Sumir hafa látið sem umræða um nýlega héraðsdómararáðningu hafi verið einstaklega óvægin og uppblásin. Myndum við virkilega vilja búa í samfélagi þar sem ráðning skyldmenna æðstu ráðamanna í dómarastöður myndi ekki kalla á viðbrögð? Nei, þótt sú umræða kunni að virka ljót, þá er hún samt eðlileg.
Það má til dæmis velta því fyrir sér hvernig breska pressan hefði brugðist við svipuðum ákvörðunum. Mundi Sun láta slíka frétt ósnerta og yrðu stóru orðin spöruð? Í því ljósi virkar umræða undanfarinna vikna eiginlega bara dempuð og yfirveguð, þó ég haldi því ekki fram að ég mundi óska sjálfum mér og fjölskyldu minni að verða skotmark einhvers sambærilegs.
Það er auðvitað alveg eðlilegt að ráðherrar hunsi af og til vilja einhverra sérfræðinganefnda, enda bera þeir ábyrgð á stjórnvaldsaðgerðum en ekki þær. Nóg er núþegar af einhverjum „klerkaráðum“ sem enginn virðist geta andmælt eða skipt út í stjórnkerfinu, hvort sem er. Það væri til dæmis óskandi ef jafnmikil hefð væri fyrir því að sniðganga skoðanir hinnar ömurlegu húsafriðunarnefndar og fyrir því að líta framhjá álitum nefndarinnar sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöður.
Það er líka enginn vafi á því að valdið til að skipa dómara liggur hjá ráðherrum. Sumir hafa spurt sig hver sé tilgangurinn með þessum matsnefndum ef ráðherrann fer ekki að ráðum þeirra. Með sama hætti mætti auðvitað spyrja sig hver sé tilgangurinn með ráðherranum ef nefndin ætti alltaf að ráða. Svarið þið þessum spurningum er væntanlega eitthvað á þá leið að það er gott að hafa einhverja ráðgjafanefnd sem er það mikið í takt við heilbrigða skynsemi að oftast sé hægt að tillögum hennar athugasemdalaust. Þá er betur hægt að spotta betur út þær ákvarðanir ráðherra sem kunna að orka tvímælis. Þær ákvarðanir þegar ráðherrum og ráðgjöfum ber ekki saman. Í þeim tilfellum stöldrum við við og spyrjum: „af hverju var þessi ákvörðun tekin?“
Ábyrgð ráðherra á ráðningu dómara er pólitísk. Rétt eins og þegar ábyrgðin á því að leggja á nýjan toll eða breyta rekstrarformi heilbrigðisstofnunar. Hugmyndin er sú að afleiðingar af vondri mannaráðningu verði þær sömu og afleiðingar af öðrum vondum gjörninguum ráðherrans; minnkandi vinsældir og tap í kosningum. Hvort þessi fælingarmáttur virki nógu sterkt má deila um en allavega er ljóst að ráðherrar skulda okkur skýringar á öllum þeim pólitískum ákvörðum sem þeir taka. „Ég ræð þessu bara“ ekki nógu gott svar við spurningunni „af hverju var þessi ákvörðun tekin.“
Það er ekki annað hægt en að taka undir með þeim afdönkuðu sósíalistum, Pétri Kr. Hafstein og Sigurði Líndal, þegar þeir halda því fram að rökstuðningur Árna fyrir nýlegri dómaraskipan hafi verið veikur. Við bætist síðan að Árni hafi væntanlega þurft að eiga góð og mikil samskipti við fyrrverandi forsætisráðherra á uppvaxtarárum sínum í pólitíkinni, líkt og raunar allir núverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, sem kannski verður ekki til þess að slá á allan vafa um hugsanlega spilllingu þegar ráðningar nánustu fjölskyldu hans eru annars vegar. Kannski eru til betri leiðir til að ráða dómara og gaman ef einhverjum tækist að finna þær, en pólitísku valdi fylgir pólitísk ábyrgð og þeim báðum fylgir umræða. Sem er líka pólitísk.
Þegar lögreglan yfirheyrir menn vegna endurtekinna hjólreiðameiðsla makans þá er vissulega eðlilegt að þeir fyllist reiði yfir því að vera sakaðir um eitthvað slæmt. En menn geta líka spurt sig: „Væri það eðlilegt ef þeir myndu ekkert spyrja mig?“
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021