Eitt merkilegasta upphlaup ársins var undrun manna yfir því Guðlaugur Þór skildi ekki hætta að styðja sitt eigið vínfrelsisfrumvarp þegar hann gerðist ráðherra. „Hvernig dirfist ráðherrann að vinna gegn skoðunum nokkurra undirmanna sinna?“ spurðu menn hlessa.
Framsóknarmenn lenda sjaldan í krísu útaf árekstrum á milli eigin sannfæringar og hagsmunum þeirra stétta sem þeir umgangast mest, kannski vegna þess að það fyrra er sjaldnast til staðar. Þau embætti sem framsóknarmenn gegna skilgreina alfarið þeirra pólitíska sjálf. Eða er það ekki merkilegt að utanríkisráðherrar Framsóknar seinustu árin, Halldór og Valgerður, urðu bæði Evrópusinnuð þegar á leið? En Guðni, hann sat allan þennan tíma sem landbúnaðarráðherra, og varð ekkert Evrópusinnaður, bara mjög landbúnaðarsinnaður. Sannkallaður umboðsmaður bænda, eða allavega umboðsmaður þess kerfis sem hann starfaði fyrir.
Almennt ættu embættin auðvitað frekar að mótast af þeim mönnum sem gegna þeim fremur en öfugt, enda væri lítill tilgangur með lýðræði annars. Síðan eiga þessir lýðræðislega kjörnu fulltrúar auðvitað að stjórna undirmönnum sínum í umboði okkar, en ekki eins og sumir virðast telja: segja okkur til verka í umboði viðfangsefna sinna. Þannig á utanríkisráðherra að gæta hagsmuna Íslendinga í útlöndum en ekki að gæta hagsmuna útlanda á Íslandi. Eins er það ekki hlutverk menntamálaráðherra að vera talsmaður og málsvari menntastétta gangvart almenningi og ríkisstjórn. Hlutverk hans er að sjá til að menntastofnanir fari að lögum.
Það þótti einstaklega merkilegt að Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra skyldi áfram styðja gamalt þingmannafrumvarp sitt um afnám ríkiseinokunar á léttvíni og bjór þrátt Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð hafi lagst gegn því. Bölvaður dónaskapur hjá ráðherranum! Þó ætli hann ekki að beita embætti sínu til þess að berjast fyrir þessari skoðun sinni, annað en sagt verður um starfsmenn áðurnefndra stofnana.
Það er stundum eins og menn gleymi því að stjórnmálamenn, þar með taldir ráðherrar, eru kosnir af fólki. Þeirra ábyrgð er því gagnvart þeim kjósendum sem þá kusu, en ekki gagnvart undirmönnum sínum í ráðuneytunum og ekki gagnvart þeim sem sérhagsmunahópum sem þeir umgangast mest. Guðlaugur Þór er fulltrúi ákveðinnar hugmyndafræði og var kosinn í prófkjöri og inn á þing á grundvelli hennar. Honum er til hróss að hafa látið hjartnæm óp um meiri lipurð í túlkun hennar sem vind um eyru þjóta, enda var það það hið eina rétta í stöðunni. Eitt atkvæði landlæknis dugar skammt í prófkjöri.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021