Ólafur er mjög reyndur og sigursæll þjálfari. Hann er þekktastur fyrir að hafa stjórnað FH undanfarin fimm ár. Á þessum fimm árum vann liðið Íslandsmeistaratitilinn þrjú ár í röð frá árinu 2004 ásamt því að vinna bikarmeistaratitilinn í ár. Ólafur byrjaði þjálfaraferill sinn árið 1982 með því að taka við þjálfun Einherja í næst efstu deild. Frá því hefur hann þjálfað fimm mismunandi knattspyrnulið með góðum árangri.
Ráðning Ólafs tók mjög skamman tíma og svo virðist sem að það hafi verið einhugur hjá landsliðnefnd KSÍ um ráðningu hans. Hann er talinn hafa verið fyrsti kosturinn í stöðunni en þeir sem voru einnig taldir líklegir í fjölmiðlum voru þeir Willum Þór Þórsson þjálfari Vals og Guðjón Þórðarson þjálfari ÍA.
Ólafur er þjálfari sem kann að vinna og það er mikilvægt fyrir landsliðið. Undanfarin ár hafa verið hræðileg hjá landsliðinu en undir stjórn síðasta landsliðsþjálfara unnust aðeins 14,3% leikjanna sem er einn versti árangur landsliðsþjálfara íslenska landsliðsins. Sá árangur er ekki ásættanlegur og á íslenska þjóðin að gera mun meiri kröfur en það.
Framundan eru vonandi bjartir og góðir tímar í knattspyrnu á Íslandi. Kvennaknattspyrnan hefur verið að blómstra undanfarin ár og vonandi verður svipuð þróun í karlaknattspyrnunni á komandi árum. Það er líka ástæða fyrir bjartsýni. Við eigum mikið af ungum og efnilegum leikmönnum. Sem dæmi má nefna Eggert Gunnþór Jónsson hjá Hearts í Skotlandi en hann hefur leikið lykilhlutverk á miðjunni hjá liðinu þrátt fyrir ungan aldur. Einnig má nefna Theodór Elmar Bjarnason en hann vann sig inn í stórliðið Celtic á síðasta ári og stefnir á að komast í liðið á þessu tímabili líka.
Íslenskur fótbolti er að breytast mikið. Strákar eru að fara fyrr út í atvinnumennsku. Það þýðir að þeir fá þá bestu mögulegu þjálfun sem völ er á sem skilar sér vonandi í betri knattspyrnumönnum á komandi árum. Þróunin á Íslandi hefur líka verið jákvæð. Knattspyrnuhallir rísa nú út um allt land sem er bylting fyrir knattspyrnufélögin. Þetta er bæði gott fyrir meistaraflokkanna en ekki síst fyrir börn og unglinga. Þau fá nú að æfa sig við mjög góðar aðstæður allt árið. KSÍ á líka hrós skilið fyrir að byggja upphitaða sparkvelli um allt land. Það er ljóst að allir þessir þættir munu hafa áhrif á næstu kynslóðir knattspyrnumanna.
Það er mikilvægt að nýr landsliðsþjálfari hljóti mikinn stuðning Knattspyrnusambandsins og hafi frjálsar hendur við það sem hann vill gera. Þegar það hefur verið unnið svo vel að knattspyrnumálum í landinu þá þarf að fá landsliðsþjálfara sem hefur hæfni til þess að byggja upp nýtt og betra landslið. Mikilvægt er að Ólafur fái tíma til að móta landslið sitt því það þarf að gera miklar breytingar. Við höfum getuna til þess að gera betur en við höfum gert undanfarin ár. Við eigum að gera kröfur til landsliðsins okkar og eigum að krefjast árangurs. Við verðum þó að sýna þolinmæði því Ólafur á sannarlega ekki auðvelt verk fyrir höndum.
- Vanhugsuð friðun - 10. janúar 2012
- Obama náði Osama - 5. maí 2011
- Stjórnlagaþingsklúður - 29. nóvember 2010