Það virðist vera einhvers konar hlutleysis- og meðalmennskufaraldur að ríða yfir íslenskt þjóðfélag um þessar mundir. Helstu forkólfar stjórnarflokkanna þora ekki að segja skoðanir sínar (sbr. t.d. frumvarp um afnám einkarétt ríkisins á áfengissölu), þingmenn eyða tíma sínum í að ræða ungbarnatísku (sbr. bleikir eða bláir barnasamfestingar), fjölmiðlar fara mikinn í umræðu um miðbæjarvandamál (sem hefur að mati undirritaðs lítið breyst síðastliðinn áratug), íslenska skólakerfið er í bullandi meðalmennsku (sbr. nýlegri PISA könnun), raddir um kynjakvóta og aðrar slíkar mismununaraðferðir verða sífellt háværari. Fáir þora að taka ákvarðanir, vera með öðruvísi skoðanir, enginn má vera minni máttar, enginn öðruvísi, allir jafnir og helst hlutlausir, jafnvel kynhlutlausir. Þið sjáið hvert ég er að fara.
En ef allir eru svona jafnir þá leiðir það jú af sjálfu sér að enginn er fyrir ofan meðaltal. Enginn er framúrskarandi.
Það má ekki misskilja það sem svo að það eigi að kynda undir mismunun í þjóðfélaginu, þvert á móti, og vissulega er mjög mikilvægt að ná fram jafnrétti, í skilningnum jöfn tækifæri. Þetta má samt ekki leiða til þess að við þorum ekki að hygla þeim sem ná árangri, skara fram úr og eru öðruvísi.
En af hverju stafar þessi hlutleysis-, jöfnunar- og meðalmennskustefna? Víkjum nú aftur að skólakerfinu, sem eins og alþjóð veit fékk á sig meðalmennskustimpilinn í vikunni þrátt fyrir að mjög gott starf hafi verið unnið undanfarin ár í að skapa skólakerfinu ágætis umgjörð sem nýlegt frumvarp menntamálaráðherra ber með sér.
Ætlar pistlahöfundur hér að varpa fram kenningu um rót vandans að bæði lélegri útkomu íslands í PISA könnuninni og þessu hlutleysis- og meðalmennskuhugarfari. Kenningin er einfaldlega sú að meðvitað eða ómeðvitað hafi þetta hugarfar verið stimplað inn í stóran hluta þjóðarinnar í skólakerfinu síðustu áratugi.
Í íslenska grunnskólakerfinu er mikil meðalmennska ríkjandi. “Öðruvísi hegðun” og árangur er oft dempaður niður og börnum er hreinlega bannað að skara fram úr! Já, og þetta er sagt í fullri alvöru. Það er kannski ekki skrítið að sömu börn verði pínulítið hlutlaus og þyki meðalmennskan bara eðlileg. Þeim var jú kennt þetta í skóla!
Þessi kenning verður hér studd með sannri sögu:
Pistlahöfundur átti þeirri lukku að fagna að deila grunnskólagöngunni niður á fjóra skóla. Pistlahöfundur hefur einnig allt frá fyrsta ári í skóla tilheyrt hópi eðal stærðfræðinörda og þótti fátt skemmtilegra á sínum grunnskólaárum en að glíma við erfið stærðfræðidæmi og þrautir, belive it or not! Hann átti það því til að spæna upp stærðfræðibækurnar og vilja fara mun lengra en “ráðlagður vikuskammtur” kennaranna sagði til um. Í tveimur af þessum fjórum skólum var þetta einfaldlega bannað – það mátti hreinlega ekki reikna meira! Í öðrum skólanum var meira að segja notaður svokallaður STOPP-stimpill, rauður stimpill með mynd af stöðvunarskyldu, til að gefa til kynna hvar ætti að hætta að reikna. Þetta var gert til að tryggja að örugglega væru allir nemendurnir á sama stað þegar kennarinn væri að kenna efnið. Það vantaði ekki bara hvatninguna til að gera betur og ná lengra, það var einfaldlega bannað að skara fram úr.
Þessi stopp-aðferðarfræði hefur alltaf verið minnisstæð en svona á síðustu árum hefur pistlahöfundur talið sér trú um að slík aðferðarfræði væri úrelt og ekki lengur til staðar í skólakerfinu – enda um hálfur annar áratugur síðan höfundi var síðast bannað að reikna meira.
Því miður virðist vera að þetta sé hins vegar ekki einungis gömul og bitur saga pistlahöfundar. Fyrir einungis um ári síðan heyrði pistlahöfundur sögu af stúlku í ónefndum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu sem átti við nákvæmlega sama vandamál að stríða, STOPP-stimpilinn ógurlega. Hún mátti ekki læra meira en meðaltals-Jóninn í bekknum. Það vildi þessari stelpu reyndar til mikils happs að eiga sér eldri systir sem reddaði málunum. Sú eldri gerði sér lítið fyrir og skundaði upp í Námsgagnastofnun, keypti aukaeintak af skólabókum systur sinnar og sú yngri hafði því eitt eintak sem hún notaði í skólanum – og stoppaði á réttum stað – en annað eintak heima sem hún kláraði langt á undan jafnöldrunum. Án nokkurrar vitundar skólans.
Það eru ekki allir jafn heppnir að eiga eldri systur sem bjargar málunum (þótt augljóslega megi færa rök fyrir því að það sé hlutverk foreldranna, sem er aftur á móti efni í annan pistil) og ljóst að með þessháttar vinnubrögðum í grunnskóla er verið að ala á því að allir eigi að vera jafnir og enginn megi skara fram úr. Það er alið á meðaltals- og hlutleysishugsjón. Gallinn er bara sá að þá verður enginn eftir til að draga upp PISA meðaltalið í næstu könnun.
Pant ekki búa í bragðdaufa, hluthlausa meðalmennskulandinu.
Pant búa í litríka, ögrandi og framúrskarandi landinu!
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010