Sérstakt auðlindagjald hefur verið lagt á sjávarútveginn síðustu ár. Gjaldið hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu daga og hafa menn rætt um réttmæti þess og áhrif þess á sjávarútvegin. Umræðan um réttmætið er ekki einföld en erfitt er að halda því fram að þessi skattheimta sé mjög skaðleg fyrir þjóðfélagið.
Hluti af mótvægisaðgerðum vegna skertra veiðiheimilda er að fella gjaldið vegna þorskveiða niður og lækka í öðrum tegundum, tímabundið að minnsta kosti. Hagsmunaaðilar fagna þessu skiljanlega og sumir telja að þar með sé verið að draga úr óréttlátri og skaðlegri skattheimtu.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, skrifaði grein um málið og aðalinntak þeirrar greinar er að auðlindagjaldið sé hátt og að með álagningu gjaldsins sé ríkið í raun að eyðileggja verðmæti og að þjóðin væri betur sett án gjaldsins. Um þetta segir hann sömu rök gilda og um skatta almennt. Erfitt er að sjá að slíkt standist skoðun.
Áhrif skatta eru í aðalatriðum tvíþætt. Annars vegar er eignatilfærsla frá skattgreiðenda til hins opinbera. Hins vegar eru áhrif þess þegar fólk breytir ákvörðunum sínum vegna tilkomu skattsins. Það eru þessi seinni áhrif sem yfirleitt eru skaðleg fyrir hagkerfið þar sem þau valda óhagræði.
Sem dæmi um skaðlega skatta má til dæmis nefna stimpilgjaldið okkar og almennan tekjuskatt. Skaðsemi stimpilgjaldsins er margþætt eins og fram hefur komið áður hér á Deiglunni og kemur aðallega fram í því að hún kemur í veg fyrir hagstæð viðskipti milli tveggja aðila þar sem stimpilgjaldið hækkar kostnaðinn við viðskiptin. Almennur tekjuskattur hefur svipuð áhrif: Eftir því sem tekjuskattur er hærri, þeim mun minna hefur launþeginn upp úr því að vinna fyrir aukakrónu. Þess vegna vinnur fólk minna undir háum tekjuskatti en ella og þar með verður hagkerfið af aukinni verðmætamyndun.
Þá hlýtur það að þurfa að skoðast hvaða ákvarðanir og breytur auðlindagjaldið hefur áhrif á.
Sjávarútvegurinn er að selja sínar afurðir á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og gera má ráð fyrir því að afurðir séu seldar á eins háu verði og hægt er, óháð auðlindagjaldinu. Að sama skapi hlýtur útgerð jafnan að reyna að lágmarka kostnað sinn við að sækja fiskinn úr hafi og vinna hann og ætti að gera það hvort sem auðlindagjald er lagt á eða ekki. Þá kemur að því hvort útgerðin geti aukið eða minnkað umsvif sín eftir því hvort gjaldið sé til staðar eins og launþeginn getur aukið og minnkað vinnu sína. Útgerðin hefur hins vegar ekki sveigjanleika til þess, þar sem aflaheimildir eru takmarkandi þáttur. Þótt skatturinn lækki verður framleiðslan ekki aukin. Því er ljóst að sama verðmætamyndunin á sér stað hvort sem auðlindagjaldið er til staðar eður ei. Sú verðmætamyndun breytist ekki fyrr en gjaldið er orðið svo hátt að það hreinlega borgi sig ekki að sækja fiskinn, en aldrei hafa verið hugmyndir uppi um slíkt.
Auðlindagjaldið er hins vegar klárlega skattur á arðsemi fiskveiða. Núverandi kvótakerfi, sem leyfir frjálst framsal, er einmitt hannað til þess að flytja til aflaheimildir þangað sem þær eru nýttar á sem arðsamastan hátt. Verð á kvóta, hvort sem það er til kaups eða leigu, hlýtur því að lækka eftir því sem auðlindagjaldið er hærra. Þar ættu áhrifin sjást skýrast. Þá er einnig erfitt að segja að auðlindagjald sé mjög hátt á meðan kvótaverð helst hátt. Því er niðurstaðan í raun sú að auðlindagjaldið er skattur á handhafa aflaheimilda en hefur lítil sem engin áhrif á raunverulega verðmætamyndun samfélagsins.
Þá vaknar spurningin um réttmæti auðlindagjaldsins sem skatts á aflaheimildir. Er það réttlátt að skattleggja handhafa aflaheimilda og taka þar með frá þeim verðmæti og flytja til ríkis?
Skatturinn leggst á fyrirtæki í einni atvinnugrein umfram aðrar, sem almennt kann ekki góðri lukku að stýra. Hins vegar er munurinn sá á sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum að hann gengur út á að nýta takmarkaðar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar svo að aðeins er eðlilegt að bera hann saman við önnur fyrirtæki sem nýta takmarkaðar sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Hafa menn nefnt orkufyrirtæki sem dæmi. Raunar er það að mestu leyti ekki alveg sambærilegt dæmi þar sem langflest orkufyrirtæki landsins eru alfarið í eigu hins opinbera. Því væri skattlagning á þeim að mestu leyti tilfærsla milli vasa hins opinbera. Hins vegar má það ljóst vera að ef einkaaðilar fengju að nýta orkulindir í þjóðareign myndi slíkt aldrei gerast án myndarlegs gjalds til hins opinbera á einhverju formi, hvort sem það væri skattur af rekstri eða eins skiptis kaupgjald. Til dæmis kæmi varla annað til greina, ef olía fyndist í íslenskri landhelgi, að íslenska þjóðin nyti góðs af því en ekki bara þeir aðilar sem sæju um að dæla olíunni upp.
Að einhverju leyti er réttlætisspurningin lögfræðilegs eðlis, hvort gjaldið standist jafnréttisákvæði eða ekki og mögulega fleira, en undirritaður treystir sér ekki til að ráðast á þann garð.
Það er ekki spurning að sjávarútvegur er enn undirstöðugrein í íslenskum atvinnuvegi og full ástæða að vera vakandi fyrir því að hann sé ekki settur á hliðina með skattlagningu. Jafnframt er frjálsa framsal kvótakerfisins mikilvægt fyrir arðsemi sjávarútvegsins og hagkvæmustu nýtingu þessarar auðlindar þjóðarinnar. Hins vegar er hófsöm skattlagning í formi engan veginn til þess fallin að vega að öðru hvoru þessa og margir aðrir skattar mun skaðlegri, sem mun frekar ætti að lækka heldur en auðlindagjaldið.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011