Þó að flestir hafi nú tekið verk Nóbelskáldsins okkar í sátt, þá var algengt að fólk fyrirliti boðskap bókanna sem það taldi bera með sér mikla lítilsvirðingu á lífinu í sveitum landsins. Bændastéttin var fyrirmannastétt og var varla til meiri heiður en að vera bóndi. Þó að sú hugsun hafi að einhverju leyti breyst, berum við enn miklar tilfinningar til sveita landsins og viljum gera hvað við getum til að viðhalda byggð þar og sjálfbærri framleiðslu á matvælum.
Í þeim tilgangi hefur ýmislegt verið reynt. Víðtækur stuðningur við bændur felur í sér að íslenskir skattgreiðendur greiða einna hæstu styrki til landbúnaðar á byggðu bóli ásamt því að sætta sig við hærra matvöruverð en gengur og gerist víðast hvar annarsstaðar. Við því er svo sem ekki mikið að segja þar sem styrkjakerfið hefur viðgengist lengi og ágætis sátt virðist ríkja um það.
Þó er grunnkrafa að þessir styrkir séu nýttir skynsamlega og að þeir nái takmarki sínu, þ.e. að Íslendingar haldi úti sjálfbærri framleiðslu á matvælum.
Í því ljósi kemur áhersla á útflutning á íslenskum landbúnaðarvörum nokkuð á óvart. Ekki nóg með að við greiðum mjög mikið með vörum sem eru seldar á íslenskum stórmörkuðum heldur greiðum við einnig niður lambasteikina fyrir ríkustu þjóðir heims. Slíkt væri kannski í lagi ef að um umframkjöt væri að ræða og það kæmi betur út að selja það á þessum mörkuðum heldur en að henda því. En það virðist ekki vera raunin.
Vissulega má segja á móti að ekki náist sú stærðarhagkvæmni sem er nauðsynleg ef einungis er selt inn á íslenska markaðinn, en það hlýtur að vera eðlileg krafa að annaðhvort skattgreiðendur greiði ekki með slíkum útflutningi eða að raunhæfar áætlanir séu til um það hvernig útflutningurinn komi þeim til góða í framtíðinni. Því miður hefur mjög lítið farið fyrir umræðu um það.
Ég átta mig á því að engin ný sannindi eru í boðskap pistilsins hingað til. Deiglupennar og aðrir hægrimenn hafa verið duglegir við að benda á þessar staðreyndir og þrátt fyrir langan tíma Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn virðist lítið þokast í rétta átt. Gott og vel, menn bera miklar taugar til sveita landsins og Róm verður ekki byggð á einum degi, ekki síst ef finna á góða lausn sem flestir sætta sig við.
En það er hins vegar ólíðandi er hvernig sóun á almannafé í þennan málaflokk kemur í veg fyrir framgang einkaframtaksins.
Tvö nýleg dæmi eru um það. Um annað þeirra var skrifað á Deiglunni fyrir nokkru og fjallaði sá pistill um framleiðslu Mjólku á mjólkurafurðum utan kvóta og ríkisstyrkja
Hitt dæmið er af ungum hagfræðingi búsettum í New York, sem fékk þá frábæru hugmynd fyrir rétt um ári að breyta áhugamáli sínu um skyrgerð í skyrframleiðslu. Hann heitir Sigurður Hilmarsson og hefur í samstarfi við mjólkurbændur í New York fylki hafið framleiðslu á skyri undir nafninu Siggi´s Skyr.
Þótt ótrúlegt megi virðast er skyrið hans Sigga alls ekki síðra en tegundirnar sem fást á Íslandi og vil ég sjálfur meina að það sé hreinlega betra, ekki síst þar sem Siggi vandar sig mjög við hráefnisvalið.
Frábær hugmynd, hugsar maður og vonar að honum gangi allt í haginn og selji sem mest af skyri í Bandaríkjunum. Siggi áttar sig á því að þessi rekstur er ekki þrautalaus og hefur nýtt nótt sem nýtan dag til að heimsækja bændur í nágrenninu, tryggja fjármagn og markaðssetningu. Auk þess sem hann hættir sjálfur miklum tíma og fjármunum í verkefnið.
Siggi vonar meðal annars að skyrið hans verði lúxusvara sem á eftir að geta keppt við grísku jógúrtina, sem er orðin mjög vinsæl í Bandaríkjunum og er að mestu leyti framleidd þar.
Hans helsti Þrándur í götu er þó ekki gríska afurðin eða dugnaðurinn sem þarf til að koma upp slíku fyrirtæki heldur íslenska mjólkursamsalan, MS, sem hyggst kæra hann fyrir að nota heitið skyr fyrir afurð sína! Í krafti ríkisstyrkja hótar fyrirtækið honum málarekstri sem íslenskir skattgreiðendur greiða fyrir. Þrátt fyrir að skyr sé rækilega skilgreint í íslenskri orðabók og ætti því að vera heiti á ákveðinni tegund mjólkurvöru.
Einn af framkvæmdastjórum MS lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að ástæðan fyrir málarekstrinum sé sú að Siggi‘s Skyr grafi undan markaðsstarfi íslensku framleiðslunnar í Bandaríkjunum. Þau rök standast þó ekki nánari skoðun því að öllum má vera ljóst að þessi framleiðsla sem Íslendingar senda og markaðssetja í Bandaríkjunum gerir ósköp lítið til að seðja stærsta markað heims. Auðvitað ætti Mjólkursamsalan að taka því fegins hendi að íslenskir athafnamenn leggi ómældan tíma og fyrirhöfn í að selja skyr – og það án ríkisstyrkja!
Ef Bandaríkjamenn komast upp á bragðið gefst nýtt sóknarfæri fyrir íslenska framleiðslu, sem ætti auðvitað að vera sú allra besta og flottasta.
Því miður virðist sem með ómældum styrkjum hafi íslenskir skattgreiðendur búið til skrímsli. Stofnun og starfsmenn sem vinna að því, og eiga lifibrauð sitt undir því komið, að flytja niðurgreiddar íslenskar afurðir út fyrir landsteinana og vinna þannig gegn hagsmunum umbjóðenda sinna, hvort sem það eru almennir skattgreiðendur eða bændur.
Skynsemi og skýr markmið útflutningsins virðast hafa týnst á leiðinni yfir hafið.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021