Íslenska hagkerfið hefur farið í gegn um miklar breytingar á síðustu árum. Með einkavæðingu bankanna, skattafríðindum og bættri tækni hefur almenningi gefist tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu og útrás íslenskra fyrirtækja. Eins hefur fyrirtækjunum gefist færi á að nýta sparifé almennings til vaxtar bæði í gegn um einstaka fjárfesta sem og fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Alls ekki er sjálfsagt að hægt sé að búa til markað með þolanlegum seljanleika í svo litlu samfélagi og því aðdáunarvert hversu vel tókst til.
Þó að menn hafi sýslað með hlutabréf í nokkurn tíma er íslenski markaðurinn eins og við þekkjum hann í dag kornungur. Þrátt fyrir það leikur hann mjög mikilvægt hlutverk í íslensku hagkerfi og er lykillinn að þeirri velsæld sem við höfum orðið vitni að á Íslandi síðastliðin ár og forsendan fyrir því að almenningur hefur nú meiri peninga á milli handanna en áður.
Aldur markaðarins kemur glöggt fram í því að nánast allir sem taka þátt í viðskiptum innan hans, hvort sem það eru fjárfestar eða sérfræðingar innan bankanna, hafa ekki séð annað en gott árferði og hækkandi hlutabréfatölur. Engin almennileg kreppa hefur rekið á fjörur þeirra og er hætta á því að slíkt reynsluleysi geti leikið menn grátt ef ástandið breytist skyndilega eins og teikn eru á lofti um gæti gerst næsta árið. Íslenska hlutabréfavísitalan hefur fallið um rúm 12% frá áramótum og tæp 39% frá sínu hæsta gildi 18. júlí síðastliðin og eru því fréttir af gjaldþroti fjárfesta orðnar tíðari en ella.
Það er misskilningur að halda að það séu einungis fyrirtækin sem verslað er með á íslenska markaðnum sem eiga eftir verða fyrir barðinu á lækkandi hlutabréfaverði. Líklega munu allir finna fyrir því. Stór hluti sparifjár Íslendinga er í hlutabréfum og hefur t.d. verslun og þjónusta stillt sig inn á að fólk sé almennt með meira fé á milli handanna. Eins má fastlega búast við því að fjármálafyrirtækin, sem eru orðin með stærri vinnustöðum landsins, einbeiti sér að því að minnka umsvif og halda kostnaði í lágmarki t.d. með sameiningum. Því má ætla að ef vísitalan heldur áfram á sömu braut eigi eftir að koma til uppsagna og það góða atvinnuástand sem Íslendingar búa við versni.
Áður fyrr treystum við Íslendingar nær eingöngu á náttúrauðlindir til að auka hagvöxt í landinu og þó að sjávarútvegur séu enn okkar mikilvægasta útflutningsgrein hefur vægi þeirra minnkað töluvert á síðastliðnum árum. Á móti hefur vægi ýmiskonar þjónustugreina aukist og nú er svo komið að þær vega mest í þjóðarframleiðslu Íslands.
Ástandið er víðast hvar það sama. Í Bandaríkjunum hafa flestir markaðir lækkað töluvert og sannast enn og aftur hversu heilbrigt og sterkt bandarískt hagkerfi er heiminum mikilvægt. Þar telja menn líklegra frekar en ekki að kreppa sé yfirvofandi en samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni sýna kannanir að meirihluti hagfræðinga séu á þeirri skoðun að þjóðarframleiðsla eigi eftir að minnka á árinu 2008.
Því er full ástæða til að halda að ef ástandið versnar á heimsmörkuðum gætu Íslendingar bráðlega fundið fyrir kreppu.
Þó að það sé kannski ekki alltaf vinsælt að tala um frjálsan markað og pólitík í sömu andrá þá verður ekki framhjá því litið að það voru meðal annars pólitískar ákvarðanir sem glæddu lífi í hlutabréfamarkaðinn. Stjórnmálamenn ákváðu að minnka umsvif ríkisins í íslensku atvinnulífi, einkavæða ríkisfyrirtæki og veita skattaafslátt til þeirra sem keyptu hlutabréf sem voru allt aðgerðir sem hvatti almenning til fjárfestinga.
En ekki allar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar voru svo vel ígrundaðar og því miður hafa stjórnmálamenn ekki sýnt það nauðsynlega aðhald í ríkisrekstrinum á þenslutímum, eins og áður hefur verið fjallað um á Deiglunni.
Ef svo illa fer að kreppa láti á sér kræla á Íslandi, eins og líklegra verður að teljast með hverjum rauðum degi í Kauphöllinni, væri hentugt að ráðrúm væri til að ganga í stór verkefni á vegum ríkisins. Verkefni eins og nýtt tónlistarhús, Sundabraut, Kárahnjúkavirkjun og Héðinsfjarðargöng hefðu verið vel til þess fallin að freista þess að kýla hagkerfinu af stað ef skóinn myndi kreppa að í einkageiranum í stað þess að hafa lagt í þau í góðæri.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021