Ungliðahreyfingar Samfylkingar, Vinstri-grænna, Framsóknar og Margrétar Sverrisdóttur, höfðu í frammi skrílslæti á áhorfendapöllum í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, en til þessara láta höfðu þær boðað með auglýsingum í fjölmiðlum. Sá hamagangur var þeim hreyfingum ekki til sóma. Með frammíköllum, hrópum og köllum trufluðu þau lýðræðislega kjörna fulltrúa í lögbundnum störfum sínum í borgarstjórn.
Til sveitarstjórna á Íslandi er kosið á fjögurra ára fresti. Í kosningum til borgarstjórnar sem fram fóru í maí 2006 hlaut Sjálfstæðisflokkur 27.823 atkvæði og sjö borgarfulltrúa og F-listi 6.527 atkvæði og einn borgarfulltrúa. Samtals hlutu þessir listar því stuðning 34.350 manna, og 8 borgarfulltrúa í samræmi við það. Þeir flokkar sem nú eru í minnihluta hlutu hins vegar stuðning 30.545 manna og hlutu til samræmis við það sjö borgarfulltrúa. Heildaratkvæði greidd flokkum voru 64.895.
Í framangreindu ljósi er ótækt að nokkur hávaðasöm ungmenni komist upp með það að trufla fund í borgarstjórn þar sem fulltrúar kjörnir af um um 65.000 manns taka ákvarðanir, og valda því að gera þurfti hlé á þessum fundi. Að sjálfsögðu var þessum ungmennum heimilt að básúna skoðanir sínar á torgum fyrir fundinn, og eftir hann, í samræmi við stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi en að trufla sjálfan fundinn með þeim hætti sem gert var er algerlega óforsvaranleg háttsemi og þeim forystumönnum sem þar gengu fram fyrir skjöldu til skammar.
Við þetta bætist að ekki kom hljóð úr strokki frá þessum ungmennum þegar skyndileg og fyrirvaralaus meirihlutaskipti urðu hér í október. Sú skipan var öll hin lýðræðislegasta að mati ungmennanna en sú sem varð í dag að sama skapi ólýðræðisleg. Vinstri menn tala oft fjálglega um lýðræðið og nota það hugtak eins og þeim hentar í hvert og eitt skiptið. Þannig teygja þeir það og toga og útþynna m.a. með þeim skrílslátum sem viðhöfð voru í gær. Nokkur hávaðasöm ungmenni hafa hvorki til þess lagalegan né siðferðislegan rétt að trufla fulltrúasamkomu sem kosið var til af um 65.000 manns, eða sjálftaka sér það vald að tala fyrir hönd kjósenda.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006