Fyrir stuttu síðan úrskurðaði mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf í vil tveimur íslenskum sjómönnum í máli þeirra gegn íslenskum stjórnvöldum. Sjómennirnir höfðu stundað veiðar kvótalausir. Andstæðingar kvótakerfisins hafa fagnað og telja kvótakerfið dautt eftir úrskurðinn. Forsvarsmenn stjórnarflokkanna hafa brugðist við á þá leið að skoða þurfi málið. En hvað gagnrýnir mannréttindanefndin í kerfinu og hvernig gæti kerfið breyst til þess að standast þá gagnrýni?
Kvótakerfið er til komið vegna þess að fiskurinn í sjónum er takmörkuð auðlind og við viljum stýra veiðimagninu til þess að veiðar til langs tíma litið verði Íslendingum eins gjöfular og hægt er. Einnig er það þjóðinni farsælast að þeir sem geta veitt fiskinn á sem hagkvæmastan hátt geri það. Þess vegna eru tveir eiginleikar mikilvægastir í hvaða fiskveiðistjórnunarkerfi sem við viljum hafa. Annars vegar að heildarmagn sé takmarkað og stýrt af stjórnvöldum. Hins vegar að aflaheimildir séu framseljanlegar og að markaðurinn ráði því hvert þær fara, sá sem getur greitt hæst verð fyrir aflaheimild er sá sem telur sig geta veitt á hagkvæmastan hátt og á að fá að veiða fiskinn.
Mannréttindanefndin viðurkennir mikilvægi þess og lögmæti að íslenska ríkið takmarki veiðar til þess að vernda fiskstofninn. Það sem nefndin setur út á er hverjir hafa réttinn til að veiða og hvernig þeir fengu hann. Það að aflaheimildir hafi verið veittar varanlega á grundvelli þriggja ára veiðireynslu fyrir rúmum 20 árum telur nefndin brjóta gegn jafnræðisreglu. Það er, hún telur að jafnræði sé ekki gætt milli þess sem fékk kvóta og þess sem fékk ekki.
Því virðist ljóst að kerfi með núverandi varanlegar aflaheimildir mun ekki standast gagnrýni mannréttindanefndarinnar. Ef íslensk stjórnvöld ætla að fylgja þeim skilaboðum sem nefndin er að senda væri heppilegast að láta núverandi aflaheimildir smám saman fyrnast. Þar sem aflaheimildir hafa verið keyptar og seldar, oft með veðsetningu, væri mjög óheppilegt að þetta gerðist of hratt. Slíkt myndi væntanlega valda gjaldþrotum í hrönnum. Síðan myndi ríkið bjóða upp aflaheimildir til hæstbjóðanda og heppilegast væri að það væri gert einhver ár fram í tímann til að tryggja rekstrarstöðugleika sjávarútvegsfyrirtækja.
Enn er eftir að sjá hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við dóminum. Það mikilvægasta fyrir þjóðarbúið er að markaðurinn fái áfram að ráða því hver veiðir fiskinn. Hæstbjóðandi er hæfastur til að veiða.
Þá er ljóst að dómurinn er ekki til þess fallinn að minnka áhyggjur þeirra sem óttast að aðild að Evrópusambandinu muni minnka sjálfræði Íslendinga um stjórnun fiskveiða á Íslandsmiðum.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011