Það er erfitt að meta kvenréttindaumræðu öðruvísi en að fámennum hópi feminista hafi tekist að telja bæði sjálfum sér og drjúgum hluta þjóðarinnar trú um að enn sé verið að berjast fyrir jafnrétti kynjanna þegar barátturmálin lúta í raun að tölfræðilegu jafnræði milli þeirra og að þeim sjálfsögðu mannréttindum sem felast í vörn gegn ofbeldi. Feministum er fullkomnlega frjálst að berjast fyrir slíkum málefnum kjósi þeir svo, en það verður að vera undir réttum formerkjum og þannig að ljóst sé um hvað í raun er verið að berjast fyrir.
Barátta feminista fyrir jafnrétti snýst ekki að neinu leyti um lagalegt jafnrétti. Hún snýst að öllu leyti um tölfræðilegt jafnræði. Það sést berlega þegar skoðuð eru baráttumál Feministafélag Íslands fyrir launalegu jafnræði kynjanna og jöfnum hlutföllum þeirra í öllum helstu þáttum þjóðlífsins. Enda er hvergi að finna umfjöllun um lagaklausur sem skerða rétt kvenna að neinu leyti. Það er ekki skrítið. Fullt lagalegt jafnrétti kynjanna komst á þegar samþykkt voru lög um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið er á um jafnan rétt kynjanna til að verja sambærilegum tíma í fæðingarorlof.
Það er afskaplega bagalegt fyrir umræðuna að ekki sé gerður skýr greinarmunur á annars vegar jafnrétti og hins vegar jafnræði. Þessi tvö hugtök hafa af einhverjum ástæðum verið brædd saman eins og ekkert sé eðlilegra. Á sambærilegan hátt er talað um misrétti þegar í raun er verið að tala um misræmi og þessum tveimur hugtökum þvælt saman. Það er t.d. vel hægt að fallast á notkun hugtaksins misræmi þegar talið berst að launamun kynjanna. En með því að kalla það misrétti er sjálfkrafa verið að prenta inn í fólk að eina mögulega ástæðan fyrir launamun kynjanna sé sú að einhver sé að brjóta á einhverjum á meðan ástæðurnar geta verið aðrar.
Og flest bendir reynast til að ástæðurnar séu einmitt aðrar en að einhver sé að beita einhverjum misrétti eða ofbeldi. Tölfræðilegt misræmi í launum kynja og karla er t.a.m. staðreynd. En að það stafi af einhvers konar ofbeldi karla gegn konum er eitthvað sem engar rannsóknir styðja. Í mjög góðri og allt of lítt notaðri skýrslu Helga Tómassonar prófessors í tölfræði við Háskóla Íslands sem nefnist Tölfræðigildrur og launamunur kynjanna kemur m.a. fram að almennt efist tölfræðingar um að skýringa á launamun kynjanna megi rekja misréttis eða ofbeldis gagnvart konum. Það er þvert á móti almennt talið vera ein útbreiddasta tölfræðiblekking 20. aldarinnar (og kannski 21. aldarinnar líka). Hér má einnig finna mjög góða grein sem Snæbjörn Gunnsteinsson, Deiglupenni og doktorsnemi í hagfræði við Yale-háskóla skrifaði á Deigluna á sínum tíma um tölfræðilega túlkun á launamun kynjanna og hætturnar sem felast í því að stökkva of hratt að ályktunum í því samhengi.
Á sama hátt er óneitanlega verið að beita blekkingum – meðvitað eða ómeðvitað – þegar kemur að valdahlutföllum kynjanna í stjórnmálum eða þátttöku í stjórnum fyrirtækja. Það geta allir verið sammála um að þar sé um að ræða tölfræðilegt misræmi. En með því að kalla það ójafnrétti og leggja þetta tvennt að jöfnu er sjálfkrafa verið að ýja að því að ástæðuna sé að rekja til ofbeldis og kúgunar á meðan mun líklegra sé að orsakanna sé að leita annars staðar, rétt eins og í tilfelli launamisræmisins.
Barátta feminista fyrir réttindum kvenna í nauðgunarmálum og öðrum ofbeldismálum er mjög þarfur og virðingarverður. Dómar í nauðgunarmálum eru oft ótrúlega vægir og í engu samræmi við þann líkamlega og andlega skaða sem fórnarlambið verður fyrir. Og það er rétt að ekkert í klæðnaði kvenna eða framkomu afsakar nauðgun, eins og feministar komast réttilega að niðurstöðu um.
Það má síðan vel vera að hluti af því tölfræðilega misræmi eða ójafnræði sem birtist í hlutföllum kynjanna í valda- og leiðtogastöðum megi rekja til þess að annað hvort nærumhverfi (samstarfsmenn og glerþakið illræmda) eða ytra umhverfið (staðalmyndir) letji konur til að velja starfsferil sem gangi gegn hefðbundnu atvinnuvali kvenna. En feministar mega heldur ekki útiloka þann möguleika að það sé einfaldlega munur á konum og körlum. Að þessi munur valdi því að konur velji frekar önnur störf en karlar. Störf sem í eðli sínu er misverðmæt og gefa ólíkar tekjur. Að konur kjósi einfaldlega frekar störf sem krefjast nálægðar við fólk en karlar velji störf sem krefjast nálægðar við hluti. Og að karlar þrái völd og leiðtogahlutverk í auknu magni borið saman við konur, alveg óháð skilaboðum umhverfisins og samfélagsins.
Og feministar eru komnar á mjög hálan ís þegar þeir (feministar eru karlkyns orð er það ekki?) leggja til úrræði sem fela í sér skerðingu á mannréttindum og frelsi einstaklingsins til athafna og ráðstöfunar á lífi sínu án þess að það verði öðrum til skaða. Kynjakvótar og bann við nektardansi eru góð dæmi um slíkt og enginn vafi að í því felst ofbeldi gegn einstaklingnum og almennum mannréttindum. Er réttlætanlegt að beita einhverju sem augljóslega er ofbeldi gegn einhverju sem mikill vafi leikur á um að sé í raun ofbeldi?
Það var eitt sinn hópur sem var einmitt þeirrar skoðunar. Hann barðist fyrir útrýmingu á launalegu ójafnræði og notaði til þess skerðingu á mannréttindum, einstaklingsfrelsi, athafnafrelsi og afnámi eignaréttarins. Sá hópur hét kommúnistar. Vilja feministar í alvörunni halda inn á slíkar brautir með baráttumál sín?
- Hálendisfrumvarpið er dautt, lengi lifi hálendisfrumvarpið - 10. júní 2021
- Gamalt vín á nýjum belgjum - 7. apríl 2021
- Borgarlína á toppnum - 20. febrúar 2021