Þrátt fyrir að eyða öðrum meira í menntamál þá færist Ísland hratt og örugglega niður í PISA könnunum. Hvar liggur vandamálið og er það tilviljun að hér eru sömu sjúkleikamerki og í heilbrigðiskerfinu: Íslendingar eyða meira en fá minna?
Íslenska menntakerfið hefur um ómunatíð verið vettvangur gríðarlega mikilla deilna. Nú standa deilurnar um það af hverju íslensk börn ná ekki jafn góðum einkunnum og önnur börn í alþjóðlegum könnunum.
Umræðan um Pisa prófið ætti að byrja frekar framarlega með spurningunni: Eigum við nokkuð að bera saman íslensk börn við önnur? Græðum við nokkuð á því að íslensk börn skori hátt í þessum könnunum? Hvert er markmiðið með menntun? Há einkunn á Pisa prófi eða gáfað sjálfsöruggt fólk sem fer út í lífið?
Önnur spurning er: Af hverju er alltaf bent á skóla eftir svona slæmar einkunnir? gæti ekki verið að vinnusjúkir íslendingar séu bara slakir foreldrar sem eyða litlum tíma með börnunum sínum og kunna ekki að hvetja þau til árangurs?
Ef menn horfa framhjá slíkum grundvallarspurningum og kjósa að horfa á menntakerfið sem „kerfi“ með tilheyrandi stjórntækjum og eftirlitsþáttum sem hefur það markmið að láta ungt fólk skora hátt á Pisa prófum, þá liggja flest vandamál kerfisins í því hversu miðstýrt það er.
Laun kennara eru ákveðin í samningaviðræðum miðlægrar nefndar kennara og miðstýrðrar nefndar sambands sveitafélaga. Afraksturinn (eins og Milton Friedman útskýrir í bók sinni Frelsi og Framtak) er að slakari kennarar sem hafa lengri starfsreynslu fá hlutfallslegra hærri laun en betri kennarar með minni starfsreynslu. Þetta er alveg óháð því hvort kennarar fái sanngjörn laun. Dreifingin við svona fyrirkomulag verður alltaf þeim klárari í óhag.
Gríðarleg vinna hefur farið í að útbúa miðlæga námsskrá grunnskóla þar sem útskýrt er í miklum smáatriðum nákvæmlega hvað börnin eiga að læra.
Miðstýringaráráttan í barðist á dögunum eins og tröllskessa fyrir því að allt nám til stúdentsprófs yrði (miðlægt) stýrt í að vera þrjú ár. Þetta átti að tryggja að íslenskir nemendur yrðu stúdentar 19 ára og svo búnir með 1sta háskólapróf 22 ára í stað 23 ára. Það truflaði fólk ekkert að meðalnámstími til að klára stúdentspróf í einingakerfi var fjögur og hálft ár.
Miðstýringin hefur farið upp í þann skala að þegar stjórnandi í framhaldsskóla á Íslandi lenti í því að starfsmenn hans virtu ekki vald hans, þá gat hann ekki rekið viðkomandi starfsmenn heldur endaði málið (farsinn reyndar) á því að skólastjórinn var látinn segja af sér!
Aukin fjölbreytni og auknir valmöguleikar eiga besta möguleika á því að bæta menntun íslenskra barna. Leyfum síðan skólunum sjálfum að ákveða hvort þeir vilji nota Finnska módelið, Írska módelið eða Legó módelið til þess að ná markmiðum sínum.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021