Það kom ekki mörgum á óvart að Sameinað Rússland, flokkur Vladímírs Pútíns, forseta landsins, fékk meirihluta atkvæða í þingkosningum sem haldnar voru nú í byrjun desember. Kosningarnar sýna okkur hins vegar hversu nauðsynlegt það er fyrir Rússland að stuðla að auknu lýðræði og breyttu hugarfari almennings gagnvart lýðræðishugmyndinni og valdadreifingu.
Eins og Spaugsstofan orðaði það í einum þætti sínum í haust þegar þeir léku Íslendinga sem kröfðust breytinga en enduðu alltaf á eftirfarandi niðurstöðu; “æji.. er það ekki bara svo mikið vesen?”.
Fyrir Rússa er lýðræðið einmitt bara eitt stórt vesen. Rússneska þjóðin situr valdalaus heima í sófanum sem áhorfandi á meðan að Vladímír Pútin leikstjóri stýrir sýningunni. Almenningi er hótað og mútað og stjórnmálakerfinu er gefið leyfi til að brjóta settar reglur um lýðræði, valdadreifingu og aðhald valdsins. Í nýlegri könnun segir meirihluti Rússa að þeim sé alveg sama hvort Pútin brjóti ákvæði stjórnarskrár og bjóði sig fram sem forseti vorið 2008.
Að mínu mati ættu Rússar að horfa aftur í söguna, um það bil 200 ár. Bandaríkjamenn afgreiddu umræðuna um valdadreifingu og aðhald valdsins fyrir löngu, meðal annars með stjórnarskrá sinni. Með því að skoða sögu Bandaríkjanna sjást dæmi þar sem uppbygging þess ríkis hefur sannað sig og komið í veg fyrir misnotkun á valdi og spillingu. Það er til nægileg reynsla á mismunandi tegundir lýðræðis og valdadreifingu og ættu Rússar ekki að eiga erfitt með að finna leið sem hentar þeim.
Það er nauðsynlegt að dreifa valdinu á fleiri stofnanir eins og til dæmis löggjafa-, dómstóla- og framkvæmdavald. Ásamt því að stuðla að umhverfi frjálsra fjölmiðla sem geta veitt stjórnkerfinu aðhald. Frjálsir fjölmiðlar gera einstaklingum og minnihlutahópum fært að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Rússnesk yfirvöld hafa augljóslega misnotað aðstöðu sína með öflugum ríkisfjölmiðlum til að hygla núverandi forseta og flokki hans. Ritstjórnir fengu afhentan lista yfir nöfn sem fengu ekki aðgang að fjölmiðlum og kom ekki á óvart að á þeim lista voru meðal annars formenn stjórnarandstöðuflokkana. Ýmsar óhaðar eftirlitsstofnanir, Evrópusambandið og Bandaríkin hafa gagnrýnt Rússa fyrir framkvæmd kosninga og að ekki hafi allt farið fram á eðlilegan hátt. Sarkozy Frakklandsforseti kom hins vegar öllum á óvart þegar hann óskaði Pútin til hamingju með sigurinn.
Það er mjög miður að lesa að rússneskum almenningi sé sama um hvort Pútin brýtur stjórnarskrá með því að sækjast eftir áframhaldandi forsetasetu. Pistlahöfundur mun senda Vladímír Pútin jólagjöf á næstu vikum og er sú gjöf bókin “Democracy for dummies”. Óþolandi að fylgjast með þessari þróun í fjarlægð og horfa á Rússnesku þjóðina skjóta sig í fótinn aftur og aftur og aftur…
- Nafnlausi kröfuhafinn - 26. júní 2009
- Hello Europe! - 16. maí 2009
- Fjárframlög til stjórnmálaflokka - 11. apríl 2009