Við áramót er það til siðs hjá mörgum sveitar- og bæjarstjórum að flytja sveitungum sínum nýársávarp. Við slíkt tilefni er oftar en ekki farið yfir árangur sveitarstjórnar á liðnu ári og jafnframt skautað yfir þau verkefni sem stefnt er að koma í framkvæmd á því ári sem gengur í garð.
Óhjákvæmilega eru verklegar framkvæmdir oft á tíðum það fyrsta sem talið er upp við slík tilefni enda er þar um að ræða áþreifanleg verkefni sem eru mjög sýnileg íbúunum og merki um óbilandi dugnað sveitarstjórnar við að efla starfsemi og aðbúnað íbúanna.
Á eftir slíkri upptalningu er farið yfir það sem framundan er í skipulagsmálum enda eru mikil fyrirliggjandi verkefni á því sviði ótvíræð merki um uppgang og bjarta framtíð svæðisins.
Það er staðreynd að sveitarstjórnarmenn landsins bíða flestir spenntir eftir mannfjöldatölum Hagstofu Íslands sem birtast þjóðinni ár hvert síðla desembermánaðar. Fjölgun íbúa sveitarfélagsins er í huga sveitarstjórnarmannsins (a.m.k. þeirra sem starfa í meirihluta) ákveðin viðurkenning á því að hann stýri samfélagi sem er eftirsóknarvert að búa í. Sveitarstjórnarmaðurinn telur fjölgun íbúa vera vísbendingu um að hann sé á réttri leið með sína pólitísku stefnu og þar af leiðandi sína pólitísku framtíð, því eins og fræðin segja: Íbúarnir kjósa með fótunum. Í áramótaávarpinu er þess því að sjálfsögðu getið hvort og þá hversu mikil fjölgun átti sér stað í sveitarfélaginu á árinu. En eru glæsileg íþróttamannvirki og vel skipulögð hverfi það sem dregur fólk til að flytja sig landshorna á milli og velja sér búsetu á framandi slóðum?
Við lesningu áramótaávarpa sveitar- og bæjarstjóra gæti maður dregið þá ályktun að mikilvægasta verkefni sveitarstjórnarmanna að þeirra áliti sé að dæla skattfé almennings í mannvirkjagerð og vesenast við þá skriffinsku að skipuleggja ný hverfi. Dæmi um slíkt ávarp má finna hér: http://www.rangarthingeystra.is/Efni.asp?Skoda=Article&ID=1341
En er það svo í raun og veru?
Að mínu áliti er stærsta verkefni sveitarstjórnarmanna hvar á landi sem þeir starfa að
vinna að eflingu menntunar. Gott fjölskylduvænt samfélag sem státar af góðum leik- , grunn- og tónlistarskóla, hefur þann trausta grunn sem þarf til að laða fólk að svæðinu OG halda því Sveitarstjórn ber ábyrgð á því að tryggja íbúunum góða menntun sem nýtist sem mikilvægt veganesti í lífinu. Hlutverk sveitarstjórnar felst í því að móta umgjörð leik- og grunnskólans og þá framtíðarsýn sem byggt skal á við uppbyggingu framhaldsskóla og háskólastarf á svæðinu.
Mennt er máttur og það er mikilvægt að auka virðingu samfélagsins fyrir menntun. Sveitarstjórn sem setur sér skýr markmið í menntamálum, hvetur nemendur og starfsmenn til dáða og hlúir vel að innra starfi skólanna er að mínu viti á réttri leið.
Góðar byggingar eru ágætar og gott í sjálfu sér að geta skapað glæsilegt vinnuumhverfi en þegar öllu er á botninn hvolft þá er það innra starfið sem skilar árangri til lengri tíma litið. Þess vegna er efling menntunar stærsta verkefni okkar sveitarstjórnarmanna.
- Framtíðin sem við skuldum - 30. nóvember 2020
- Alþingi í gíslingu - 11. júlí 2009
- Tækifæri til að efna fögur fyrirheit - 16. júní 2009