Skyndibitakeðjunni Mc’Donalds var í vikunni heimilað að bjóða upp á námskeið sem nýst gætu til stúdentsprófs eða sk. A-level prófgráðu á Bretlandi. Þetta minnir að sjálfsögðu mjög mikið á prófgráðu í Cheerios pakka en þegar öllu er á botninn hvolft þá er hugmyndin ekki galin.
Nokkur stórfyrirtæki á Bretlandi hafa fengið heimild frá breskum menntayfirvöldum til að bjóða upp á s.k. þriðju og fjórðu gráðu námskeið sem gætu veitt fulla prófgráðu eða hluta úr prófgráðu á borð við A-level eða Diploma. A-level prófgráðan er sú gráða á Bretlandi sem stúdentar þurfa til að geta hafið háskólanám. Það eru fyrirtækin Mc’Donalds, Flybe og Network Rail sem eru fyrst til að fá leyfi til að bjóða upp á slíkt nám.
Mörgum gæti þótt nám af þessu tagi harla ómerkilegt og lítt í líkingu við það akademíska og verklega nám sem boðið er upp á í öðrum menntaskólum og viðurkenndum menntastofnunum. Ýmsir háskólar á Bretlandi hafa þegar lýst því yfir að þeir muni ekki taka við stúdentum sem hafa nælt sér í MC’Diploma og það er greinilegt að margir efast um ágæti þessarar framkvæmdar og hafa áhyggjur af því að hún muni lítilsvirða og rýra gildi prófgráðanna almennt. Þessar áhyggjur eru ástæðulausar ef að kröfurnar sem liggja að baki prófgráðunum eru skýrt skilgreindar og að þeir aðilar sem fara með það hlutverk að skilgreina þær treysta sér til að hafa eftirlit með gæðum námsins.
Þátttöku atvinnulífsins í menntun og endurmenntun þeirra einstaklinga sem kjósa fremur að hella sér út í atvinnulífið að lokinni skólaskyldu en að afla sér menntunar eftir hefbundnari leiðum ætti að fagna. Að auki eru þessar hugmyndir algjörlega í takt við þau sjónarmið að einkaðilar eigi ríkt erindi inn á svið menntunar og kennslu og fjölgun einkaskóla og fjölgun nemenda í fjarnmái og námi með vinnu hér á landi er staðfesting á því að mikil eftirspurn er eftir sveigjanlegri námsleiðum. Það ætti ekki heldur að skipta neinu máli hvort að það er Einkaskólinn ehf eða Einkafyrirtækið ehf sem standa að baki náminu svo lengi sem að allar kröfur menntayfirvalda eru uppfylltar.
Í nýrri menntastefnu menntamálaráðherra er mjög margt gott og meðal áhersluatriða eru aukið frelsi framhaldsskóla til að stýra námsframboði og námsleiðum fyrir sína nema. Stjórnendur í viðskiptalífinu hafa einnig lýst yfir vaxandi áhyggjum yfir því að skólarnir eru ekki að skila hæfum starfskröftum út á vinnumarkaðinn og krafan um meistaranám er orðin æ sterkari. Augljóslega gæti aukin flóra sérhæfðari námsleiða skilað hæfara starfsfólki út í atvinnulífið.
Það væri áhugavert að skoða hvort ekki væri hægt að opna fyrir svipaða hluti í íslenskum lögum þar sem fyrirtækjum væri heimilt að halda námskeið á ýmsum stigum hvort heldur sem væri um að ræða Diploma, e.k. endurmenntun eða meistaragráðu á háskólastigi eða jafnvel grunnnám sem nýst gæti til stúdentsprófs eða álíka. Ég hugsa að þónokkur íslensk fyrirtæki sem njóta virðingar í atvinnulífinu hafi burði til að bjóða upp á slíkt nám og gætu gert það vel. Maður sér það alveg fyrir sér að fyrirtæki á borð við Nýherja, Actavis og Landsbankann gætu boðið upp á sérhæft nám innan síns geira og mörg fyrirtæki taka nú þegar virkan þátt í endurmenntun síns starfsfólks með námsstyrkjum og sveigjanlegum vinnutíma.
Bretar eru með þessari nýung greinilega að taka djarft skref fram á við og áhugavert verður að fylgjast með hvernig til tekst.
- (Háskóla)menntun sem nýtist í starfi - 28. janúar 2021
- Spurðu lögmanninn - 29. september 2020
- Blómaskeið netverslunar loksins runnið upp? - 2. apríl 2020