Níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Nái tillagan fram að ganga mun Alþingi fela viðskiptaráðherra að gera athugun á því hvort og á hvaða sviðum fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum en einnig að kanna hvort þessi fyrirtæki hafi eflt samkeppnisstöðu sína gagnvart einkafyrirtækjum á undanförnum árum. Þar að auki yrð viðskiptaráðherra jafnframt falið að gera athugun á því í hversu miklum mæli stofnanir og fyrirtæki hins opinbera sinna verkefnum sem sérhæfðir aðilar í atvinnulífinu gætu leyst jafnvel eða betur fyrir minna fé.
Löggjafinn tekur sér ýmislegt fyrir hendur og margt af því er bæði óþarft og gagnlaust en sumt hreinlega skaðlegt. Þetta mál er aftur á móti í öðrum flokki. Mitt í allri frelsisvæðingu íslensks samfélags, þar sem ríkisfyrirtæki hafa verið seld einkaaðilum með góðum árangri, hefur margs konar samkeppnisrekstur á vegum hins opinbera stóreflst. Þess vegna er mjög mikilvægt að hin hljóðláta ríkisvæðing verði dregin fram í dagsljósið eins og lagt er til.
Nær engar atvinnugreinar hafa farið varhluta af þessari þróun. Það er ekki tilviljun að á árinu 2005 vörðuðu 25% allra ákvarðana Samkeppniseftirlitsins kærur einkaaðila gagnvart stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Ríkisvæðingin er bæði lævís og lúmsk. Ríkisstofnanir eru lagðar niður og í stað þeirra koma „stofur“ – enda hefur orðið stofa þá merkingu í hugum flestra að þar sé á ferðinni lítil og hugguleg eining, máluð í hlýlegum litum með glaðlegu og vinalegu fólki innandyra. Þessar nýju ríkis-stofur eru hins vegar engu betri en gömlu ríkisstofnanirnar. Þær eru sama báknið og með sama útþensluelementið innbyggt. Hvað halda lesendur til að mynda að margir ríkisstarfsmenn séu á launum hjá Umferðarstofu, þessari með sæta nafnið? Eða Fiskistofu? Nú, eða Neytendastofu?
Hægt er að taka mýmörg dæmi um óþarfa og jafnframt skaðlega aðkomu ríkis og sveitarfélaga að atvinnulífinu. Hvarvetna sem hið opinbera á hlut að máli bjagast þau lögmál sem gilda eiga og eru grundvöllur að allri verðmætasköpun. Vissulega má færa rök fyrir því að ríkisvaldið hafi einhverju hlutverki að gegna, einkum á sviðum þar sem opinberan atbeina þarf til eða einkaaðilar eru af einhverjum ástæðum ófærir um að sinna.
Dæmi um hið síðastnefnda er orkuöflun og -dreifing. Lengst af síðustu öld höfðu einkaaðilar ekki burði til að ráðast slíkt fyrirtæki sem það var að virkja orku landsins til hitunar og fyrir rafmagn. Almannaveitur voru stofnaðar til að tryggja fólkinu í landinu hita og rafmagn. Síðan þá er mikið vatn runnið til sjávar og mikið af því hefur haft viðkomu í túrbínum orkufyrirtækjanna. Tímabært er nú að skilja á milli í þessum rekstri og færa þann hluta orkugeirans sem telst til samkeppnisreksturs úr höndum opinberra aðila.
Að sama skapi er vonandi að athugun viðskiptaráðherra, að því gefnu að þingsályktunartillagan verði samþykkt, muni ná til reksturs Ríkisútvarpsins og stöðu þess á hinum harða samkeppnismarkaði íslenskra fjölmiðla. Af ýmsum fréttum að dæma virðast umsvif RÚV fara vaxandi en setja verður stórt spurningarmerki við samkeppnisrekstur slíkrar ríkisstofnunar sem landsmenn eru sérstaklega skattlagðir til að fjármagna. Telji menn að atbeini ríkisins sé nauðsynlegur til að vernda íslenska menningu á öldum ljósvakans, þá er samt sem áður engin ástæða til að reka sérstaka stofnun í þeim tilgangi. Ríkisútvarpið gæti orðið að stefnu sem einkaaðilum væri falið að framkvæma í stað þeirrar stofnunar sem það er nú (sjá Stefna í stað stofnunar).
Hvort sem alþingismenn eru hlynntir eða andvígir þeirri hljóðlátu ríkisvæðingu sem átt hefur sér stað á síðustu árum, þá hljóta þeir eftir sem áður að vilja hafa yfirsýn yfir þá starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga sem er í beinni samkeppni við einkaaðila. Þingheimur ætti því að geta stutt ofangreinda þingsályktunartillögu.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021