Niðurstöður PISA könnunarinnar voru kynntar á dögunum og leiddu í ljós slakan árangur íslenskra nemenda.Staða Íslands hefur versnað frá árinu 2000 og eru íslenskir nemendur í næst neðsta sæti af Norðurlöndunum.
PISA könnunin hefur leitt athygli okkar að Finnum, en finnsk börn hafa þar náð hvað bestum árangri. Árangur Finna hefur ekki alltaf verið góður en finnska menntakerfið var í mikilli lægð upp úr 1990. Í kjölfarið fór fram mikil uppstokkun á finnsku menntakerfi sem m.a fólst í því að lengja kennaranámið til fimm ára auk þess sem laun kennara voru hækkuð. Þessar breytingar hafa haft mikil áhrif. Finnskir nemendur koma nú best út af öllum Norðurlandaþjóðunum og eru Finnar eru nú taldir mennta kennaraefni sín best allra Norðurlandaþjóða. Þar er gerð krafa um meistaragráðu, fimm ára háskólanám, fyrir grunnskólakennara. Lakari kröfur eru hins vegar gerðar til kennaramenntunar á Íslandi.
Kennaramenntun á Íslandi tekur nú þrjú til fjögur ár. Það er með því stysta sem þekkist í löndum á evrópska efnahagssvæðinu og í OECD-ríkjunum. Nú stendur til að færa kröfur til kennaramenntunar nær því sem gerist í löndunum í kringum okkur og liggja nú fyrir á Alþingi frumvörp til laga fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, ásamt frumvarpi um kennaramenntun. Samkvæmt nýjum kröfum sem fram koma í frumvarpinu verður sá sem óskar eftir leyfisbréfi sem leikskólakennari, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari að hafa lokið meistaraprófi frá háskóla. Hefur menntamálaráðuneytið gefið út að vonast sé til þess að þessi frumvörp muni skapa forsendur fyrir bættum árangri nemenda.
Lenging kennaranáms ein og sér mun ekki hafa í för með sér umbyltingu á námsárangri íslenskra nemenda. Þó er um jákvæð skref að ræða og stefnan er tekin í rétta átt. Lenging kennaranáms felur í sér að kennarar verða betur í stakk búnir til að uppfræða nemendur og takast á við auknar kröfur sem fylgja starfinu. Einnig mun krafa um meistaragráðu líklega leiða til launahækkunar þessa starfshóps og laða að hæft fólk. Góður árangur í alþjóðlegri könnun sem PISA könnuninni er ekki markmið eitt og sér. Íslenskir nemendur geta búið yfir kostum sem ekki eru mælanlegri í slíkri könnun. Þó má aldrei vanmeta kosti alþjóðlegra viðmiða. Af PISA könnuninni má ráða að árangur landa virðist ekki fylgja því fjármagni sem lagt er til menntamála í hverju landi. Íslendingar leggja hvað mesta fjármuni til menntamála á meðan Finnar eru rétt við meðaltal. Aukið fjármagn er því ekki eitt og sér lykill að árangri. Lenging kennaranáms virðist þar lykilþáttur en sú aðferð skilaði góðum árangri í Finnlandi og því er spennandi að sjá hvaða áhrif slík breyting mun hafa til lengri tíma litið.
- Galdrakonan og spilin - 5. mars 2021
- Bless (í bili?) - 20. janúar 2021
- Skötuboðið - 22. desember 2020