Í gær bárust fregnir um að rússneskt flugmóðurskip, ásamt ellefu öðrum herskipum og að öllum líkindum kafbátum, væru á leið inni í íslenska efnahagslögsögu suðaustur af landinu. Á fréttavefnum Vísi var fullyrt að flotadeildin þyrfti ekki að leita leyfa til að fara inn í efnahagslögsöguna en hún mætti ekki fara inn í landhelgina án leyfis. Þetta er ekki alls kostar rétt.
Á alþjóðlegum hafsvæðum og í efnahagslögsögunni gildir meginreglan um frelsi til siglinga. Í landhelginni er staðan hins vegar önnur. Samkvæmt 17. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna hafa skip allra ríkja rétt til friðsamlegrar ferðar um landhelgina í samræmi við samninginn. Það er því ljóst að herskip sem og önnur skip hafa fullan rétt til friðsamlegrar ferðar um landhelgina að nánar uppfylltum skilyrðum (sjá fyrir neðan merkingu hugtakana herskip, ferðar og friðsamlegrar ferðar).
Íslensk löggjöf er í samræmi við 17. gr. hafréttarsamningsins. Af d-lið 2. gr. tilskipunar nr. 44/1939 um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, er ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasvæði má ráða að herskipum sé frjálst að sigla viðstöðulaust gegnum íslenska landhelgi. Í þessu samhengi er rétt að benda á þá sérreglu er gildir um kafbáta og önnur neðansjávarför í landhelginni en samkvæmt 20. gr. hafréttarsamningsins skulu þau sigla ofansjávar og hafa fána sinn uppi. Sambærilegt ákvæði er að finna í umræddri tilskipun.
Nú kann einhverjum að finnast þessar reglur ekki þjóna íslenskum hagsmunum þar sem herskipum erlendra ríkja sé heimilt að sigla of nálægt landi. Undirritaður er þó á því að svo sé ekki. Aðild Íslands að NATO ásamt tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin leika lykilhlutverk í vörnum ríkisins. Hreyfanleiki sjóherja Bandaríkjanna og annarra aðildarríkja NATO skipta miklu fyrir íslenska hagsmuni. Því minni takmarkanir sem eru á ferðum herskipa því minni tími fer í að fara milli staða. Hreyfanleikinn þjónar auk þess hagsmunum ríkja heims þegar þarf að stilla til friðar og tryggja valdajafnvægi á órólegum svæðum. Taka má sem dæmi að hreyfanleiki sjóherja er ein af þeim hugmyndum sem liggja VII. kafla sáttmála hinna sameinuðu þjóða til grundvallar sem fjallar um hvernig ríki heims geta gripið til aðgerða vegna ófriðarhættu, friðrofa og árása.
Aukin umsvif Rússa í Norðurhöfum er annað viðfangsefni. Nauðsynlegt er að reyna skilja ásetning Rússa og takast á við hann með raunsæjum hætti. Ísland mun ekki leika lykilhlutverk í því verkefni. Hins vegar mun Ísland hafa hlutverki að gegna vegna landfræðilegrar legu ríkisins. Það hlutverk verður að takast á við svo sem með eflingu Landhelgisgæslunnar.
29. gr. Skilgreining á herskipum
Í samningi þessum merkir „herskip“skip sem telst til hers ríkis, ber hin ytri merki til að
auðkenna slík skip af þjóðerni þess, er undir stjórn yfirmanns, sem stjórn ríkisins hefur formlega
skipað og nafngreindur er í viðeigandi herþjónustuskrá eða á jafngildan hátt, og er með áhöfn
undir venjulegum heraga.
18. gr. Merking ferðar
1. Ferð merkir siglingu um landhelgina í því skyni:
a) að fara um hana án þess að koma inn á innsævi eða að leggjast á skipalægi eða að
hafnarmannvirki utan innsævis; eða
b) að halda inn á eða út af innsævi eða að leggjast á slíkt skipalægi eða að slíku hafnarmannvirki.
2. Ferð skal vera óslitin og greið. Ferð felur þó í sér rétt til að nema staðar og varpa
akkerum en aðeins að svo miklu leyti sem það er samfara venjulegri siglingu ellegar reynist
nauðsynlegt af óviðráðanlegum ástæðum eða vegna neyðar eða til að veita mönnum, skipum
eða loftförum í háska eða neyð aðstoð.
19. gr. Merking friðsamlegrar ferðar
1. Ferð er friðsamleg svo framarlega sem hún stofnar friði, góðri reglu eða öryggi
strandríkisins ekki í hættu. Þessa ferð skal fara í samræmi við samning þennan og aðrar reglur
þjóðaréttar.
2. Ferð erlends skips skal talin stofna friði, góðri reglu eða öryggi strandríkisins í hættu ef
það fæst við einhverja af eftirfarandi athöfnum í landhelginni:
a) hótun um valdbeitingu eða beitingu valds gegn fullveldisrétti, landamærahelgi eða stjórnmálasjálfstæði
strandríkisins eða á annan hátt í bága við meginreglur þjóðaréttar sem
geymdar eru í sáttmála Sameinuðu þjóðanna;
b) æfingu eða þjálfun með vopn af hvaða tegund sem er;
c) aðgerð til upplýsingaöflunar sem stofnar vörnum eða öryggi strandríkisins í hættu;
d) áróðursaðgerð til að hafa áhrif á varnir eða öryggi strandríkisins;
e) flugtak, lendingu eða töku loftfars um borð;
f) skot, lendingu eða töku hernaðartækis um borð;
g) lestun eða losun vöru, móttöku eða afhendingu gjaldeyris ellegar ferð manna um borð eða
frá borði, andstætt lögum og reglum strandríkisins í tolla-, fjár-, innflytjenda- eða
heilbrigðismálum;
h) vísvitandi og alvarlega mengun sem brýtur gegn samningi þessum;
i) veiði;
j) framkvæmd rannsókna- eða mælingastarfsemi;
k) aðgerð sem miðar að afskiptum af fjarskiptakerfum ellegar annarri aðstöðu eða útbúnaði
strandríkisins;
l) aðra iðju sem er ekki í beinum tengslum við ferð.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009