Fyrir tveimur árum lauk heildstæðri vinnu um friðun húsa á Laugaveginum. Þar var gengið ansi langt í friðunarátt, líklegast lengra en var miðbænum fyrir bestu. En nú á að ganga enn lengra og friða hús með númerum 4-6 því húsið með númeri 2 sé svo flott. Með þessu áframhaldi verður bílasalan Hekla orðin að þjóðargersemi fyrir árslok.
Ég ætla biðja lesendur um að hugsa sér eina ljóta nýbyggingu í miðbæ Reykjavíkur. Flestir hafa væntanlega fundið eitthvað dæmi áður en þeir kláruðu að lesa fyrstu setningu í þessari efnisgrein. Það er af nógu að taka, og væntanlega verða flestir lesendur komnir með 3-5 dæmi til viðbótar áður áður en þeir klára þennan pistil. Eða 4-6 dæmi um vond hús á innan við fimm mínútum. Ekki slæmt.
En það hafa líka hlutir tekist vel til, eins og til dæmis nýja hótelið í Aðalstræti. Hver hefði trúað því að þar væri á ferð bygging sem byggð væri eftir aldamótin? Glæsileg bygging sem sameinar gamlan stíl og nýja tíma. Svona „Bárujárnshús 21. aldarinnar“ eins og einhverjir klisjugjarnari stjórnmálamenn myndu kalla það.
Þær tillögur sem nú á að stoppa á seinustu stundu á Laugavegi 4-6 eru vel unnar og smekklegar. Líklegast hafa fáir verktakar og arkítektar lagt sig jafnmikið fram við að reyna koma til móts við afstöðu borgaryfirvalda, eins og rakið var í Morgunblaðinu um helgina. Og einn helsti tengiliður þeirra innan borgarkerfisins, var Nikúlás Úlfar Másson, formaður húsafriðunarnefndar, sem nú lætur eins og hann hafi aldrei séð tillögurnar áður. Borgin brást því verktökunum algjörlega. Eins og bent hefur verið á voru það 3 ólíkir meirihlutar sem komu að samþykkt tillagnanna og það grátlega er að ef verktakinn hefði neitað borgarstjóra um þennan tveggja vikna frest til að flytja húsin, sem borgarstjóri bar upp á allra seinustu stundu, þá hefði Húsafriðunarnefnd aldrei geta sett af stað þennan farsa.
Rökstuðningur formanns nefndarinnar er svo sérkapítúli út af fyrir sig, en helsta ástæðan sem gefin er að nefndinni hafi það sem koma átti í staðinn ekki vera nógu flott. Ég hélt satt að segja að rangt hafi verið haft eftir formanninum fyrst þegar ég heyrði þetta. Er Húsafriðunarnefnd orðin einhver dómstóll um fagurfræði nýbygginga? Og getur hún kveðið dóma sína nokkurn veginn hvenær sem er? Hvað mun það hafa að segja fyrir allar uppbyggingu í miðbænum, byggingu verslunarmiðstöðvar og Listaháskóla ef allir aðilar eiga það á hættu að fimm manna klúbbur áhugamanna um kofa og bárujárn getur stöðvað framkvæmdir á seinustu stundu?
Með engum rökstuðning, bara tilvísan í eigin smekk.
Borgarstjórinn segir málið vera hjá Menntamálaráðherra, Menntamálaráðherra vill heyra álit borgarinnar. Hvað er í gangi? „Lenti“ þetta fólk í stjórnmálum? Og hvenær varð þessi blessaða húsafriðunarnefnd að einhverju æðsta klerkaráði um öll málefni sem tengjast skipulagi í miðborginni? Hvernig getur það verið að nefndin getur í 6 ár álitið einhver hús ekki vera friðunar virði til þess eins að stoppa niðurrif í þann mund sem maðurinn með kúbeinið er mættur á svæðið?
Eigendur vildu ekki friða húsin. Meirihluti borgarbúa vill ekki friða húsin. Meirihluti borgarstjórnar vildi ekki halda í húsin. Það er ekki einu sinni meirihluti fyrir friðun þeirra innan meirihlutans núverandi. Nú liggur á að Menntamálaráðherra standi vörð um, eignarétt, meðalhófsreglu og bara heilbrigða skynsemi og stöðvi þetta blessaða flipp.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021