Full ástæða er til að gefa þeim sjónarmiðum gaum sem Samtök atvinnulífsins hafa sett fram um stöðu íslenskra efnahagsmál og komandi kjarasamninga. Í ályktun sem samþykkt var á fundi fulltrúaráðs SA í gærmorgun segir að brýnt sé að niðurstaða kjarasamninganna verði til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og að verðbólga komist fljótlega á svipað stig og í viðskiptalöndunum.
Í ályktuninni er réttilega bent á það að helsti vandi efnahagsstjórnar hér á landi liggur í mismunandi áherslum opinberra aðila sem meðal annars birtist í reiptogi Seðlabanka og Íbúðalánasjóðs þar sem annar aðilinn leggur áherslu á háa vexti en hinn á lága. Taka verður undir þá kröfu atvinnulífsins að allir opinberir aðilar sem áhrif hafa á efnahagsstjórn rói í sömu átt.
Peningastefna Seðlabanka Íslands fær ekki háa einkunn hjá Samtökum atvinnulífsins sem telur hana hafa rataði í miklar ógöngur. Ávinningurinn af miklum vaxtahækkunum í baráttu við verðbólgu hefur orðið minni enginn að mati samtakanna sem telja að meiri fórnir hafi verið færðar en réttlætanlegt sé. Hvatt er til þess í ályktuninni að horfið verði frá ósveigjanlegu verðbólgumarkmiði og tekið tillit til annarra aðstæðna í þjóðarbúskapnum en verðbólgu við ákvörðun stýrivaxta.
Það er ekki að ástæðulausu sem Samtök atvinnulífsins vekja athygli á þessum atriðum í aðdraganda kjarasamninga. Ljóst er að niðursveifla á fjármálamörkuðum heimsins mun hafa verulega áhrif hér á landi og þegar við bætist minnkandi sjávarafli og hátt olíverð er ljóst að hagvöxtur verður að öllum líkindum óverulegur á næsta ári, í það minnsta. Þess vegna verður skynsemin að ráða för í komandi kjarasamningum. Samstaða virðist sem betur fer að vera að skapast um að leggja áherslu hækkun lægstu launa og að bæta kjör þeirra hópa sem ekki hafa notið launaskriðs síðustu ára. Í ljósi framvindu efnagsmála er lítið sem ekkert svigrúm fyrir almennar launahækkanir og allar óraunhæfar kröfur um slíkt eru í raun aðför að kjörum launamanna.
Aðkoma ríkisvaldsins að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er umdeilanleg en kann þó að vera réttlætanleg í algjörum takmarkatilvikum. Grundvallarbreytingar á stefnu lýðræðislega kjörins þingmeirihluta ber ekki að gera að kröfu einstakra verklýðsfélaga. Ríkisstjórnin hefur á stefnuskrá sinni að hækka persónuafsláttinn sem er liður í því að bæta kjör láglaunafólks hlutfallslega miðað við aðra hópa.
Persónuafsláttur er jöfnunartæki sem innbyggt er í skattkerfið og bjagar það vissu leyti. Ekki má ganga lengra í þá átt en að hækka persónuafsláttar og allar hugmyndir um þrepaskipt skattkerfi eru mjög varasamar. Ekki má gleyma því að skattkerfið, sem samspil persónuafsláttar og skattprósentunnar, leggur hlutfallslega þyngri byrðar á herðar þeirra sem hærri tekjur hafa. Væri gengið lengra í þá átt, t.a.m. með þrepaskiptu skattkerfi, væri um mikla afturför að ræða. Slíkt kerfi yrði vinnuletjandi og drægi úr framleiðslu og þar með úr hagvexti. Minni hagvöxtur kæmi sér verst fyrir hinn almenna launamann. Ekki má gleyma því að hátt atvinnustig er ekki tilviljun.
Mikil ábyrgð liggur nú hjá forystumönnum atvinnurekanda og launafólks. Niðurstaða kjarasamninganna mun skipta miklu um þróun mála í íslensku efnahagslífi á komandi misserum. Allir verða að leggjast á eitt um að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og þar með hagfelld skilyrði fyrir íslenskt atvinnulíf til að halda áfram að blómstra og dafna.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021