Fyrr í þessum mánuði tóku glöggir vegfarendur eflaust eftir stærðarinnar tjaldi fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands. Tjaldið skýrist af þúsundum sauðdrukkinna bretzelbryðjandi ungmenna að skemmta sér á Októberfest Stúdentaráðs. Svo sannarlega gríðarleg stemmning og einn af skemmtilegri viðburðum í félagslífi stúdenta á hverju ári.
Upphaf viðburðarins má rekja til þess að félag þýskunemenda við Háskólann hóf fyrir nokkrum árum að standa fyrir Októberfest að þýskri fyrirmynd. Hugmyndinni var gríðarlega vel tekið af háskólanemendum og stækkaði hátíð með ógnarhraða á milli ára og eru nú árlega yfir þrú þúsund gestir sem mæta á svæðið. Það fór því að lokum svo að framkvæmd Októberfestar var orðin of stór biti fyrir lítið nemendafélag þýskunema og tók Stúdentaráð Háskóla Íslands við framkvæmdinni.
Vissulega mikilvægt fyrir ölþyrsta námsmenn að Stúdentaráð hafi tekið við kyndli þýskunemenda og bjargað hátíðinni fyrst um sinn. En sú staðreynd að Stúdentaráð sjái um framkvæmdina vekur þó upp nokkrar spurningar.
Hvert er hlutverk stúdentaráðs? Er það réttlætanlegt að Stúdentaráð hagnist á nemendunum? – sem það er í hagsmunabaráttu fyrir? Er það réttlætanlegt fyrir Stúdentaráð að taka svona mikla áhættu þegar velta Októberfestar er svo stór hluti af heildarveltu Stúdentaráðs að ef eitthvað fer úrskeiðis er ljóst að litið verður eftir að fjármunum ráðsins til að halda uppi starfsemi?
Væri ekki einfaldlega réttast að Stúdentaráð myndi rétta kyndilinn áfram og fá einkaaðila eða jafnvel stærstu nemendafélögin til að sjá um framkvæmd hátíðarinnar og einbeita sér að raunverulegu hlutverki sínu – hagsmunabaráttu stúdenta.
Þessar spurningar eru settar fram í ljósi nýafstaðinnar Októberfestar þar sem ýmislegt fór úrskeiðis í framkvæmd hátíðarinnar og núverandi meirihluti hefur enn ekki svarað spurningum minnihlutans um fjárhagslega útkomu hátíðarinnar. Já, og skv. heimildum pistlahöfundar hafa raunar fengist þau svör frá framkvæmdastjóra Stúdentaráðs að hún viti yfir höfuð ekki hver staða ráðssins sé – enda hefur skiptafundur Stúdentaráðs enn ekki verið formlega haldinn, né lagðir fram reikningar.
- Fjárfestingar í sprotafyrirtækjum - 11. nóvember 2010
- Störfin sem vaxa ekki á trjánum - 22. september 2010
- Viðhorf á villigötum - 11. ágúst 2010