Það er fátt skemmtilegra en að smella gamalli og góðri íslenskri bíómynd í tækið. Ekki síst ef hún vekur góðar minningar og gefur innblik inn í umhverfi og samfélag þess tíma. Bíómyndin Löggulíf telst ein slíkra, þótt að sumu leyti standi hún fyrirrennurum sínum Dalalífi og Nýju lífi að baki. Hún telst heldur ekki mjög gömul, en þó fylgist maður þar með hensonklæddri bekkjarsystur sinni úr Menntaskólanum sprauta af öryggi úr vatnbyssu á þá félaga Þór og Danna liggjandi hálfnakta í lögreglubúningunum, étandi pylsur og lesandi illa fengið DV í brekkunni við gömlu Sundhöllina.
Nú er það svo að taka má undir þau rök að það sé skakkt að tengja saman þjóðir og vilja, en engu að síður verður því ekki neitað að íslenska þjóðin hefur mjög spes þjóðarsál.
Við erum nett klikkuð.
Þessi klikkun birtist í raun ansi vel í þeim félögum Þór og Danna, þótt efast megi um að greindarfar þeirra kumpána slagi upp í meðal Íslendinginn. Hvergi fyrr né síðar í kvikmyndasögunni má finna jafn útsjónarsama og í raun ótrúlega metnaðarfulla einstaklinga og með jafn útblásna sjálfsmynd, þótt þeir velji aldrei það starfsvið sem getur talist þeirra sterka hlið. Jú, þeir eru nett siðblindir og jú, þeir geta svo sem blekkt og svindlað án þess að blikna. En það er í þessari mögnuðu sjálfsblekkingu sem styrkleikar Þórs og Danna liggja. Þessari blekkingu að þeir geti vel tekist á við hvaðeina sem hendi er næst og telja bæði sjálfum sér og öðrum trú um að þeir séu bestir í því.
Gott dæmi er þegar Arnarhólsróninn Koggi spyr Danna um lögreglunúmerið hans, í því skyni að fylla út lögregluskýrsluna (af því þeir kunnu það ekki) eftir að hafa handtekið unga drukkna stúlku undir stýri (og að fenginni ráðgjöf frá rónanum).
Danni er ekki lengi að svara: „númer? … Númeró Únó auðvitað!“
Þótt að vankunnátta hans við að fylla út lögregluskýrslur, losa sjálfan sig úr handjárni við félaga sinn Þór eða hvaðeina sem telja má Danna greyinu til vansa, þá er hann samt Númeró Únó auðvitað, og er ekkert að efast um það.
Nýlega náðu Íslendingar þeim merka áfanga að toppa lista Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir þau lönd þar sem best er að búa. Frændur vorir Norðmenn, sem hafa trónað á toppi listans, eru komnir í annað sæti. Og það þrátt fyrir feitar olíulindir og grindverksmálandi skandisólíalisma af hæstu gráðu.
Íslendingar hafa lengi sagt það sama og Danni. Við erum Númeró Únó. EInhvern veginn hafa Íslendingar staðið bjargfastir í þeirri trú að við séum í raun mestir og bestir. Fallegasta fólkið, sterkasta fólkið og gáfaðasta fólkið. Ísland er bara best í heimi og hér er best að búa. Þessu höfum við haldið fram, alveg frá þeim tíma sem Ísland taldist í raun með vanþróuðustu ríkjum Evrópu upp úr miðri síðustu öld og fram til dagsins í dag. Nú höfum við loks sannfært alþjóðasamfélagið um að við höfðum alltaf rétt fyrir okkur. Og finnst í raun ekkert sjálfsagðara. Þetta var augljóst allan tímann. Er í raun engin frétt.
„Þarf að ræða þetta eitthvað frekar eða…?“
En maður veltir óneitanlega fyrir sér: Hvað næst?
Hvað gerir þjóð, sem hefur hefur notað nær fullkomlega brenglaða sjálfsmynd sína til að brjótast úr örbrigð og fátækt þróunarríkisins yfir í skínandi fordæmi hins vestræna heims þegar hún loksins meðtekur að hún er orðin sú fremsta? Hvað gerir þjóðin þegar hún loks meðtekur skilaboðin. Já ok … við erum búin að ná þessu. Við þurfum ekki lengur að vinna af tvöföldum krafti til að ná framar öðrum þjóðum. Þetta er eiginlega bara komið hjá okkur.
Kemur þjóðin til með að leggast í meiri ládeyðu á næst árum? Dettur hún jafnvel inn í skandísólíalismann af meiri krafti? Rólega sænska lífstílinn með botnlaust skattlagðri yfirvinnu og endalausum frítíma til að mála grindverkið og týna jarðaber. Eða mun hið óbilandi keppnisskap þjóðarinnar halda áfram að skapa dráttarklárum atvinnulífsins aðstæður til að ná enn lengra og tryggja forystuna á toppnum? Og þannig tryggja velsæld til framtíðar? Að við verðum Númeró Únó til framtíðar?
Þar sem Jólin nálgast er ekki úr vegi að segja „vandi er um slíkt að spá“.
En svona persónulega þá kann sá sem þetta skrifar betur við íslensku geðveikina en hinn afspyrnu rólega grindverkamálningarlífstíl frænda vorra á Skandinavískaganum, þótt vel megi fallast á aukin framlög til þeirra hópa sem hafa það einna verst þessa dagana, og ríkisstjórnin vinnur reyndar að um þessar mundir. Á meðan ríkið tekur að sér velferðina þá á hún að gera það vel.
En geðveikin og sjálfsblekkingin fer Íslendingum sennilega betur. Og vonandi er það hún sem teymir þjóðina áfram um ókomin ár þótt e.t.v. megi búast við mildara afbrigði af henni.
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021