Sagt er að heyra megi söng kapellukórs King´s College í Cambridge í tjöldum fjallgöngumanna í Himalayafjöllum jafnt sem ferðalanga um Sahara á aðfangadag. Hvert sannleikskornið í þeirri fullyrðingu er skal ósagt látið en hitt er þó víst að milljónir manna heyra hann ár hvert þökk sé víðfeðmu útsendingarneti BBC en frá athöfninni hefur verið sent út síðdegis á aðfangadag í tæplega áttatíu ár.
Á þeirri helgistund sem fram fer í kapellunni mitt í háskólaborginni eru sálmar jólanna umfangsmiklir sem skiljanlegt er, en þó eru það lestrar níu ritningastaða úr ritum Biblíunnar sem eru þar í aðalhlutverki og færa heimsbyggðinni gleðitíðindin sem endurómuðu um Betlehemsvelli fyrir rúmum tvöþúsund árum síðan í samhengi sínu við hjálpræðissöguna. Segja má að sálmasöngurinn þjóni tilgangi einskonar flúrs sem eykur á upplifun ritningarstaðanna og dýpkar jafnvel skilninginn á þeim boðskap sem þar kemur fram ef vel til heppnast við val þeirra.
Í þessu helgihaldi í Cambridge má segja að birtist í smættaðri mynd nokkuð sem einkennir jólin sem slík í öllum sínum víddum og fjölbreytileika.
Jólaguðspjallið er í forgrunni í helgihaldi kristinna um jól. Utan um þessa fallegu frásögn af fæðingu barns í fjárhúsi í Júdeu og þau teikn sem urðu í kjölfar þeirrar fæðingar hafa myndast ýmsar hefðir sem ýta undir upplifun okkar á þessu helga kvöldi.
Við leggjum á okkar ferðalög til þess að sameina fjölskyldur sem jafnvel eru dreifðar um heimsbyggðina, gerum heimili okkar hlýlegri og notalegri en vant er með alls kyns skrautmunum, eldum sérstaklega góðan mat, gefum okkur tíma til samveru og gleðjum hvert annað með gjöfum.
Mörg hver okkar förum síðan til messu og fáum þannig lokainnspýtingu upplifunar jólanna ef þannig má að orði komast.
“Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn,” Í þessum orðum birtist kjarni þess sem jólaguðspjallið segir okkur. Það er ástæða til að gleðjast þar sem sá sem mun frelsa okkur til eilífs lífs er fram kominn.
Er hægt að hugsa sér betra tilefni til að gleðjast? Það held ég varla. Og það gerum við svo um munar. Sú umgjörð sem við sköpum jólunum og nefnd er hér að ofan virkar á svipaðan hátt og sálmasöngurinn í kapellu Kings College. Hún eykur á upplifun okkar af jólunum og getur ef hin andlega vídd fær þar sitt pláss aukið á skilning okkar á fréttunum sem fjárhirðarnir heyrðu fyrstir manna.
Jólin eru yndislegur tími. Þá fullyrðingu taka flestir undir. Það er sérstakt andrúmsloft sem fylgir þeim, sérstök hughrif. Einstök hughrif mætti jafnvel segja. Margar okkar bestu minninga hafa orðið til á jólum og er það engin tilviljun. Flest þurfum við ekki nema eitthvað jólalagið, jólaguðspjallið eða bara loga kertis til þess að senda okkur aftur í tímann á vit æskujólanna með tilheyrandi sælutilfinningu.
En hughrifin eru fleiri. Þau eru persónubundin en öll getum við kallað þau fram á jólum sama hver svo sem þau eru í okkar huga.
Ég hvet ykkur til þess að taka lífinu með ró það sem eftir lifir hátíðarinnar og leyfa þessum hughrifum jólanna að leika um ykkur og njóta þess einfaldlega að lifa í þeirri fullvissu og von sem fréttir jólanna færa okkur.
Fjárhúsið og jatan búa innra með okkur öllum. Það eina sem kraftist er af okkur er að opna dyrnar upp á gátt og leyfa barninu litla að leggjast þar til hvílu.
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012