Fékkst þú leyfi frá karlmanni til þess að fara út í dag?

,,Þú varst hluti af grunsamlegu sambandi og fyrir það áttu skilið 200 svipuhögg” sagði dómari við dómsuppkvaðningu í Sádi-Arabíu við 19 ára stúlku sem var fórnarlamb hrottalegrar hópnauðgunar þar í landi. Stúlkan var dæmd vegna þess að hún átti að hafa verið út úr húsi án leyfi karlmanns. Stúlkan var jafnframt dæmd í 6 mánaða fangelsi.

Ungri stúlku í Sádi-Arabíu var rænt af 7 karlmönnum, henni var nauðgað af þeim öllum. Hún komst lifandi af en þetta varð að dómsmáli. Mennirnir hlutu fyrst dóma frá tíu mánuðum til fimm ára. Dómnum var áfrýjað til hærri réttar þar fengu mennirnir dóma frá tveim árum til níu. Þetta er eitthvað sem við á klakanum skiljum, gerendurnir eru sekir og þeir þurfa að sæta refsingu fyrir það en þetta er ekki allt.

Stúlkan sem var 18 ára þegar henni var rænt og henni nauðgað var jafnframt dæmd fyrir það að hafa fari út úr húsi án leyfis frá karlmanni. Þar að auki hafði hún verið á opinberum stað með óskyldum karlmanni, fyrir þetta fékk hún dóm sem hljóðaði upp á 90 svipuhögg.
Hún og lögfræðingur hennar voru ósátt við dóminn og áfrýjuðu því, þau töldu að þessum ósanngjarna dómi yrði hnekkt. Þeim var því heldur brugðið þegar stúlkan fékk enn harðari dóm, hún var dæmd í 6 mánaða fangelsi og var 110 svipuhöggum bætt ofan á hin 90. Dómurunum þótti hún og lögfræðingur hennar hafa ögrað dómskerfinu með því að fara í fjölmiðla. Vegna þess var lögfræðingurinn jafnframt sviptur lögmannsréttindum sínum.

Staðan í dag er sú að stúlkan er ekki með neinn lögfræðing og segir fyrrum lögfræðingur hennar að hann telji að það sé verið að þessu til þess að einangra hana og svipta hana hennar grunnréttindum. Hann segir samt í framhaldi af þessu að þau muni ekki samþykkja þennan úrskurð og hann muni gera allt sem í hans valdi er til þess að verja hana áfram því að réttlætið þurfi að sigra.

Talsmaður og stofnandi Samtaka um rétt kvenna í Sádi-Arabíu segir ,,þetta snýst ekki bara um þessa einu stúlku heldur líka um allar konur í Sádi-Arabíu. Við erum hræddar um líf okkar og líf systra okkar og dætra og allra Sádi-Arabíska kvenna. Við erum hræddar við að fara út á götu.” Hún talar líka um það að svipta lögfræðing hennar lögmannsréttindunum og svipta hann þar með réttinum til þess að verja hana í réttinum sé næstum því eins slæmt og nauðgunin sjálf.

Kallað hefur verið eftir afstöðu Bandaríkjastjórnar en hún hefur ekki viljað gefa neitt út. Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins lýsti í gær yfir furðu vegna dómsins, hann sagði ,,Ég verð að segja það að líti maður á glæpinn og þá refsingu sem fórnarlambið hefur verið dæmt til vekur það vissa furðu og undrun.” Fjölmiðlar hafa velt því upp hvort Bandaríkin vilji ekki gagnrýna dóminn vegna mikilvægi sambands þeirra við Sádi-Arabíu í baráttunni gegn hryðjuverkum, en talsmaður ráðuneytissins vildi ekki svara því.

Sádi-Arabía er þekkt fyrir mannréttindabrot sín og hafa stofnanir á borð við Human Right Watch, Amnesty International og Mannréttindanefnd sameinuðu þjóðanna gefið út skýrslur þar sem dómskerfi landsins er harðlega gagnrýnt og þá sérstaklega er lítill réttur kvenna gagnrýndur. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu vísa þessum skýrslum á bug.

Þegar ég heyri svona fréttir þá fyllist ég af reiði en svo veit maður ekki hvað maður á að gera. En nú veit ég hvað ég ætla að gera, ég ætla að halda áfram að tala um þetta og vekja athygli á stöðu kvenna og þeirra sem reyna að bæta samfélag sitt í þessum löndum. Jafnframt ætla ég að taka þátt í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem hefst þann 25. nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Ég hvet þig til þess að taka þátt í þessu líka.

Heimildir:
www.cnn.com
www.mbl.is
www.humanrights.is
www.wikipedia.org

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.