Síðastliðinn sunnudag var Gabriele Sandri, plötusnúður og 26 ára stuðningsmaður ítalska knattspyrnuliðsins Lazio, skotinn til bana þegar lögregla reyndi að stía í sundur stuðningsmönnum Lazio og Juventus á bensínstöð við þjóðveg í Toskana-héraði. Stuðningsmennirnir voru á leiðinni á sitt hvorn leikinn þegar einhverjum þeirra lenti saman og Sandri lést af völdum skotsára, líklega eftir viðvörunarskot lögreglu.
Sandri sat í bíl á bílastæðinu við bensínstöðina þegar hann fékk skot í hnakkann frá lögreglumanni sem ætlaði að koma í veg fyrir að ástandið á staðnum versnaði. Það má segja að það hafi ekki gengið vel hjá þessum laganna verði, því fyrir utan hræðilegt andlát Sandri varð slysið til þess að ólæti brutust út um alla Ítalíu. Verst var ástandið í Róm þar sem kylfur og steinar voru munduð, kveikt í ýmsum ökutækjum og einni brúnni yfir Tíber var lokað af æstum múginum. Ofbeldi var vandamál á svo til öllum knattspyrnuleikjum í efri deildum á Ítalíu þann daginn og var mörgum leikjum frestað vegna ástandsins.
Viðbrögð knattspyrnuyfirvalda gerðu lítið til að hjálpa til því þrátt fyrir að einhverjum leikjum hafi verið frestað, var ákveðið að aðrir þyrftu að vera spilaðir, og kallaði það fram sterk viðbröð áhangenda þeirra liða. Þeim fannst sem um algjört virðingarleysi væri að ræða og öskruðu ókvæðisorð að gæslu- og lögreglumönnum, sem gerðu eins og þeir gátu að halda ofbeldinu í skefjum.
„Hörmuleg mistök“ kallaði lögreglustjóri svæðisins atburðinn á sunnudag, en í gær var komið annað hljóð í strokk ítalskra fjölmiðla, sem allir hafa fengið sig fullsadda af ofbeldi tengdu knattspyrnu í landinu. Eftir lát lögreglumanns í ólátum á knattspyrnuleik á Sikiley í febrúar voru sett lög sem áttu að þurrka út fótboltaofbeldi í landinu, en ljóst er að þær tilraunir hafa misheppnast algjörlega. Það er hætt við að nú sé óstöðvandi undiralda ofbeldis í ítalskri knattspyrnu komin af stað og að sú alda muni leggja allt í rúst sem hún lendi á.
Fótbolti er elskaður um allan heim og er vinsælasta íþróttin. Ítalska landsliðið eru heimsmeistarar og AC frá Mílanó er Evrópumeistari. Samt er litið að vissu leyti niður á ítölsku fyrstu deildina, Serie A, og þar á stærstan þátt það orðspor sem fer af deildinni fyrir spillingu og ofbeldi áhorfenda, þó ekki hjálpi til að ítölsk knattspyrnulið spila fæst mjög skemmtilegan fótbolta. Ímyndin er því neikvæð, og ekki að ástæðulausu.
Ítölsk knattspyrna er í tilvistarkreppu og fjölmörg verkefni sem þarf að vinna við að koma hlutunum í lag. Það er óskandi að það takist, því knattspyrnuheimurinn er óneitanlega stærri og skemmtilegri með Ítalíu innanborðs. Fyrsta verkefnið er að hætta að fækka stuðningsmönnum með manndrápum, og svo geta menn farið að útrýma spillingu og draga úr ofbeldi á leikjum.
- Svarta gullið - 26. maí 2010
- Frumvarpið sem mun breyta Bandaríkjunum - 6. apríl 2010
- Kafbátarnir á kaffistofunum - 29. janúar 2009