Nýlega var kynnt rannsókn þar sem könnuð var frammistaða kynjanna við húsverkin. Fjöldi para voru spurð hve miklum tíma þau eyddu á viku í ýmis heimilsstörf eins og matreiðslu, hreingerningar, tiltekir, samveru með börnum og innkaup.
Með tilliti til aukinnar umræðu um jafnrétti hefði ekki komið á óvart að húsverkin væru nokkuð jafnt skipt niður milli kynja. Það hefur jú náðst mikill árangur hvað varðar launamun kynjanna þó svo sú barátta sé alls ekki á enda. Þvert á móti sýndi rannsóknin fram á að konur sjá enn að mestu leyti um verkin á heimilinu.
Það er ekki að ástæðulausu að þessi rannsókn á verkaskiptingu kynjanna á heimilinu vakti athygli mína. Sjálf er ég tiltölulega ný farin að búa með kærasta mínum og hefur sambúðin gengið ágætlega. Áður en ákvörðunin var tekið að fljúga úr hreiðrinu hafði ég miklar áhyggjur af því að kærastinn myndi ekki standa sig þegar kæmi að húsverkum. Í langan tíma undirbjó ég hann og kom honum í skilning um að þegar við myndum flytja að heiman myndi hann heldur betur fá að taka til hendinni. Drengurinn hafði greinilega tekið mig á orðinu og fyrstu mánuðirnir voru mjög góðir, am.k. fyrir mig. Hann fínpússaði íbúðina nánast hverja helgi og eftir þó nokkra mánuði hafði ég nánast aldrei gert handtak til að halda íbúðinni fínni (fyrir utan smá jólaskraut sem ég hengdi upp í desember 2006). Ég gat alls ekki kvartað yfir ástandinu, þvílíkur draumaprins.
Það kom þó að því að drengurinn áttaði sig á því að þarna var alls ekki um neitt jafnrétti að ræða í nokkrum einasta skilningi. Hann hafði klárlega sannað sig hvað húsverkin varðar og nú var kominn tími á mig. Um nokkuð skeið var mikið rætt „sóðaskap” minn og hvenær ég ætlaði að læra að taka til en þar sem ég var mikið að vinna var auðvelt að skýla sér bakvið þá afsökun. Já, Þetta hljómar alveg eins og karlmaður eigi í hlut. Smátt og smátt fór ryk að myndast í ýmsum hornum, uppvaskið að hrannast upp í eldhúsvaskinum og öll vinnufötin í óhreinatauinu. Ég sá að þetta gengi ekki til lengdar og nú yrði ég að leggja mitt að mörkum.
Þó svo ég hrópi ekki beint húrra yfir nýju húsverkunum þá er það auðvitað hinn gullni meðalvegur sem gildir, að skipta verkunum jafnt. Draumurinn um húsverkalausa framtíð er þó ekki alveg á enda. Það vildi svo skemmtilega til að um miðjan nóvember birtist frétt á mbl.is um tengsl launa og húsverka. Þar kom fram að því hærri laun sem konur hafa því minni heimilsstörfum sinna þær, óháð því hvað makar þeirra hafa í laun. Þær nota þá eigin peninga til að létta sér húsverkin með því að kaupa tilbúinn mat og ráða fólk í þrif. Það er því ekki öll von úti enn. Nú er það bara að sanna sig í starfi og þá er aldrei að vita nema gömlu tímarnir án húsverka verði aftur að veruleika.
- Hvað varð um þjóðarstoltið? - 27. maí 2010
- Hugverk til aukinnar sjálfbærni - 26. apríl 2010
- Tækifæri í gæðamálum - 26. mars 2010