Mundi Jesús halda fermingarferð á skólatíma? Mundi Jesús sækja um leyfi til að kristnu börnin kæmust í þessa ferð? Mundi hann sækja um slíkt leyfi í heilu lagi fyrir allan hópinn eða mundi hann láta hvert foreldri faxa sína eigin beiðni til skólastjórans? Og hvað mundi hann gera ef hann væri skólastjórinn? Mundi hann veita leyfið eða ekki?
Já hvað myndi Jesús gera sem skólastjóri. Væri leyfisveiting af hálfu hans háð því hvort beiðnin kæmi frá Kirkjunni eða foreldrunum sjálfum? Mundi hann hringja í fjölmiðla? Eða mundi Jesús senda fyrirspurn til Menntamálaráðuneytisins um nánari útfærslu á þeim tilmælum ráðuneytisins að trúarstarf skuli ekki fara fram á skólatíma. Og hvað mundi Jesús gera sem Menntamálaráðherra? Mundi hann lúffa fyrir biskupnum eða standa ótrauður vörð um trúfrelsi í skólum?
Óháð því hvert svör við hinum fáranlegu spurningum hér að vera kynnu að vera er hins vegar alveg klárt hvert rétta afstaðan er í þessum málum árið 2007. Það gefur augaleið að skólastarfið á ekki að skipuleggja í kringum viðburði einstaka trúfélaga ekki fremur en það eigi að skipuleggja það í kringum viðburði íþróttafélaganna. Samfélagsmynstrið okkar býður ekki upp á slíkt. Sum börn eru látin fermast, önnur ekki. Sum börn eru látin æfa knattspyrnu önnur ekki.
Á sama hátt gefur það augaleið að ef sótt er um leyfi til að fara í svona ferðalag er varla hefð fyrir öðru en að slík leyfi séu veitt. Líklegast ætti fjögurra barna hópur ekki erfitt með að fá frí til að fara á viðburð á vegum einhvers annars trúfélags, íþróttafélags eða tónlistarskóla. Sama ætti auðvitað að gilda um börn sem skráð hafa verið í Þjóðkirkjuna. Spurningin er bara hvort það væri litið á það jákvæðum augum ef önnur trúfélög, íþróttafélög eða tónlistarskólar skipulegðu vísvitandi starfsemi sína þannig að hún kæmi niður á skólasókn þeirra barna sem viðburðina sóttu. Auðvitað verður stundum ekki komið í veg fyrir árekstra. Páskana væri til dæmis ekki hægt flytja auðveldlega en öðru máli gildir um einhverjar skálaferðir. Og auðvitað setja slíkar ferðir dagskrár skólanna úr skorðum. Væri of mikils ætlast að vilja að þær færu fram um helgi?
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021