„Suðurríkjafáninn er tákn um kynþáttafordóma og þrælahald,“ sagði John McCain í sjónvarpsþættinum Meet the Press fyrir um fjórum árum þegar hann var skyndilega orðinn líklegasti forsetaframbjóðandi Repúblikana eftir sigur í prófkjöri flokksins í New Hampshire. Næst þegar hann hitti kosningastjóra sinn fékk hann það óþvegið frá honum og var sagt að svona ummæli væru tilvalin til þess að klúðra næsta prófkjöri í Suður Karólínu; fylkinu þar sem er að finna Sumter-virki, þar sem varð upphaf bandaríska þrælastríðsins. Þar um slóðir eru enn í dag haldin reglulega mótmæli gegn „stríðsglæpamanninum“ Abraham Lincoln og Suðurríkjafáninn er skömmustulaust notaður sem skraut á húfur og á stuðaralímmiðum. Margir þeirra sem hylla Suðurríkjafánann með þessum hætti eru einmitt Repúblikanar.
Það getur því verið óheppilegt að halda fram svo afdráttarlausri skoðun þegar mikið liggur við í pólitíkinni. En McCain finnst bara svo „fjári erfitt“ að segja eitthvað annað en honum finnst – eins og hann sagði við starfsmenn sína eftir yfirhalningu kosningastjórans. Það hjálpaði ekki að á sama tíma varð hann fyrir linnulausum árásum frá hatursmönnum sínum í eigin flokki – þar sem engu var til sparað í viðbjóðslegheitunum, engum þyrmt – og allt gert til að draga mannorð frambjóðandans í svaðið í skjóli nafnleyndar og illrekjanlegs vefjar fjárhagslegs stuðnings við rógsherferðina.
En stóru mistök McCain í þvi máli voru þó ekki ummælin. Í þetta skipti lét hann dómgreind sína víkja í taugaveiklun kosningabaráttunnar og mætti fyrir framan myndavélarnar nokkrum dögum eftir ummælin til þess að milda þau. Þeir sem til sáu sögðu að flutningur McCain á tilbúnum textanum hafi verið álíka sannfærandi eins og yfirlýsingarnar sem bandarískir stríðsfangar í Víetnam gáfu um yfirburði kommúnismans og illsku Bandaríkjanna í þágu áróðurs óvinarins. Enda spiluðust þessi sinnaskipti illa. Í kjölfar þeirra, hinna hatrömmu árása og ósigursins í prófkjörinu í Suður Karólínu fjaraði algjörlega undan framboðinu.
John McCain var 64 ára árið 2000 og þá með elstu mönnum í framboði og líklega hefðu flestir látið gott heita og sest í helgan stein. En frægð og frami John McCain var rétt að byrja. Bandaríska þjóðin hafði rétt náð að kynnast honum og líkaði vel það sem hún sá, enda er hann maður af gamla skólanum sem trúir á skyldur og fórnir og talar án tæpitungu. McCain er ólíkur flestum stjórnmálamönnum Repúblikana í Bandaríkjunum. Hann er stækur áhugamaður um landvarnir en ólíkt flestum hinum þá hefur hann sjálfur sinnt herskyldu, enda voru bæði faðir hans og afi herforingjar af æðstu tign. Ekki nóg með það heldur var hann stríðsfangi Víetnama í tæp sex ár.
Hár aldur John McCain hefur vitanlega verið talin draga úr trúverðugleika framboðs hans. Hann er nú ári yngri en Ronald Reagan var þegar hann var endurkjörinn 1984 en enginn hefur þó verið kjörinn forseti í fyrsta sinn svo gamall. Slíkum áhyggjum svara McCain gjarnan með að benda á móður sína, sem er í fullu fjöri, 95 ára gömul. Hún var tekin fyrir hraðakstur fyrir örfáum árum þegar hún ók á meira en 160 kílómetra hraða eftir hraðbraut í Arizona.
Hina auknu frægð nýtti McCain til þess að styrkja stöðu sína í Öldungadeild Bandaríkjaþings og koma nokkrum af helstu áhugamálum sínum í stjórnmálum í framkvæmd. Hann barðist með Demókrötum til þess að koma á fót harðari lögum um fjármál stjórnmálaflokka, kaus gegn flestum flokksbræðrum sínum á móti tillögu um að binda í stjórnarskrá bann við hjónabandi samkynhneigðra, var á móti skattalækkunum Bush stjónarinnar á þeim forsendum að samhliða þyrfti að draga úr útgjöldum – og eftir því sem leið á stríðið í Írak varð hann harður gagnrýnandi þeirra leiða sem þar voru farnar, þótt hann hafi verið hlynntur sjálfri innrásinni. Sökum þess sjálfstæðis sem hann hafði sýnt í þinginu og vinsælda meðal óháðra kjósenda bauð John Kerry, frambjóðandi demókrata, honum að vera varaforsetaefni sitt. Þessu hafnaði McCain eftir nokkra umhugsun og beitti í kjölfarið öllum kröftum sínum til þess að tryggja George W. Bush endurkjör. Fjölmargir í Repúblikanaflokknum litu á þetta sem einstaka flokkshollustu því fátt áttu félagar í innsta kjarna Bush síður skilið en eindreginn stuðning John McCain.
Engu að síður er ljóst að nú, fjórum árum seinna mun Bush armurinn í Repúblkanaflokknum róa öllum árum að því að koma í veg fyrir velgengni John McCain. Ólíklegt er að sama aðferð dugi aftir í Suður Karólínu, en stuðningsmönnum og aðdáendum John McCain má þó vera ljóst, að til eru þeir sem einskis munu svífast á næstu vikum til þss að koma í veg fyrir að McCain hljóti útnefningu flokksins. En stuðningsmenn hans munu ekki láta slíkan ótta skemma fyrir sér vonina – og halda áfram að hrópa „Mac is back“ og fagna hinni ólíkindalegu upprisu hans í aðdraganda útnefningar Repúblikana á forsetaefni.
Heimildir: New Yorker, Wikipedia o.fl.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021