Kaupþing hefur tilkynnt að frá og með næstu mánaðarmótum muni bankinn ekki heimila yfirtöku íbúðalána á óbreyttum vöxtum. Með öðrum orðum að kaupendur fasteignar muni ekki geta yfirtekið lán sem eldri kaupandi hefur tekið. Hins vegar verði þeim sem óskar eftir yfirtöku heimilað að yfirtaka lán, séu vextir þess hækkaðir til samræmis við vaxtakjör á yfirtökudegi.
Viðskiptaráðherra og forstjóri Neytendastofu hafa í dag lýst yfir efasemdum um að þetta standist lög. Er haft eftir viðskiptaráðherra að hann muni athuga hvort þessi ákvörðun bankans standist ákvæði samningalaga. Haft hefur verið eftir forstjóra Neytendastofu að ákvörðun bankans verði að eiga sér stoð í ákvæðum þinglýsts samnings sem skuldarar hafa undirritað og ekkert slíkt ákvæði sé að finna í þeim samningum sem hann hefur séð.
Íbúðalán er grundvallað á skuldabréfi þar sem skuldari bréfsins lýsir því einhliða og óskilyrt yfir að hann skuldi kröfuhafa bréfsins tiltekna fjárhæð, sem bera skuli vexti samkvæmt ákvæðum bréfsins og höfuðstól ásamt vöxtum og verðbótum skuli greiða með nánar tilteknum afborgunum. Í slíku bréfi er að finna ýmis önnur ákvæði sem tengjast því verði skuld samkvæmt bréfinu vanefnd og greiðslur falli í vanskil.
Í samningarétti gildir almennt sú regla að menn hafa almennt þær heimildir sem samningur milli aðila kveður á um. Getur annar aðili samningsins því almennt ekki byggt á atriðum sem ekki er getið um í samningnum, nema lög heimili honum að gera slíka kröfu. Meginregla kröfuréttar er síðan sú að kröfuhafi þarf ekki að sæta því, með örfáum lögbundnum undantekningum, að nýr skuldari komi í stað eldri án samþykkis hans. Þannig er það á forræði kröfuhafa að samþykkja yfirtöku eða skuldaraskipti.
Hafi því ekki verið til staðar heimild í íbúðalánum um yfirtöku án samþykkis Kaupþings, verður Kaupþing ekki gert að heimila yfirtöku án samþykkis. Um þetta þarf ekki að vera ákvæði í skuldabréfinu sjálfu. Fjármálastofnun er því í sjálfsvald sett hvort hún samþykkir yfirtöku eður ei.
Í ljósi þessa eru ummæli forstjóra neytendastofu allrar athygli verð. Löggjöf um neytendur setur ýmsar skorður við samningsfrelsi. Ekki verður því séð að lagaákvæði setji fjármálastofnunum skorður við þeirri ákvörðun sem Kaupþing hefur nú tekið.
- Kveikt er ljós við ljós – burt er sortans svið - 24. desember 2020
- Hæstivirtur forseti,Royal Straight Flush! - 21. febrúar 2008
- Má Kaupþing þetta? - 7. nóvember 2007