Það er ekki alltaf augljóst hvernig best sé farið með eignir hins opinbera, eins og umræða síðustu vikna hefur leitt vel í ljós. Þegar slík umræða geisar um þjóðfélagið eru skiptar skoðanir um hvort og hvernig skuli einkavæða og ýmsar hugmyndir koma fram. Hugmynd sem hefur komið upp af og til í sambandi við erfið einkavæðingarmál er að hið opinbera, hvort sem það er ríki eða sveitarfélag, gefi öllum almenningi hlutabréf fyrirtækisins. En hvaða vandamál er þessari hugmynd ætlað að leysa og hvaða vandamál leysir hún raunverulega?
Hugmyndin kom fram í sambandi við REI-málið og einnig hefur hún verið nefnd í sambandi við mögulega einkavæðingu á Landsvirkjun. Bæði þessi fyrirtæki byggja verðmæti sín að miklu leyti á orkuauðlindum sem mörgum finnst að eigi að vera í almannaeigu. Þess vegna finnst mörgum sárt til þess að hugsa að þessi fyrirtæki verði seld úr almannaeigu til fárra auðmanna. Þá óttast líka margir að þau viðskipti verði ekki útfærð á sanngjarnan máta og fáir muni njóta verðmæta hinna mörgu. Það að gefa hlutabréf opinbers fyrirtækis til almennings virðist ætlað að leysa bæði þessi vandamál, þ.e. að halda fyrirtækjunum einhvern veginn í almannaeigu og dreifa verðmætunum á sanngjarnan hátt. Raunin er að þessi aðgerð gerir hvorugt.
Að ákveða hvort skuli einkavæða og hvernig það skuli gert eru tvær aðskildar ákvarðanir. Um leið og ákveðið er að koma fyrirtæki úr opinberri eign missir það sitt félagslega hlutverk og verður að fjárhagslegri eign. Dreifð eign eftir einkavæðingu hefur ekkert um það að segja. Síðan er það spurningin hvernig þessari eign er komið úr höndum hins opinbera. Þar er eðlilegt að langtímahagsmunir almennings og sanngirni séu höfð að leiðarljósi.
Það að gefa sérhverjum einstaklingi, hverju einasta mannsbarni, hlutabréf er auðvitað ekkert annað en að senda öllum núlifandi borgarbúum eða Íslendingi eingreiðslu beint úr opinberum sjóðum. Verið er að taka eignir sem hafa verið langan tíma að myndast, mögulega með skuldsetningu hins opinbera, og gætu skilað arði til langs tíma og gefa þær burt í stað þess, til dæmis, að greiða niður skuldir. Þetta er því algjörlega samsvarandi því að láta hið opinbera taka lán, greiða borgurunum út og láta komandi kynslóðir borga brúsann seinna. Slíkar aðgerðir myndu fáum þykja eðlilegar.
Hið opinbera á eignir og á því hvíla skuldir. Þegar farið er út í stórar fjárfestingar er eðlilegt að skuldir aukist og að þær greiðist síðan niður samhliða rekstri tengdum þessum fjárfestingum. Að sama skapi er eðlilegt að þegar ríkið vill losa eignir fari þær á móti skuldum.
Ef fólki finnst eðlilegt að hið opinbera gefi ríkiseignir þegar það vill losa þær þá hlýtur að vera fullkomlega eðlilegt að almenningur fái gíróseðla þegar farið er út í stórar fjárfestingar, til dæmis byggingu 40 milljarða sjúkrahúss eða tónlistahúss í stað þess að dreifa greiðslubyrðinni á framtíðarskattgreiðendur eins og verið er að gera nú. Að sama skapi væri alveg eins hægt að ákveða að senda almenningi, hverju einasta mannsbarni, gíróseðil til að greiða niður stórar áhvílandi skuldir núna.
Allar þessar hugmyndir eru ekkert annað en skammsýni og ábyrgðarleysi gagnvart opinberum fjármálum. Það er út í hött að seilast svona svakalega í opinbera sjóði í stað þess að greiða niður skuldir, treysta stöðu opinberra sjóða og skapa þar með möguleika á skattalækkunum til framtíðar.
Eins og áður kom fram sprettur þessi hugmynd fram vegna þess að fólk telur að einkavæðing geti ekki farið fram án spillingar. Því fer víðs fjarri að ekki sé hægt að standa vel að einkavæðingu. Aðalatriðin eru að það sé vel skilgreint og öllum ljóst hvað verið sé að selja, hvaða eignir, réttindi og skyldur fylgi. Síðan þarf að gæta þess í söluferlinu að öllum sé tryggður möguleiki og jafn réttur á taka þátt í útboðinu. Þetta er hægt að gera á fjölmarga vegu. Hægt er að selja fyrirtækið á einu bretti til hæstbjóðanda. Hægt er að skipuleggja að selja hluta fyrirtækisins, til dæmis 10% hlut reglulega til hæstbjóðanda þar til allt fyrirtækið er selt. Þá væri einnig hægt er að bjóða almenningi að kaupa hlut samhliða slíkum uppboðum á sama verði. Það er engum vandkvæðum bundið að standa vel og heiðarlega að útboðum og skyndilausnir á borð við gjafaleiðina eru alveg óþarfar.
- Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak? - 5. ágúst 2011
- Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins - 13. apríl 2011
- Vill íslenska þjóðin stjórnlagaþing eða -ráð? - 1. mars 2011