Frambjóðandi er metinn út frá ýmsum þáttum. Þeir hafa mismikið vægi og skipta í raun mismiklu máli fyrir embættið sem slíkt -en því miður er ekki alltaf fullt samræmi þarna á milli.
Í eftirfarandi pistli ætla ég að velta fyrir mér þeirri spurningu hvort trúarskoðanir skipti einhverju máli þegar kemur að því að meta hæfi einstaklings til þess að gegna opinberu embætti.
Ég yrði talinn galinn (og það með réttu) ef ég reyndi að halda því fram að trúarafstaða skipti sköpum fyrir hérlenda frambjóðendur. Hún skiptir engu enda þjóðin þrátt fyrir allt nokkuð einsleit en þó opin í þessum efnum og nokkuð inn í sig þegar kemur að því að ræða eigin trúartilfinningar. Varla nokkur maður setur það fyrir sig að kjósa einstakling til embættis vegna trúfélagaskráningar viðkomandi.
Ég tel líklegustu skýringuna á þessu vera þá að hingað til hafa frambjóðendur haldið trú sinni fyrir sig að mestu og verið hófstilltir í tali um eigin trúarsannfæringu. Það er mjög í takt við þá hefð sem skapast hefur hérlendis þegar kemur að þessum málið og því ólíklegt til þess að stuða eða vekja eftirtekt og umtal. Að sama skapi er líklegt að frávik frá þessari meginreglu gæti skapað einhvern óróa meðal kjósenda.
Getið þið t.a.m. gert ykkur í hugarlund hvað myndi gerast ef Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins tæki upp á því að bjóða sig fram til forseta í vor? Það yrði lífleg kosningabarátta ef ekkert annað.
Þetta er að mínu viti nokkuð skynsamleg nálgun og hún er í takt hvoru tveggja við lagaleg skilyrði sem frambjóðanda ber að uppfylla og hefðbundinn guðfræðilegan skilning lútherskra sem byggir að mestu á tveggja ríkja kenningu Lúthers; sem í stuttu máli og einfaldaðri mynd gerir ráð fyrir tveimur sviðum, hinu andlega og hinu veraldlega þar sem lögmálið ríkir og skynsemin en ekki trúin ræður úrslitum. Þannig sé ekki bráðnauðsynlegt að þjóðhöfðingi sé endilega kristinn svo fremi hann sé hygginn.
Þó er nauðsynlegt að flækja málin örlítið enda getur einstaklingur aldrei flúið undan þeim straumum sem móta sannfæringu hans og persónu sama hvort þar er á ferðinni hugmyndafræði eða trúarafstaða. Sönn trú frambjóðanda finnur sér farveg í gjörðum hans og ákvarðanatöku og kemur að því leytinu kjósendum við. Þannig getur trúarbakgrunnur frambjóðanda átt erindi við kjósendur og spurningar þar að lútandi ekki óeðlilegar. Á þetta hefur ekki reynt svo mikið hérlendis með áberandi hætti enda siðferðisleg deilumál lítt í deiglunni ólíkt því sem m.a. gerist í Bandaríkjunum.
Vestanhafs fara einmitt núna fram forkosningar vegna komandi forsetakosninga bæði meðal repúblikana og demókrata, en þeim hafa verið gerð prýðileg skil hér á Deiglunni undanfarið.
Þar er málum öðruvísi háttað en hérlendis og ganga sumir jafnvel svo langt að segja að Guðstrú frambjóðendanna sé það eina sem sameini þá alla.
Öll hafa þau með einum eða öðrum hætti talað um áhrif trúar sinnar á störf sín og líf og mörg hafa jafnvel trúarlega ráðgjafa á sínum snærum sem hafa það verk með höndum að ná til trúaðra kjósenda sem er þó nokkuð stór hópur. Þessi trúaráhugi nær einnig til málefnanna að einhverju leyti enda ekki nóg að vera skráður í söfnuð ef verkin tala ekki sama máli.
Meira að segja Barak Obama, hvers trúarlegi bakgrunnur minnir einna helst á óáfengan kokteildrykk, og Rudy Giuliani hafa gert mikið úr trúarlegum áhrifum á líf sitt. Ég ætla ekki að dæma um innileika slíkra vitnisburða en fyrirfram hefði maður kannski ekki tengt þá sérstaklega við heita trú.
Þarna er trúin nokkuð sem frambjóðendur verða að taka tillit til. Hún skiptir raunverulegu máli fyrir nokkurn hluta kjósenda þegar kemur að því að velja forseta. Þar er ekki endilega litið á hvaða kirkjudeild viðkomandi tilheyrir heldur miklu frekar Guðstrúna sem slíka og afstöðu til tiltekinna málaflokka.
Þetta er nokkuð sem getur virkað framandi fyrir okkur hér á Íslandi enda held ég að þess sé langt að bíða að hið trúarlega svið verði jafn áberandi í hinu pólitíska leikriti og raun ber vitni í Bandaríkjunum.
Að lokum er rétt að benda þeim sem áhuga hafa á umfjöllun um trúarlegar víddir kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum á afbragðs umfjöllun The Pew Forum (www.pewforum.org/religion08).
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012