„Markmiðið er einfalt, eyðum ríkjandi misskiptingu og stuðlum þannig að fullum jöfnuði í þjóðfélaginu. Það er þjóðarsátt,“ segir í ályktun frá Verkalýðsfélagi Húsavíkur þar sem forysta launþega er jafnframt hvött til að halda fast við boðaðar kröfur gagnvart atvinnurekendum í yfirstandandi viðræðum um nýja kjarasamninga.
Hugtökin misskipting og jöfnuður voru mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni á síðasta ári. Gini-stuðullinn ógurlegi fór eins og eldur í sinu um fjölmiðla og menn kepptust við að harma „hina vaxandi misskiptingu,“ eins og það var kallað.
Þegar nær dróg kosningum dofnaði heldur yfir þessum málflutningi, enda kom í ljós að óvíða á byggðu bóli ríkir meiri tekjujöfnuður en á Íslandi. Vissulega var rétt að tiltölulega fámennur hópur hafði aukið tekjur sínar verulega umfram aðra en hitt var þó mikilvægara að hagur allra hafði batnað meira en í flestum þeim ríkjum sem Íslendingar bera sig saman við.
Nú vill Verkalýðsfélag Húsavíkur hefja sönginn á nýjan leik og „eyða“ misskiptingunni og stuðla að „fullum jöfnuði.“ Ekki er hægt að skilja yfirlýsingu húsvísku verkalýðsforystunnar um fullan jöfnuð öðruvísi en ákall um alvöru sósíalisma – afnám markaðsskipulagsins og frjálsra viðskipta. Þetta er auðvitað gilt sjónarmið í sjálfu sér og ágætt þegar menn tala tæpitungulaust.
En því miður eru afskipti verkalýðshreyfingarinnar af pólitískri stefnumótun ekki öll á jafn gamansömum nótum og hjá Þingeyingunum. Það þykir orðið sjálfsagt að verkalýðshreyfingin setji fram kröfur um almennar lagabreytingar í tengslum við kjarasamninga, breytingar sem hafa áhrif á miklu fleiri en umbjóðendur þeirra og breytingar sem eru í raun af pólitískum meiði frekar en að um sé að ræða hagsmunagæslu fyrir launþega.
Aðkoma ríkisvaldsins að kjarasamninga er ekki sjálfsögð og það er fullkomin fjarstæða að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar geti knúið í gegn pólitískar lagabreytingar með hótunum um allsherjarverkfall. Vilji menn hverfa frá núverandi skipan verslunarfrelsis, sveigjanlegs vinnumarkaðar og dýnamísks hagkerfis eiga þeir að bjóða sig fram til Alþingis og vinna skoðunum sínum fylgi á þeim vettvangi.
Verkalýðsfélag Húsavíkur fer ekki í neinar grafgötur með sinn sósíalisma og ættu Aðalsteinn og félagar að finna þeirri hugsjónabaráttu sinni farveg í að minnsta kosti einum stjórnmálaflokki hér á landi. Slík barátta á hins vegar ekkert erindi í viðræður um kaup og kjör á vinnumarkaði.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021