Pottaskefill kom í bæinn í nótt, ég býst við að veðrið hafi leikið hann nokkuð grátt enda virðist hann ekki hafa haft tök á því að koma við heima hjá mér. Það er því gott að hugsa til þess að storminum er að slota og Askasleikir ætti því ekki að vera í neinum vandræðum með að lauma einhverju í skóinn minn.
Það getur verið að veðrið sé ekki eina ástæðan fyrir því að skórinn minn var galtómur þegar ég vaknaði í morgun, ég fór nefnilega frekar seint að sofa í gær. Jólasveinarnir eru ansi lunknir þegar kemur að því að verðlauna þá sem hafa hagað sér vel. Það er til dæmis ekki nóg að fara snemma að sofa, maður þarf að vera góður strákur eða stelpa allt árið. Þvílíkt dómsdagsvald sem jólasveinarnir hafa verður vart jafnað og ljóst að starfið er gríðarlega krefjandi. Engu að síður er skemmtilegt að velta því fyrir sér hverjir séu að fá í skóinn þetta árið.
Kalli Bjarni
Þessi fyrrverandi Idol-stjarna Íslands átti ekki sérstaklega gott ár. Eftir að hafa lent í kasti við löginn hefur hann verið dæmdur í 2 ára fangelsi og því afskaplega ólíklegt að hann fái eitthvað í skóinn þetta árið.
Vilhjálmur Vilhjálmsson
Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur mun líklega ekki bíða í ofvæni þegar hann vaknar á morgnana. Jólasveinarnir vilja nefnilega að allir leiki sér fallega saman og þá má maður ekki skilja minnihluta borgastjórnarinnar útundan.
Magnús Scheving
Ég held að Magnús muni fá eitthvað alla dagana. Tókst með stórskemmtilegu framtaki að innleiða hreyfingu á ný inn í leikvenjur barna víða um heiminn. Það hlýtur að hugnast þeim rauðklæddu nokkuð vel.
Sóley Tómasdóttir
Ég hugsa að Sóley muni fá í skóinn þetta árið enda vilja sveinarnir ekki láta saka sig um að vera and-feministar eða að þeir láti stjórnast af karllægum vinnubrögðum.
Svavar Lúthersson
Það er afskaplega ólíklegt að Svavar fái eitthvað meira en kartöflu í skóinn þessi jólin. Þrátt fyrir að Svavar vilji meina að hann hafi ekki gert neitt ólöglegt þá má líklegt þykja að útgáfufyrirtækin hreinlega kúgi jólasveinana til þess að halda sig frá Svavari.
Yoko Ono
Yoko fær í skóinn fyrir friðarsúluna og gera þannig heiðarlega tilraun til þess að hjálpa íslenskri ferðaþjónustu.
Íslenskar knattspyrnukonur
Eins frábærlega og íslenska kvennalandsliðið stóð sig í ár þá fá líklega vel flestar knattspyrnukonur landsins ekki í skóinn þetta árið. Það er ekki fallegt að láta gremju eða öfund ráða ferðinni þegar verið er að velja hver hafi verið fremstur meðal jafningja.
Bjarni Már Magnússon
Bjarni fær í skóinn. Það verður þó vegna þess að jólasveinarnir vilja væntanlega bæta fyrir að þurfa gefa Sóleyju í skóinn.
Að lokum held ég að allir þeir sem stríddu Birni Inga á árinu fái ekki í skóinn vegna þess að það vill enginn sjá fullorðinn einstakling gráta upp á sviði, nema kannski á Óskarsverðlaunaafhendingunni.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010