Sparisjóðir landsins hafa verið talsvert í umræðunni að undanförnu samfara harðnandi samkeppni á bankamarkaði. Rekstrarform sjóðanna og smæð margra þeirra gerir þeim erfitt um vik í starfsemi sinni, og í kjölfarið hafa sameiningar sparisjóða átt sér stað með það að markmiði að styrkja samkeppnishæfni þeirra. Í kjölfar mikillar, erlendrar fjárfestingar hjá stóru viðskiptabönkunum þremur hafa sparisjóðirnir margir hverjir markað sér þá stefnu að einbeita sér að innlendum markaði. Fram hefur komið í könnunum að viðskiptavinir sparisjóðanna þykja hinir ánægðustu, og er því ekki óeðlilegt að sjóðirnir reyni að nýta sér þá stöðu enn frekar.
Rekstrarform sjóðanna reynst þeim fjötur um fót í samkeppni við hina viðskiptabankanna, sem eru reknir með hlutafélagaformi. Svokallaður varasjóður sem öllum sparisjóðum er skylt að hafa hefur verið nefnt fé án hirðis, atvæðamagn stofnfjáreigenda er ekki í hlutfalli við eign þeirra og þeir eiga ekki rétt á arðgreiðslum – týna mætti til ýmis fleiri atriði sem gera sparisjóðum erfitt um vik. Nú þegar hefur einn sparisjóður, SPRON, skráð sig á hlutabréfamarkað sem veitir honum rýmri heimildir til ýmissa umsvifa, þó svo að lög um fjármálafyrirtæki setji sjóðnum ennþá nokkrar skorður vegna upphaflegs rekstrarforms hans. Þó er ljóst að allir sparisjóðir munu á endanum þurfa að gerast hlutafélög til að geta tekið þátt samkeppni á bankamarkaði til langs tíma, og það hafa forsvarsmenn sjóðanna sjálfir sagt.
Sparisjóður Mýrasýslu (SpM) er einn stærsti sparisjóður landsins og hefur tekið þátt í því samþjöppunarferli sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Snemma árs 2003 keypti SpM allt stofnfé Sparisjóðs Siglufjarðar, og að sama skapi allt stofnfé Sparisjóðs Ólafsfjarðar tæplega tveimur árum síðar. Athyglisvert við SpM er hins vegar að allt stofnfé sjóðsins er í opinberri eigu – nefnilega Borgarbyggðar. SpM var til umræðu í fréttum síðastliðinnar viku, en þar kvartaði einn bæjarbúi yfir því að á meðan bæjarfélagið skorti fé til framkvæmda sæti það á eigum fyrir tugi milljarða, þar með töldum sparisjóðnum á svæðinu.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins tjáði Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, sig um málefni sparisjóðsins: “Í dag er ekkert í spilunum sem réttlætir það að viðra sölu á Sparisjóði Mýrasýslu.” Seinna í viðtalinu bætti hann um betur og sagði allt hefði nú sitt verð, nema þegar kæmi að sparisjóðnum góða. Hlutir bæjarfélagsins í Faxaflóahöfnum og Orkuveitu Reykjavíkur væri hins vegar mögulega falir. Þessi ummæli eru afar athyglisverð.
Forseta bæjarstjórnar verður ekki láð það að vilja hámarka hag bæjarfélagsins, sem hann telur eflaust felast meðal annars í því að halda sem fastast í eitt helsta fjöregg bæjarfélagsins. Hins vegar verður að teljast óeðlilegt að bæjarfélagið Borgarbyggð standi í rekstri fjármálafyrirtækis, sem það gerir óneitanlega með eignarhaldi sínu á SpM. Sú staðreynd að fjármálafyrirtækjum er betur komið í höndum einkaaðila hefur sannast með afgerandi hætti á undanförnum árum. En forseti bæjarstjórnar telur hins vegar “ekkert réttlæta það að viðra skoðanir um sölu.”
Það er eindregin von þess sem þetta ritar að Björn Bjarki Þorsteinsson endurskoði þessa afstöðu sína. Beri hann raunverulega hag íbúa Borgarbyggðar fyrir brjósti, ætti hann að íhuga sölu á stofnfjár SpM til einkaaðila sem eru tilbúnir að fara með sparisjóðinn á næsta stig. Borgarbyggð myndi án efa hafa umtalsverðar tekjur af sölunni sem gætu nýst til frekari uppbyggingar bæjarfélagsins. Þar að auki yrðu hliðaráhrif aukinna umsvifa sparisjóðsins í höndum einkaaðila án efa til góða.
- Grætt á gjaldeyrishöftum - 18. september 2009
- Fjárlagahallinn er nú meiri kallinn - 27. maí 2009
- Hverjum er um að kenna? - 25. apríl 2009