Í síðustu viku fylltust allir helstu netmiðlarnir af fréttum um deilur milli Rafael Benitez og nýrra bandarískra eigenda Liverpool. Slíkar deilur eru sífellt algengari í ensku úrvalsdeildinni og virðast þær haldast í hendur við breytt eignarhald hjá stærstu félögunum í deildinni.
Síðustu ár hefur eignarhald á enskum félögum í úrvalsdeildinni breyst mikið. Í stað enskra fjárfesta hafa komið erlendir milljarðamæringar með aukið fjármagn og auknar væntingar. Fótboltaunnendur þekkja helstu dæmin, frá Roman Abramovic og Glazer fjölskyldunnar hjá Chelsea og Man.Utd til Gillette og Hicks hjá Liverpool. Þessir milljarðamæringar hafa oftar en ekki leyst af hólmi rótgróna enska eigendur sem hafa setið í stjórnum félaganna í fjöldamörg ár. Sumir segja þetta ferskan vind inn í ensku knattspyrnuna en aðrir, einkum stjórar félaganna, kvarta.
Benitez er ekki fyrsti stjórinn sem lendir í deilum við nýja eigendur. Innkoma Glazer fjölskyldunnar olli miklum titringi innan Man.Utd og samband Abramovic við José Mourinho varð til þess að hann hætti. Nýju eigendurnir vilja sjá árangur og helst strax. Þeir eru óhræddir við að dæla fé inn í liðin og vænta þess að sjá það skila sér í spilamennsku liðsins. Þessu fylgir að sjálfsögðu aukin pressa á þjálfarann, líkt og Mourinho fékk að finna fyrir.
Rétt er að taka fram að eigendaskiptum fylgja ekki eintómir ókostir. Með auknu fjármagni má ýmislegt gera. Ljóst er að kaup Liverpool á Fernando Torres á 25 milljónir punda hefðu líklega aldrei komið til undir stjórn gömlu eigendanna auk þess sem að í bígerð er bygging nýs heimavallar, Stanley Park, uppá litlar 400 milljónir punda. Hjá Chelsea hefur verið gerð sannkölluð rússnesk bylting, miklu var eytt í nýja leikmenn og árangurinn lét ekki á sér standa – tveir enskir meistaratitlar á fyrstu þremur árunum.
Auknu fé fylgir aukin pressa. Í kjölfar blómatíma „rússnesku byltingarinnar“ kom lægð. Á síðasta tímabili vann Chelsea hvorki ensku deildina né Evrópumeistaratitilinn eftirsótta og vakti það óánægju hjá Abramovic. Mourinho hætti og enn sér ekki fyrir endann á þeirri ákvörðun hans því margir lykilleikmenn Chelsea hafa komið fram í fjölmiðlum til að lýsa yfir óánægju sinni með brotthvarf hans. Þá eru aðdáendur Chelsea orðnir langþreyttir á einræðislegum tilburðum milljarðamæringsins sem virðist öllu vilja stjórna.
Deilurnar hjá Liverpool eru um margt sambærilegar og Benitez virðist ætla að fá sömu meðferð og Mourinho fékk – ef hann skilar ekki titli í hús mun hann líklega verða látinn fara. Þetta hefur valdið óróa hjá leikmönnum og lýsti Fernando Torres, dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool, því yfir í vikunni að yrði Benitez látinn taka pokann sinn yrði Torres næsti maður út um dyrnar. Þá hafa áhangendur Liverpool lýst yfir stuðningi við Benitez og vilja ekki sjá hann rekinn.
Með slíkum tilburðum grafa nýju eigendurnir hvað eftir annað undan öllum stöðugleika liðanna. Tvö efstu liðin í ensku úrvalsdeildinni (þegar þetta er skrifað), Arsenal og Man. Utd, hafa verið undir stjórn sömu þjálfaranna í yfir áratug, Arsene Wenger í 11 ár og Sir Alex Ferguson í 21 ár. Þeim var gefinn tími til að byggja upp lið sín frá grunni og hefur það skilað sér síðustu ár. Spurningin er hvort skammsýni milljarðamæringanna komi í veg fyrir að það sama gerist hjá hinum tveimur stórklúbbunum. Þó liggur fyrir að réttur þjálfari, hinn eini sérstaki, þarf að vera við stjórnvölinn þegar uppbygging hefst og hvort eigendur Liverpool telja það vera núverandi stjóra eða einhvern annan mun tíminn leiða í ljós.
- Sæmdarréttur – réttur til höfundaheiðurs - 3. maí 2011
- Sæmdarréttur – nafngreiningarréttur - 2. maí 2011
- Gull og grænir skógar - 5. júlí 2009