Formaður Framsóknarflokksins vegur að menntamálaráðherra með ósanngjörnum hætti þegar hann heldur því fram úr ræðustóli á Alþingi að kristni verði nú „gerð brottræk úr helgidómi íslenskra menntastofnana að undirlagi menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihlutans,“ svo vitnað sé beint í orð Guðna Ágústssonar frá því í gær.
Í nýframkomnu frumvarpi menntamálaráðherra til nýrra grunnskólalaga er gert ráð fyrir því að ákvæði í lögunum um að skólastarf skuli mótast af kristilegu siðgæði falli niður. Þess í stað verði kveðið á um að starfshættir skuli mótast af umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Réttilega er á það bent í skýringum með frumvarpinu að þessi hugtök séu kjarninn í túlkun á kristilegu siðgæði.
Einhverra hluta vegna hafa ýmsir stjórnmálamenn kosið að gera þessa veigalitlu breytingu að stórmáli. Eru menn í alvörunni að halda því fram að þessi tillaga menntamálaráðherra sé einhver sérstök ógn við menningarlega umgjörð þjóðarinnar?
Því skal sannarlega ekki mótmælt að afstaða Íslendinga til trúmála hefur reynst heilladrjúg. Hin milda og umburðarlynda trúariðkun hefur átt sinn þátt í stuðla að upplýstu samfélagi þar sem mannréttindi og mannhelgi eru höfð í öndvegi. Þótt meginþorri Íslendinga játi kristna trú er óhætt að fullyrða að fæstir hagi lífi sínu í einu og öllu eftir kennisetningum Gamla testamentisins – sem betur fer.
Víða um heim er skólastarf nátengt trúarbragðaiðkun hvers konar, þ.á m. kristni. Er ungmennum gerður einhver greiði með því? Er bandarískum ungmennum í einstökum ríkjum þar í landi einhver greiði gerður með því að kenna þeim sköpunarsöguna í stað þróunarkenningar Darwins? Ef við ímyndum okkur eitt augnablik ofangreinda breytingu á grunnskólalögum með öfugum formerkjum, þ.e. að taka ætti upp ákvæði um kristilegt siðgæði í grunnskólalögin, hvaða augum myndu menn líta það?
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur svarað gagnrýnendum frumvarpsins með málefnalegum hætti, þótt reynt hafi verið í hvívetna að gera þessa breytingu á grunnskólalögunum tortryggilega. Skólastarfi á Íslandi stafar auðvitað engin ógn af þeirri breytingu sem menntamálaráðherra leggur til.
Menning íslensku þjóðarinnar er grundvölluð á umburðarlyndi, sáttfýsi og virðingu og þessi gildi munu hér eftir sem hingað til endurspeglast í skólastarfi. Öfgaleysi í trúmálum er gæfa okkar Íslendinga. Vonandi er upphlaup og ósanngjörn atlaga einstakra stjórnamálamanna að menntamálaráðherra ekki til marks um breytingu í þeim efnum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021