Allir hafa fordóma, ég held að þessi yfirlýsing sé ekki lygi heldur bara ágætis staðhæfing hvort sem okkur líkar betur eða verr. En spurningin er þá sú hafa mínir fordómar áhrif á þig? Ég ætla rétt að vona ekki, ég vil ekki vera valdur þess að þú berir kala til einhvers bara vegna þess að mín skrif hafa vissan skoðana brag yfir sér. En eru einhverjir sem eru það valdamiklir að fordómar þeirra geti breytt skoðun samfélagsins?
Fjölmiðlar eru mjög valdamiklir, þeir eru valdamiklir vegna þess að þeir stjórna því að vissu leyti hvað mál eru í umræðunni hverju sinni. Skoðanir þeirra geta breytt þjóðmálaumræðunni svo rosalega að Alþingi þarf að taka málin fyrir, þjóðin tekur kúvendingu í skoðunum sínum og allt í einu snýst allt um eitthvað hitamál blaðanna. Gott dæmi er t.d. skoðun Morgunblaðsins á hinum svokallaða miðbæjarvanda, í kjölfar þess hefur lögreglan mætt í miðbæinn snúið niður menn fyrir það eitt að pissa utandyra allt til þess að binda enda á þennan hræðilega vanda sem við erum að glíma við. Ég persónulega hef ekki orðið vör við þennan vanda eina sem ég hef séð er að fólk er meira fyrir utan skemmtistaðina vegna þess að það er bannað reykja inni.
Ekkert bendir til þess að afbrot séu meiri núna í miðbænum en fyrir ári eða tveim árum síðan, hvers vegna er allt þetta drama? Jú vegna þess að fjölmiðlar og lögregla hafa búið til eitthvað vandamál, fólk verður hrætt við það að fara niður í bæ og hvað er þá eftir í miðbænum? Fjölmiðlar og lögregla hafa meira að segja svo mikil áhrif að nú hefur Borgarráð samþykkt að nú skuli minnka opnunartíma Q-bar vegna of mikils hávaða. Baldin Samúelsson annar eigandi staðarins og formaður Félags kráareiganda segir að umhverfissvið borgarinnar hafi hávaðamælt húsið og gefið barnum jákvæða umsögn, en hávaði fyrir utan húsið hafi verið of mikill en ekki er hægt að segja að einungis gestir staðarins myndi þennan hávaða.
Hvernig sem á það er litið hafa fjölmiðlar mikið vald og þeir verða að fara með það vel, þeir verða að gangast undir þeirri miklu ábyrgð sem á þá er lögð, þeir eru skoðanamyndandi og þess vegna skiptir öllu að fréttirnar séu óvilhallar svo að fólk geti tekið sína eigin afstöðu út frá lestri þeirra.
Undanfarið hef ég rekið augun í nokkrar fréttir sem eru dæmi um afar slæma blaðamennsku, þar eru blaðamenn sem vilja greinilega að frétt þeirra verði lesin mikið. Það lítur hálfpartinn út fyrir það að þeir séu að setja svo mikið kjöt á beinið að maður verður fullsaddur við það eitt að lesa fyrirsögnina. Blaðamenn verða að muna það að þeir eru þarna til þess að koma fréttum til skila, ekki til neins annars.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021