Fyrir rúmu ári síðan sagði Friðrik Sophusson á ráðstefnu ungra sjálfstæðismanna um umhverfismál að það skipti ekki lengur máli hvort loftlagsbreytingar væru af mannavöldum, við yrðum hreinlega að koma fram við þær eins og svo væri. Hvort sem loftslagsbreytingar valda hlýnun eður ei þá er þá er þörf á því að koma böndum á útblástursmengun í heiminum.
Hugmyndir um að minnka loftmengun á Íslandi rímar við fyrstu sýn illa við hugmyndir sem birtast í blöðum um stórfellda iðnaðaruppbyggingu á Íslandi á komandi árum. Þar hafa verið nefnd olíuhreinsunarstöð (risaverkefni upp á 300 milljarða), áltæknigarð, rafþynnuverksmiðju, kísilhreinsun, netþjónabú að ógleymdum nokkrum álverum. Ef við látum orkuöflun þessarra verkefna liggja milli hluta þá vaknar spurningin: hvar eiga menn að finna mengunarheimildir fyrir þessu?
Sameinuðu þjóðirnar halda utanum mengun í heiminum og má á heimasíðu þeirra finna þessa töflu sem sýnir útblástur margra þjóða. Þar sést að útblástur íslendinga er 3.000 einingar* en samanlagður útblástur þeirra sem er talinn upp í töflunni er 22.2 milljónir eininga. Í þessa töflu vantar nokkra stóra aðila eins og Kína og Indland svo að heildarstærðin er ennþá meiri.
Málið snýst sem sagt um þessar 22,2 milljónirnar á heimsvísu og hvernig hægt sé að lækka þá tölu.
Markmiðum um minnkun útblásturs í heiminum munu líklegast nást hraðast með framseljanlegum kvóta á útblástur fyrirtækja. Þá geta fyrirtæki verslað sín á milli á alþjóðamarkaði með útblástursheimildir.
Aðilar sem ætla sér að stofna til iðnaðar sem veldur loftmengun á Íslandi í framtíðinni verða því að sækja sér heimildir af þeim sem menga þegar. Hvort heldur er á Íslandi eða úti í heim. Þannig gæti aukin útblástursmengun á Íslandi í framtíðinni verið á kostnað útblásturs annarsstaðar í heiminum.
Markaðir með losunarheimildir fara vaxandi. Samkvæmt Desemberhefti tímaritsins Bloomberg Markets þá eru fjárfestingar í kolefnissjóðum áætlaðir 12,5 milljarðar bandaríkjadala á árinu 2007. Þetta er því hætt að vera fjarlæg draumsýn, mikið af fólki er farið að veðja stórt á að framsal mengunarheimilda verði stóriðnaður á komandi árum.
Markaður með mengunarheimildir er ennþá hlaðinn gríðarlegri óvissu og hefur flökt reynst mikið á verðlagningu heimilda. Þetta er meðal annars vegna þess að ríki í heiminum eru ennþá að auka markaðinn með því að leyfa frekari mengun í löndum sýnum en einnig vegna spákaupmennsku.
Það er ljóst að einn af gjaldmiðlum komandi aldar verður loftmengun og það verður forvitnilegt að sjá hvernig Ísland spilar úr spilunum. Hvort einingar okkar verða seldar frá okkur, hvort við kaupum einingar til okkar eða hvort hér myndist mikill spámarkaður með einingar frá öllum heimshornum.
* nánari útlistun á því fyrir hvað hver eining stendur má finna á heimasíðu Sameinuðu Þjóðanna.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021