Fyrir rúmum mánuði lagðist Seðlabankinn gegn því að Kaupþing fengi leyfi til þess að færa bókhald og semja ársreikninga í evrum. Þessi afstaða Seðlabankans var byggð á tiltölulega einstrengingslegri túlkun á reglugerð um uppgjör í erlendri mynt. En Seðlabankinn tók einnig sérstaklega fram að hann væri “mótfallinn því að innlend fjármálafyrirtæki taki alfarið upp erlendan gjaldmiðil í reikningshaldi sínu” og að “full ástæða væri til þess að staldra við” ef fjármálafyrirtæki stefni að því að draga úr viðskiptum sínum með innlendan gjaldmiðil.
Með þessu áliti sínu virðist Seðlabankinn vera að taka upp afar afturhaldssama stöðu hvað varðar framþróun á viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja. Bankinn færir í rauninni engin haldbær efnahagsleg rök gegn því að Kaupþing fái leyfi til þess að færa bókhald í þeim gjaldmiðli sem það telur að henti rekstri sínum best. Bankinn telur til ýmis praktísk smáatriði sem leysa þyrfti í þessu sambandi. En þau virðast öll vera atriði sem auðvelt ætti að vera að leysa ef vilji væri fyrir hendi.
Megintilgangur þess að íslenska ríkið starfrækir seðlabanka og heldur úti sérstökum gjaldmiðli á að vera að auðvelda íslenskum aðilum að eiga viðskipti sín á milli og við erlenda aðila. Ef stór og mikilvæg íslensk fyrirtæki telja að hag sínum sé betur borgið ef þau fá að færa bókhald í erlendum gjaldmiðli eiga þau að hafa frelsi til þess nema að mikilvæg þjóðhagsleg rök mæli gegn því.
Fjármálastarfsemi hefur verið einn helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs síðasta áratuginn. Sá gríðarlegi uppgangur sem orðið hefur í fjármálastarfsemi hefur byggst á hagstæðu skattaumhverfi og miklu og vaxandi viðskiptafrelsi. Það væri mikið óheillaspor fyrir íslensku þjóðina ef stjórnvöld hyrfu af braut viðskiptafrelsis og tækju þess í stað leggja óþarfa steina í götu fyrirtæka sem vilja halda áfram að sækja fram og taka upp nýjungar í rekstri sínum.
Reglugerðin sem Seðlabankinn byggir afstöðu sína á kveður á um að fyrirtæki geti einungis fengið heimild til uppgjörs í erlendri mynt ef viðkomandi mynt vegur hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í viðskiptum félagsins. Kaupþing taldi að svo myndi vera á árinu 2008 þar sem þá myndi bankinn hafa gengið frá kaupum á hollenska bankanum NIBC. Seðlabankinn féllst hins vegar ekki á þetta þar sem kaup á hollenska bankanum höfðu ekki að fullu gengið í gegn. Ef Seðlabankinn hefði verið allur að vilja gerður að hjálpa Kaupþing að haga rekstri sínum eins og Kaupþing telur sér best henta hefði Seðlabankinn getað skilyrt samþykki sitt því að kaupin á hollenska bankanum gengu í gegn að fullu á árinu 2008. Því miður valdi Seðlabankinn afturhaldssamari leið.
Reglugerðin sem Seðlabankinn byggir afstöðu sína á er algerlega óþörf og í raun mjög bagaleg eins og fjallað hefur verið um hér á Deiglunni. Stjórnvöld þurfa nauðsynlega að taka af skarið og breyta stefnu sinni í þessu máli með það fyrir augum að auka frelsi íslenskra fyrirtækja. Einfaldast væri að afnema reglugerð um uppgjör í erlendri mynt áður en meiri skaði hlýst af henni en nú þegar hefur orðið.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009