Allir þingflokkar utan eins standa að breytingum á þingsköpum Alþingis, sem miða að því að stytta ræðutíma á þingi. Hver af öllum mönnum skyldi líta á þetta sem aðför að málfrelsinu?
Orðið málfrelsi virðist þýða ótalmargt nú til dags. Sjaldan þó tengist það því þeim upprunalegu hugmyndum að ríkisvaldið skuli ekki starfrækja opinbera ritskoðunarstofnun eða fangelsa menn fyrir skoðanir þeirra. Það þykir sérstakt dæmi um aðför að málfrelsinu þegar svart fólk (og annað) móðgast þegar einhver gefur út bók sem móðgar svart fólk. Hvar er málfrelsið þegar maður getur ekki móðgað einhvern án þess að hann móðgist? Tekur stjórnarskráin ekki á slíku?
Nei, reyndar ekki, en gömul Cheerios auglýsing gerir það. “Maður á alltaf að segja það sem manni finnst,” segir þar víst.
En Cheerios auglýsingin er ekki sú eina sem grípur ranga staðalmynd málfrelsishugtaksins. Nú mun Ögmundur Jónason, yfirmasari, berjast gegn takmörkunum á ræðutíma í annarri umræðu þingmála, með þeim rökum að verið sé að ráðast að málfrelsi þingmanna. Hljómar dramatískt þangað til við gerum okkur grein fyrir því að málfrelsi í skilningi Ögmundar er “rétturinn að tala eins mikið og honum sýnist, hvenær sem er, sama hvað öðrum finnst um það“. Það er ekki málfrelsi! Þetta var kallað Talfrelsi í flippuðum auglýsingum enn flippaðra farsímafélags fyrir um áratug.
Reyndir stjórnmálamenn eiga auðvitað að ekki að þurfa sjö klukkustunda ræður til að gera grein fyrir afstöðu sinni eða færa rök fyrir máli sínu. Það er ekki aðför að málfrelsi þingmanna að setja reglur um það hve lengi og í hvaða röð þeir megi tala. Auðvitað vita allir, að þegar stjórnarandstaða talar um að ræða þurfi eitthvað mál vel, þýðir það aldrei neitt annað en málþóf, sem mundi sjaldnast kallast “góð umræða” á öðrum vettvangi. Umræður á Alþingi eiga að vera vandaðar, málefnalegar og skemmtilegar. Mas fram á miðja nótt er sjaldnast nokkuð af þessu.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021