Hægrimenn unnu glæsilegan kosningasigur í dönsku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Bandalag hægriflokka fékk 90 þingsæti af 179 og þar með hreinan meirihluta. Stjórn Anders Fogh Rasmussen hélt því velli og þarf ekki að reiða sig á stuðning flokks innflytjenda, Nýja bandalagsins, eins og spáð hafði verið.
Í sögulegu ljósi hafa stjórnir hægrimanna ekki verið mjög langlífar í Danmörku og því er sú staðreynd að stjórn Anders Fogh haldi velli í þriðju kosningunum í röð söguleg. Að vísu tapar Venstre, flokkur forsætisráðherrans, dálitlu fylgi, fær 26,3% atkvæða og 46 þingmenn í kjörna en fékk í síðustu kosningum 29% atkvæða og 52 þingmenn kjörna.
Íhaldsflokkurinn bætir við sig örlitlu fylgi, fær 10,4% atkvæða, en það dugar þó ekki til að hann nái að bæta við sig manni og þingmenn flokksins verða því áfram 18. Þjóðarflokkurinn bætir hins vegar við sig manni og fær 13,8% atkvæða og 25 menn kjörna. Samtals hafa stjórnarflokkarnir þrír 89 menn á þingi og 90. þingmaðurinn stjórnarmeirihlutans kemur frá færeyska Sambandsflokknum sem fylgir Venstre að málum.
Úrslit kosninganna eru mikið áfall fyrir danska Jafnaðarmannaflokkinn. Sósíaldemókratar fengu 25,5% atkvæða og misstu tvo þingmenn. Þetta eru verstu úrslit jafnaðarmanna í rúmlega hundrað ár, eða frá árinu 1906. Þetta er persónulegur ósigur fyrir formann flokksins, Helle Thorning-Schmidt, sem gefið hafði fyrirheit um að velta Rassmussen úr stalli þegar hún var kjörin formaður jafnaðarmanna fyrir tveimur árum.
Róttæki vinstriflokkurinn, Socialistisk Folkeparti, eða Þjóðernissósíalistaflokkurinn, systurflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, vann hins vegar mikinn kosningasigur, tvöfaldaði fylgi sitt og fékk 13% atkvæða. Fjölgaði þingmönnum flokksins úr 12 í 23 við þennan mikla sigur. Athyglisvert er að útkoma vinstriflokkanna í Danmörku er keimlík gengi systurflokka þeirra í kosningunum á Íslandi sl. vor. Hlutskipti SF verður þó það sama og VG, að sitja áfram í stjórnarandstöðu þrátt fyrir góðan sigur.
Hafa verður í huga að stjórnamálahefðin í Danmörku er ólík þeirri íslensku. Hér á landi ganga flokkarnir óbundnir til kosninga, eins og gjarnan er sagt, og samsteypustjórnir eru myndaðar þvers og kruss. Línurnar eru skýrari í Danmmörku þar sem kosningabandalög eigast alla jafna við. Í kosningunum sem fram fóru í gær var þó einn óvissuþáttur, Nýja bandalagið, flokkur innflytjenda undir forystu Naser Khader. Í aðdraganda kosninganna leit út fyrir að Khader kæmist í oddaaðstöðu og að Rassmussen þyrfti jafnvel að reiða sig á stuðning Nýja bandalagsins til að tryggja ríkisstjórn sinni áfram þingmeirihluta. Við slíkar aðstæður hefðu hugsanlega skapast möguleikar fyrir vinstriflokkanna að komast til áhrifa.
Þingmeirihluti hægriflokkanna er vissulega mjög naumur. Stjórnin heldur velli með eins þingmanns meirihluta, sem er sami meirihluti og stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði að loknum kosningunum hér á landi sl. vor. Að því ber hins vegar að hyggja að mikill munur er á naumum meirihluta samsteypustjórnar annars vegar og kosningabandalags hins vegar. Þess vegna stendur stjórn hægrimanna styrkum fótum áfram, þrátt fyrir örlítið fylgistap.
Úrslitin í Danmörku eru mikill sigur fyrir hægriflokkana og um leið mikið áfall fyrir danska jafnaðarmenn. Þeim mistókst það ætlunarverk að fella stjórnina. Að sama skapi mistókst hinum nýja innflytjendaflokki Nýja bandalaginu að komast í oddaaðstöðu og hans bíður nú áhrifaleysi í stjórnarandstöðu.
Bandalag rótgrónu borgarflokkanna, Venstre og Konservative, og Þjóðarflokksins, Danske Folkeparti, heldur áfram velli undir forystu Anders Fogh Rasmussen. Ríkisstjórn hans hefur staðið fyrir ýmsum róttækum breytingum í dönsku samfélagi sem vinstrimenn hafa deilt hart á. Sigur hægriflokkanna undirstrikar stuðning Dana við þessar breytingar og færir Rasmussen umboð til að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021