugustu ríkja álfunnar.
Tsjad
Sé sögunni vikið að Tsjad að þá hafa undanfarið staðið yfir bardagar milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna í höfuðborginni Ndjamena. Franski herinn hefur síðustu daga stjórnað aðgerðum í höfuðborginni til að flytja á brott erlenda borgara.
Forseti landsins Idriss Debry náði völdum með valdaráni árið 1990. Síðan þá hefur hann unnið þrennar kosningar, en úrslit þeirra hafa verið dregin í efa. Ein kveikjan að uppreisininni er að Debry breytti stjórnarskránni árið 2006 þannig að hann gæti boðið sig fram í þriðja skiptið í röð. Uppreisnarmenn hafa á þessum tíma náð að stilla saman strengi sína og máttur þeirra aukist. Einn leiðtoga þeirra er frændi og fyrrum stuðningsmaður Debry. Barátta stjórnar og uppreisnarmanna er því ekki með jafn skýrar ættbálkalínur eins og í Kenýa.
Menn óttast að óeirðirnar í Tsjad hafi áhrif á óstöðugt ástandið í Darfur. Um 250.000 Darfurbúar hafa flúið yfir til Tsjad og haldið til í skjóli evrópskra friðargæsluliða í austurhluta Tsjad. Áformað hafði verið að um 4000 evrópskir friðargæsluliðar kæmu til Tsjad í janúar 2008 til að hjálpa flóttafólki frá Darfur. Líkum hefur því verið leitt að því að uppreisnin sé skipulögð núna og studd af stjórnvöldum í Súdan til að setja það ferli í uppnám. Meðan átök geisa í Tsjad er ljóst að ekkert verður af því að ná friði í Súdan.
Til frekari fræðslu læt ég fylgja vefslóð á kort af Afríku þar sem lesendur geta spreytt sig á því að finna staðsetningu allra landa í Afríku, þar á meðal Kenýa, Tsjad og Súdan. http://www.maps.com/games/africa.html
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020