Hvað sem segja má um stjórnmálaskoðanir einstakra manna þá eiga flestir stjórnmálamenn það sameiginlegt að þeir hafa helgað krafta sína því verkefni að bæta lífskjör almennings í landinu. Menn greinir svo auðvitað á um leiðir að því marki, um það snúast stjórnmálin.
Það vakti því nokkra undrun, er fregnir bárust frá Sameinuðu þjóðunum í gærmorgun um að hvergi í heiminum væru lífskjör betri en á Íslandi, að einstakir þingmenn sæju ástæðu til að bölsótast út í þá niðurstöðu. Víðast hvar annars staðar hefðu menn fagnað slíkum tíðindum og talið þau til marks um að vel hefði til tekist.
Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs brugðust til að mynda ókvæða við þessum tíðindum enda hafa þeir boðað heimsendi hér á landi með reglulegu millibili frá stofnun flokksins. Frjálslyndir voru á sömu nótum, vitnuðu i tollstjóra um ógjaldfær einkahlutafélög og var augljóslega nokkuð brugðið við þessar fregnir.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sá ástæðu til að þakka vinstrigrænum fyrir bölspárnar á síðustu árum og óskaði Samfylkingunni jafnframt til hamingju með að taka við svo góðu búi af Framsóknarflokknum. Þetta var nokkuð snaggaralega gert hjá Guðna enda fór Samfylkingin mikinn í síðustu kosningabaráttu um hversu illa væri komið fyrir bæði efnahagslífinu og velferðarkerfinu.
Guðni gekk hróðugur úr ræðustól eftir að hafa löðrungað bæði kommana og kratana svo að segja í sömu setningunni, auk þess að hafa komið því skýrt og skorinort á framfæri að Framsóknarflokkurinn hefði lagt grunninn að þessar góðu stöðu, þ.e. að Ísland væri nú í 1. sæti á lífskjaralistanum, með 12 ára ríkisstjórnarsamstarfi.
Þessi sami Guðni var hins vegar ekki svo upplitsdjarfur þegar nýtt þing var sett sl. vor að loknum alþingiskosningum og myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þá komst hann svona að orði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þann 31. maí sl.:
„Hins vegar virðist ríkisstjórnin ekki skynja að það er við vaxandi efnahagsvanda að etja vegna verðbólgu og viðskiptahalla. Það er vont að fljóta sofandi að feigðarósi.“ Þegar þessi ummæli féllu voru einungis nokkrir dagar liðnir frá því að Guðni og félagar í Framsóknarflokknum höfðu stigið úr ríkisstjórninni. Þá var uppi „vaxandi efnahagsvandi“ og feigðarósinn var nærri.
Og Guðni var ekki í hættur. „Hér er gríðarleg þensla sem getur sprungið,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið 1. september síðastliðinn. Og hver bar ábyrgð á þeirri þenslu? Samfylkingin, sem þá var nýsest í ríkisstjórn?
Enn bætti Guðni í þegar hann tók til máls 2. október sl. í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra: „Ógnir dagsins liggja í verðbólgu og þenslu í atvinnulífinu. Ógnir dagsins liggja í himinháum vöxtum sem reyna á skuldir unga fólksins og þanið atvinnulíf og hagkerfi,“ sagði Guðni þá, ábúðarfullur í ræðustól Alþingis.
Í þessum sama ræðustól stóð þessi sami maður í gær og taldi ástand mála hér á landi allt saman Framsóknarflokknum að þakka og óskaði Samfylkingunni til hamingju með að taka við góðu búi. Svona maður á auðvitað að gefa út ævisögu sína á fimm ára fresti að lágmarki, hann er frábær.
Auðvitað er það rétt hjá Guðna að gleðjast yfir hinni góðu stöðu Íslands, þótt forsendur hans fyrir gleðinni hafi kannski mátt vera vandaðari. Sú staðreynd að Ísland hefur á síðustu árum jafnt og þétt unnið sig upp í efsta sæti á lista yfir bestu lífskjör meðal þjóða er auðvitað mikið fagnaðarefni.
Þessi góða staða Íslands er ekki tilviljun og hún er ekki heppni. Þeir stjórnmálamenn sem þannig tala hafa ekki mikla trú á eigin hlutverki. Ef lífskjör þjóðarinnar eru grundvölluð á heppni og tilviljunum, af hverju í ósköpunum eru menn þá að standa í þessari pólitík? Af hverju fáum við þá ekki bara Veðurstofuna til að stjórna landinu, eins og ágætur maður sagði einu sinni.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021