Sjónvarpið eins og við þekkjum það er dautt. Nútíma manneskjan hefur engan tíma til að bíða samviskusamlega eftir miðvikudagskvöldum einungis til að horfa á Lost. Við höfum of mikið að gera. Því hefur sjónvarpsmenningin í hinum vestræna heimi breyst. Það er ekki lengur ásættanlegt að horfa á dagskrárefni þegar sjónvarpstöðvum hentar að sýna það. Nei, við viljum horfa á þættina okkar þegar okkur sýnist og án auglýsinga. Nú þegar eru stafræn upptökutæki til á 20% heimilum í Bandaríkjunum. Fólk velur sína eigin dagskrá og tekst því að takmarka allt tilgangslausa uppfyllingar efnið sem sýnt er á hverju kvöldi. Apple bíður öllum að kaupa uppáhaldsþætti sína á sanngjörnu verði og almenningsstöðvarnar bjóða ókeypis sýningar á netinu, að vísu með auglýsingum.
Hvers vegna þarf ég þá að alltaf að sitja fyrir framan sjónvarpið á miðvikudagskvöldum? Því að það er engin önnur leið til að komast að því hvað gerist á eyðieyjunni dularfullu. RUV, Skjár 1 og Stöð 2 bjóða að vísu upp á efni, sem þeir sjálfir framleiða, á netinu. Þessar útsendingar eru opnar öllum en efni á Bandarískum netsíðum er yfirleitt takmarkað við innlendar IP-tölur. Eins og er hefur engum tekist að flytja iTunes (það er verslunina) til Íslands og framboð á stafrænum upptökutækjum er mjög fátæklegt. Því er lítið í stöðunni fyrir almúgann á Íslandi. Sumir fara ólöglegar leiðir og niðurhala efni af netinu meðan hinir sitja samviskulega fyrir framan imbann á hverju kvöldi.
En hvernig getur staðið á þessu? Af hverju eru nýungagjarnir Íslendingar ekki búnir að verða sér út um alla þessa nýju tækni? Er það vegna þess að þrýstihópar myndefnis er illa við hana? Gæti jafnvel fákeppni á Íslensku sjónvarpsmarkaði verið um að kenna? Skjár 1 lifir á auglýsingum og ætlast til að fólk horfi á þær og Stöð 2 þarf á áskrifendum (og auglýsingum) að halda. Er það í þeirra hag að leifa okkur að nálgast efni á auðveldari máta og þar með horfa minna á sjónvarpið en annars?
Einstök staða íslenskra dreifingar aðila gæti e.t.v. haft einhver áhrif. Þeir reka bíóhús, verslanir og dreifa efni. Þetta leiðir til fákeppni og gerir nýjum aðilum einstaklega erfitt að hasla sér völl á markaði. Svo er ætlast til að allir mynddiskar séu keyptir innan Evrópusvæðisins (svæði 2). Af hverju? Breytir það einhverju hvort DVD-diskur sé keyptur í BNA eða Englandi og ef svo hvers vegna?
Margir vilja e.t.v. kenna höfundaréttinum um en hvers vegna ættu dreifingaraðilar að hugsa um hann. Þeir ættu einungis að vilja selja sem flestar einingar. Því er óskiljanlegt af hverju neytendum er gert erfiðaðra að nálgast vörurnar. Aðferðir sem augljóslega auðvelda aðgang að öllu efni, tónlist og myndefni, er ýtt til hliðar og eldri aðferðum gert hærra undir höfði. Er þessi ungi iðnaður afþreyingarefnis orðinn svo íhaldssamur?
Hvað sem ykkur finnst og hvað sem á eftir að gerast í innlendri sjónvarpsmenningu þá skiptir það litlu máli. Því að sjónvarpið er að deyja og það er að verða augljósara með hverju árinu. Í framtíðinni mun enginn sætta sig við að láta aðra ráða dagskránni. Við munum öll búa til okkar eigin sjónvarpsstöðvar og borga einungis fyrir það sem horft er á.
- Af veirum og vöðvabólgum - 19. nóvember 2020
- Minningahöll að molum orðin - 5. október 2015
- Steypum yfir miðbæinn! - 30. september 2015