Ég þarf að vona að í janúar 2005 hafi ég haft rangt fyrir mér, þegar Barack Obama baðaði sig í kastljósinu eftir að hafa unnið sæti sitt í öldungadeildinni fyrir Illinois fylki með miklum yfirburðum. Strax þá var mikið talað um það hvort Barack Obama mundi fara í framboð til forseta Bandaríkjanna. Þá voru ekki margir, ég þar á meðal, sem töldu það líklegt að Obama yrði í framboði til forseta 2008 og enn síður að hann ætti einhvern möguleika. En annað er að koma á daginn.
Þó Obama hafa ekki sigrað í gær í New Hampshire, þegar hann hlaut 37% atkvæða á móti 39% hjá Clinton, þá er árangur hans engu að síður mjög góður og löngu kominn fram úr öllu því sem flestir þorðu að vona fyrir nokkrum árum eða jafnvel mánuðum síðan. Það kallast: „Obama-mania“.
Obama-mania er æði sem grípur fleiri og fleiri. Ég sé það stundum þegar fólk hefur fylgst með honum eða kynnt sér hann að æðið grípur það. Það kemur einhver glampi í augun og bros á andlitið sem segir mér allt sem segja þarf. Og þessi afstaða til hans grundvallast ekki endilega á miklum pælingum á flóknum málefnum og afstöðu hans til þeirra – þó hún sé um flest góðra gjalda verð; heldur einfaldlega því að fólk trúir honum, hann er einlægur, fyndinn, hann er einn af þeim. Ekki leiðinlegur pólitíkus, sem hefur aldrei stungið hendi í kalt vatn, horft á fótboltaleik, fengið sér bjór og reykt jónu (oft og mörgum sinnum). Hann reykir og millinafnið hans er Hussein – samt elskar fólkið hann.
Það er öruggt að Obama er stjarna – vinsældir hans eru gríðarlegar og raðirnar sem myndast til að sjá hann halda ræður í smáþorpum eru ótrúlega langar. En er það nóg, er nóg að vera myndarlegasti, skemmtilegasti og einlægasti frambjóðandinn til að vinna kosningar í Bandaríkjunum?
Ég hef vissulega af því þó nokkrar áhyggjur að það muni ekki duga – en kannski er það bara af því að ég þori ekki að vona of mikið – trúi ekki nóg og mikið á mátt fólksins; eins og Obama segir í einni auglýsingunni: „I´m asking you to believe. Not just in my ability to bring about real change in Washington… I´m asking you to believe in yours.“
Þó sumir telji að þessi skilaboð séu klisjukennd og skilaboð hans vera orðagjálfur þá virðist það litlu máli skipta. Obama veigrar sér heldur ekki við að útskýra stefnumál sín með mikilli nákvæmni á framboðsfundum og sagt hefur verið um hann að þegar aðrir frambjóðendur fá spurningu þá líti þeir á það sem tækifæri til að segja það sem þeim langar; Obama hins vegar svarar spurningunni – stundum of hreinskilningslega, að mati ráðgjafa hans.
Ef eitthvað er hæft í því að sá frambjóðandi vinni kosningar í Bandaríkjunum sem fólkið vill helst fá sér bjór með; þá er mér óhætt að vona – GOBAMA –
- Farsæld barna - 28. apríl 2021
- Barnavernd og efnahagskreppur - 23. mars 2021
- 165 lögverndaðar starfsgreinar - 25. nóvember 2020