Málsvarar misgáfulegra baráttumála heyrast sífellt oftar taka sér orðið mannréttindi í munn þegar þeir vilja gefa málstað sínum aukið vægi, og virðist þá engu skipta hversu léttvæg barátta þeirra er að upplagi. Það urðu t.d. upp úr þurru sjálfsögð mannréttindi að geta setið á kaffihúsum og fengið sér kaffi og kleinur í reyklausu umhverfi þegar umræðan um reykingabannið stóð sem hæst á síðasta ári, og nú síðast heyrðust feministar reyna að mála jafnréttisfrumvarp félagsmálaráðherra þeim litum að um mannréttindamál sé að ræða! En hverjum er greiði gerður þegar svo djúpt er tekið í árinni?
Það gleymist oft í æsingnum kringum pólitísk hitamál hvað raunveruleg mannréttindi eru. Íbúar Vesturlanda virðast raunar almennt vera frekar gleymnir á gildi mannréttinda ef marka má þá mannréttindavæðingu sem staðið hefur yfir síðustu misserin. Á meðan Amnesty berst gegn umskurn kvenna og hömlum á tjáningarfrelsinu finnst Íslendingum gjaldfrjálsir leikskólar og reyklaus kaffihús helstu mannréttindamálin sem taka þarf á. Er þá litið svo á að verið sé að fremja mannréttindabrot á þeim sem greiða fyrir leikskólavist eða þurfa að anda að sér tóbaksreyk á veitingahúsum? Maður spyr sig.
Hvaða skoðun sem menn annars hafa, þá hljóta allir að sjá að um stórfellda gengisfellingu á hugtakinu mannréttindi er að ræða þegar það er notað jafnfrjálslega og áður sagði. Svo ekki sé minnst á þá vanvirðingu sem íbúum hrjáðra landa er sýnd þegar barátta þeirra fyrir grundvallarréttindum er sett á stall með lúxusþrá á borð við þá sem áður hefur verið nefnd.
Sú vanvirðing bliknar þó í samanburði við það þegar lúxusþráin er sett skör hærra en grundvallarréttindin sjálf, eins og raunin varð í reykingamálinu mikla. Þá var eignarréttinum og einstaklingsfrelsinu fórnað fyrir þægindi almennings, eða eins og einn deiglupenni orðaði það; „..fyrir betur lyktandi hár“ – sem þóttu víst sjálfsögð mannréttindi.
En er eitthvað til sem hægt er að kalla sjálfsögð mannréttindi ef út í það er farið? Mannréttindabarátta hefur staðið yfir frá upphafi mannkyns og stendur enn yfir í mörgum hlutum heimsins. Árangur hefur náðst með ótrúlegum fórnum og því í raun fráleitt að tala um afraksturinn sem „sjálfsagðan“. Mig langar því að biðja þáttakendur í pólitískri orðræðu um að kalla hlutina réttum nöfnum og gæta sín á því að taka ekki of stórt upp í sig. Ef til er eitthvað sem ekki má við því að missa merkingu sína, þá eru það mannréttindi.
- Borg án sýningarstjóra - 7. desember 2015
- Kombakk plötunnar - 25. ágúst 2015
- Hugleiðing um tjáningarfrelsi - 4. maí 2015