Í gær rann út umsóknarfrestur fyrir seinni lóðaúthlutunina sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í októbermánuði. Úthlutanirnar voru af óskiljanlegum ástæðum ekki með sama fyrirkomulagi en niðurstöður úthlutunarinnar sem gerð var með uppboðsfyrirkomulagi sýna skýrt að það fyrirkomulag er eina vitræna aðferðin.
Þegar pistlahöfundur rak augun í reglur um úthlutun á lóðum við Sléttuveg í Fossvogi fyrr í mánuðinum léttist heldur betur á honum brúnin. Loksins skyldi bera tilhlýðilega virðingu fyrir almenningsverðmætum og selja þau á sem hæstu verði öllum Reykvíkingum til hagsbóta. Niðurstöðurnar létu heldur ekki á sér standa.
Alls voru boðnar upp lóðir fyrir 57 íbúðir. Skilgreint var lágmarksverð fyrir hverja lóð og ekkert refsigjald var sett fyrir áframsölu á lóðum með eða án íbúðar. Heildarlágmarksverð fyrir allar lóðirnar var 329,5 milljónir króna. Samtals námu hins vegar hæstu tilboð í hverja lóða 1.117,1 milljónum eða vel yfir þrefalt lágmarksverðið. Munurinn þarna á milli er tæpar 800 milljónir! Reyndar buðu einhverjir í fleiri en eina lóð en eru aðeins bundnir af einu af hæstu tilboðum sínum þannig að þessi tala mun væntanlega lækka eitthvað. Eftir standa samt sem áður mörg hundruð milljónir sem renna í borgarsjóð, og nýta má til að hækka til dæmis laun leikskólakennara eða lækka útsvar.
Í gær rann síðan út skilafrestur fyrir umsóknir vegna úthlutunar lóða í Reynisvatnsási. Þessi úthlutun er hins vegar gerð með happdrættisfyrirkomulagi. Ákveðið var söluverð fyrir hverja lóð og síðan verða einhverjir heppnir dregnir út og fá lóð á afslætti. Þó verður sett milljónarefsigjald á þá sem ekki eru tilbúnir að búa á lóðinni sinni í 6 ár til þess að þeir njóti happdrættisvinningsins nú ekki um of. Þessi aðferð hefur verið gagnrýnd áður hér á deiglunni enda fáránleg í alla staði. Reykvíkingar verða af fjármunum og lóðirnar nýtast nýjum eigendum verr vegna söluskorða. Jafnaðarrök virka ekki einu sinni þar sem það eru einstaklingar sem hafa efni á að byggja einbýlishús og raðhús sem vinna happdrættisvinningana.
Þótt það séu vissulega gleðitíðindi að sjá að farið er að nota uppboðsleiðina er óskiljanlegt hvers vegna þessar tvær lóðaúthlutanir sem framkvæmdar eru á sama tíma eru ekki með sama fyrirkomulagi. Einnig veldur það áhyggjum að happdrættisúthlutunin í Reynisvatnsási er samkvæmt “Almennum reglum um úthlutun íbúðarhúsalóða í Reykjavík” og happdrættin eru því væntanlega það sem koma skal verði ekki tekin ákvörðun um breytingu.
Þessar lóðaúthlutanir voru skipulagðar af nýföllnum borgarmeirihluta. Nú fær nýr meirihluti tækifæri til þess að taka þessi skýru skilaboð, sem niðurstöður útboðsins við Sléttuveg er, og hafa lóðaúthlutanir framtíðarinnar með hinu sanngjarna og hagkvæma fyrirkomulagi sem uppboðsaðferðin er. Í desember er áætlað að úthluta fleiri lóðum í suðurhlíðum Úlfarsfell. Vonandi fá hæstbjóðendur þær lóðir.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011