Clinton for president, round two!

Clinton hjónin vilja fá gamla húsið sitt aftur. En núna ætlar Hillary að vera forsetinn og Bill forsetafrúin. Á meðan allir auglýsa framboð sín með eftirnafni, eins og til dæmis “Obama for president” eða “McCain for president”, þá auglýsir forsetafrúin fyrrverandi sitt framboð á fornafni; “Hillary for president”. Ástæðan er augljós.

Clinton hjónin vilja fá gamla húsið sitt aftur. En núna ætlar Hillary að vera forsetinn og Bill forsetafrúin. Á meðan allir auglýsa framboð sín með eftirnafni, eins og til dæmis “Obama for president” eða “McCain for president”, þá auglýsir forsetafrúin fyrrverandi sitt framboð á fornafni; “Hillary for president”. Ástæðan er augljós.

Bandarískir kjósendur virðast ekki ætla að gefa Hillary Clinton embætti forseta á silfurfati. Barack Obama hefur á síðustliðnum vikum orðið að óvæntum en raunhæfum valkosti fyrir Demókrata. Allir frambjóðendur Demókrata ætlast til að breyta Washington, en ég bið lesanda um að velta fyrir sér hvort eftirfarandi geti hugsanlega haft einhver áhrif á hinn almenna kjósenda í Bandaríkjunum:

1989: Bush kjörinn forseti.
1993: Clinton kjörinn forseti.
2001: Bush kjörinn forseti.
2009: Clinton kjörin forseti?

Víðtækar breytingar
Bandarísku forkosningarnar í ár eru með þeim merkilegri sem haldnar hafa verið í langan tíma. Breytingar eiga sér stað í röðum frambjóðenda annars vegar og kjósenda hins vegar. Þetta gerir stjórnmálaskýrendum erfitt fyrir þegar þeir reyna að greina baráttuna og stöðuna hverju sinni fyrir fjölmiðla og þar með almenning.

Internetið hefur gífurleg áhrif á upplýsingaflæði og veitir frambjóðendum ásamt fjölmiðlum ný tækifæri. Þar má nefna kappræður frambjóðenda á YouTube sem vöktu mikla athygli vestra eða samstarf sjónvarpsstöðva og Facebook. Þá er spurt hvort umfjöllun á internetinu mun hafa þau áhrif að netnotendur og yngra fólk skili sér betur á kjörstaði. Slíkar upplýsingar verða til staðar að kosningu lokni, en reynslan frá Iowa og New Hampshire benda til þess að breytingar eru að eiga sér stað og að meðal annars fari yngri kjósendum fjölgandi.

Forsetakosningarnar eru einnig sögulegar í ár vegna þess að frambjóðendurnir spanna fjölbreyttari hóp en áður. Barack Obama er blandaður þ.e. pabbi hans var frá Kenya og móðir frá Kansas, Hillary Clinton er kona, Mitt Romney er mormóni og John Edwards hefur boðið sig fram áður sem varaforseti. Það er líka áhugavert að nú eru hvorki varaforseti né sitjandi forseti í framboði eins og oft áður. Ef Hillary vinnur þá erum við að tala um sögulega “endurtekningu” á því sem nýlega átti sér stað í Argentínu. Þ.e. eiginkona tók strax við forsetaembættinu á eftir eiginmanni sínum. Hillary væri ekki beinn arftaki en þá er þessi þróun engu að síður áhugaverð.

Hillary for president
Hillary var fyrsta forsetafrú Bandaríkjanna til að sækjast eftir opinberu embætti. Hún varð öldungadeildarþingmaður fyrir New York án þess að hafa nokkurn tíman búið þar. Sem fyrrverandi forsetafrú og nú öldungadeildarþingmaður ber forsetaframbjóðandinn augljóslega víðtæka reynslu af stjórnmálastarfi. En er hún rétta manneskjan til að sinna embætti forseta? Þessi spurning er að gera Bandaríkjamenn vitlausa nú á dögum. Ef þeir hafna henni, eru þeir að hafna konu og þar með neita konum aðgang að slíkum embættum? Fræðimenn hafa hins vegar sýnt fram á það að Bandaríkjamenn virðast vera komnir yfir það að láta kyn eða kynþátt skipta máli hvað frambjóðendur varðar. Auðvitað mun hluti kjósenda eiga erfitt með að kjósa konu eða blökkumann til embættis forseta en gleðilegt er að sá hópur virðist ekki vera nægilega fjölmennur og því ekki lengur afgerandi. Sagt er að þar sem kjósendur hafa hafnað Hillary þá hafi það ekki verið vegna kyns.

Hillary Clinton keyrir baráttu sína á fornafni en ekki eftirnafni eins og allir aðrir frambjóðendur gera. “Hillary for president” auglýsir hún. Ástæðan er ekkert leyndarmál. Í mörg ár hefur hún reynt að byggja ímynd sína sem sjálfstæður stjórnmálamaður. En til að gera sig að fyrsta valkosti meðal frambjóðenda Demókrata er hún dugleg að minna kjósendur á ferilskrá sína sem forsetafrú í átta ár og eftir það sem öldungadeildarþingmaður. Hún segist “kunna á kerfið” í Washington og muni þar með vera öflugri og skilvirkari forseti. Þetta er að vissu leyti sérstaða hennar þar sem hvorki sitjandi forseti, né varaforseti er í framboði og því getur engin annar frambjóðandi vísað til sambærilegrar ferilskráar eða reynslu.

Forsetaembætti sem þinglýst eign
Deiglupenninn Þórlindur Kjartansson skrifaði um íslenska forsetaembættið fyrir skömmu, og sagði þar meðal annars að ekki ættu menn að líta á forsetaembætti sem þinglýsta eign. Hér finnum við eitt af stærri vandarmálum hennar Hillary. Bandaríkjamenn hafa upplifað Bush eldri sem forseta og nú Bush yngri. Hinn sonurinn Jeb Bush er ríkisstjóri í Flórída. Bill Clinton var forseti í átta ár frá 1993 til 2001 og spurning er hvort kona hans verði forseti. Ef svo fer, og nái hún einnig átta árum, hafa einungis tvær fjölskyldur stjórnað Hvíta Húsinu frá árinu 1989 til 2017. Nær þrjá áratugi. Þarna mætti því bæta við orð Þórlindar að ekki ætti heldur að líta á forsetaembætti sem fjölskyldueign. Eða væri kannski ósanngjarnt að gefa Bush fjölskyldunni 12 ár í Hvíta Húsinu og Clinton fjölskyldunni einungis 8 ár?

Hillary Clinton varar fólk við fölskum vonum en Barack Obama varar við gömlum og þreyttum stjórnmálum og býður nýrri kynslóð upp á nýja byrjun. Að mínu mati er nánast ómögulegt að spá fram í tímann eins og staðan er í dag. Eina sem við vitum er að Hillary Clinton hefur góða ástæðu til að óttast um stöðu sína í forkosningum Demókrata.

Næsta á dagskrá Demókrata: Nevada, þar sem Bill Clinton sigraði tvisvar sem forsetaframbjóðandi. Nokkuð sem talið er að muni veita Hillary öruggan sigur þar sem hún hefur einnig haldið sterkri stöðu þar í skoðanakönnunum. Samt sem áður mun ég ekki víkja frá minni skoðun sem ég lagði fram á Deiglunni í nóvember árið 2006, sem er að Barack Obama er rétti maðurinn í embættið.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)