Í landi eins og Íslandi, þar sem 98% þjóðarinnar trúa á þróunarkenninguna, er nóg fyrir stjórnmálamenn að trúa á Guð í manninum til að standa skil á trúarlegum formsatriðum. Í Bandaríkjunum er þessu öðru vísi farið og slagurinn um atkvæði trúaðra er harður.
Í þessum slag hafa repúblíkanar staðið mun betur, allt frá því á áttunda áratugnum, þegar Jerry Falwell og aðrir tengdu með góðum árangri saman íhaldssöm gildi í pólítík og hefðbundar kristnar trúarskoðanir. Í þessari útfærslu var lögð áhersla á hefðbundið fjölskyldumynstur, sem féll vel að þeim kynjagildum sem hafa verið við lýði meðal íhaldsmanna í Bandaríkjunum. Auk þess hafa neikvæð viðhorf til samkynheigðar, fóstureyðinga og kynlífs fyrir hjónaband verið notuð til að mynda band á milli pólítískrar íhaldssemi og trúrækni.
Þessi baráttuaðferð hefði þó ekki gengið jafnvel upp og raun ber vitni ef fjölskyldan og kynlíf hefði verið eini sameiginlegi flöturinn. Viðhorfið til vinnusemi og þess að vera sjálfum sér nægur var líka mikilvægt, enda hefur mótmælendatrú, og þá sér í lagi Kalvínismi, lengi verið nátengd þeirri lífsskoðun að vinnusemi sé dyggð, og í raun eina leiðin fyrir einstaklinginn til að sannfæra sig um að hann sé hólpinn.
Þessi einokun repúblíkana á trúarlegum gildum hefur að vonum farið nokkuð í taugarnar á trúuðum demókrötum, meðal annars vegna þess að þeir telja margir að Kristur hafi frekar hallast til vinstri en hægri. En öllu mikilvægara er þó hvað þetta hefur haft slæm áhrif á kjörfylgi demókrata í landi þar sem þróunarkenningin mælist trekk í trekk ótrúverðugri en sú hugmynd að Guð hafi skapað heiminn nokkurn vegin í núverandi mynd einhvern tíma á síðustu 6000 árum.
Demókratar hafa að undanförnu lagt mikla áherslu á að breyta þessari ímynd, meðal annars með bókinni „The Great Awakening: Reviving Faith & Politics in a Post-Religious Right America,“ sem kom út nú í vikunni. Bókin er eftir séra Jim Wallis, sem hefur lengi mælt gegn „hægrikristninni“ í Bandaríkjunum.
Þeir sem hafa talað gegn hinu hefðbundna bandalagi hafa reynt að nýta sér málefni fátækra, þróunarmál, og náttúruverndarmál til að skapa nýjan grundvöll undir samþættingu trúar og þjóðfélagsmála. Málefni fátækra liggja auðvitað nokkuð beint við, fyrir fylgjendur manns sem skipti tveim brauðum og fimm fiskum með hundrað manns. Þróunarmál eru líka innan sjóndeildarhrings „vinstrikristinna“ Bandaríkjamanna, enda erum við öll Guðs börn. Náttúruverndarmálin eru svo sett undir þennan hatt af því að þau ganga út á að vernda jörðina – sem Guð skapaði.
Að sama skapi reyna Demókratar nú að grafa undan þeirri tengingu sem hefur lengi þótt augljós milli kristninnar og íhaldssamra fjölskyldugilda. Meðal annars hefur séra Wallis nefnt að Jesús hafi aldrei minnst á samkynhneigð, og talið til að eingungis 12 vers í Biblíunni fjalli um samkynheigð, á meðan þúsundir versa fjalli um fátækt.
Allt stefnir í að þessi atlaga að ríkjandi heimsmynd hægrikristinna Bandaríkjamanna verði mikilvægur þáttur í kosningabaráttu demókrata í komandi kosningum og næstu ár. Enn er of snemmt að segja til um hvernig sú atlaga gengur, en þó má telja fullvíst að umræðurnar verði snarpar og skrautlegar á köflum.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020